Fara í efni

Af hverju fær maður sinaskeiðabólgu og hvernig er hægt að losna við hana?

Sinar eru úr þéttum bandvef og tengja vöðva við bein. Á handarbaki eru sinar sem sjá um að rétta fingur en í lófa eru þær sinar sem beygja fingur.
Spelka til stuðnings vegna sinaskeiðabólgu
Spelka til stuðnings vegna sinaskeiðabólgu

Sinar eru úr þéttum bandvef og tengja vöðva við bein. Á handarbaki eru sinar sem sjá um að rétta fingur en í lófa eru þær sinar sem beygja fingur. Átta bein mynda úlnliðinn og lófamegin liggur trefjabandvefur (e. flexor retinaculum) milli fjögurra þeirra og myndar göng (e. carpal tunnel) sem sinarnar liggja um. Flestar sinar sem beygja fingur liggja um þess göng og eru þær umluktar sinaslíðri sem auðveldar hreyfingu þeirra. Um göngin liggja einnig æðar og taugar fram í hönd.

Sinaskeiðabólga (e. carpal tunnel syndrome) er ofálagseinkenni vegna endurtekinna einhæfðra hreyfinga sem reyna á úlnlið og valda bólgu í sinaslíðrum. Þar sem lítið pláss er í göngunum þrengir bólgan fljótt að þeim þáttum sem um þau liggja. Langvarandi bólga getur valdið veikleika í sin og í versta falli sliti.

kk

Einkenni sinaskeiðabólgu er verkur í úlnlið sem virkar þrútinn og jafnvel getur marrað í honum. Þrýstingur getur einnig komið á medianus-taugina sem veldur þá breyttri tilfinningu í lófa og fingrum. Algengt er að finna fyrir bruna- eða náladofatilfinningu samhliða verk og í verstu tilfellunum getur orðið rýrnun á þumalfingursvöðvum.

Í flestum tilfellum er nóg að hvíla liðinn og forðast hreyfingar sem reyna á beygivöðva, svo sem að halda á hamri eða spaða og áreynsluhreyfingar. Gott getur verið að nota úlnliðsspelku eða teygjusokk. Ef bati er hægur þrátt fyrir minnkað álag gæti þurft að leita til læknis eða sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfun og bólgueyðandi lyf eru gagnleg og í þrálátum tilfellum geta nokkrar sterasprautur minnkað bólguna. Í verstu tilfellunum þarf að framkvæma litla aðgerð (speglun), þar sem tvö göt eru gerð, annað í lófann og hitt í úlnliðinn og myndavél sett inn svo læknir geti séð göngin.

Aðgerðin er einföld og gerð við staðdeyfingu en eftir hana er notast við úlnliðsspelku í 4-6 vikur.

Heimild: visindavefur.is