Kannast þú við þessar afsakanir ?
Nokkrar "góðar" ástæður að því að huga ekki að heilsunni með reglulegri hreyfingu:
Enginn tími aflögu – Algengasta afsökunin í bókinni. Ef þú hefur ekki tíma fyrir heilsuna í dag, þá hefur heilsan ekki tíma fyrir þig á morgun! Við höfum 24 tíma í sólarhringnum og ættum öll að geta fundið 30 mín – 1 klst á dag til þess að hreyfa okkur. Það þarf ekki að vera inni svitamettaðri líkamsræktarstöð. Notum öll tækifæri dagsins til þess að hreyfa okkur s.s með því að nota stiga í stað lyftu og labba eða hjóla í stað þess að skutlast á bílnum.
Engin pössun fyrir börnin - Mjög algeng afsökun hjá barnafólki. En hví ekki að taka börnin með í hreyfingu? Fara út að hlaupa með barnið í kerru, eða fara með börnunum út að leika í snjónum. Fátt skemmtilegra en að hreyfa sig með börnunum sínum og þannig sýnum við líka gott fordæmi í hreyfingunni.
Veðrið - Veðrið er oft notað sem afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki. Annað hvort er það of gott eða of vont. Notum góða veðrið til hreyfingar útivið s.s hjóla, ganga, hlaupa, fjallgöngur, línuskautar, sund eða hvað sem ykkur í dettur í hug og finnst skemmtilegt. Ef veðrið er vont er þá bara enn betra að klæða sig vel og brosa framan í vonda veðrið. Ekkert er jafn frábært og láta vont veður herða mann og veitir ekki sumum innipúkum af smá slag við veðrið. Líka þegar veðrið er vont mágera æfingar heima í stofu eða í líkamsræktarstöð. Það þarf ekki að vera flókið nokkur sett af hlaupi á staðnum, armbeygjum, hnébeyjum og uppsetum.
Engin góð æfingaföt – Neanderdalsmaðurinn var á skinnpjötlu einni fata en var samt í fantaformi. Við þurfum ekki flottustu æfingafötin til að æfa. Ef við erum að spá því hvað aðrir í líkamsræktarstöðinni halda um okkur ef við komum í gamla RC Cola stuttermabolnum í ræktina þá eru nú langflestir svo uppteknir af sjálfum sér að þeir eru lítið að spá í klæðnaðiAuk þess fer tískan í hringi og gömlu æfingabuxurnar eða skórnir geta verið komin aftur í tísku áður en þú veist af.
Vanlíðan – Hérna erum við ekki að tala um veikindi með hita og veseni heldur bara almenna vanlíðan sem heyrist oft svo fólk komist hjá því að fara í ræktina s.s hausverkur , andleg vanlíðan eða magaverkur. Staðreyndin er sú að góð hreyfing er oft besta meðalið við þessari vanliðan. Prófaðu það næst þegar þér líður illa að hreyfa þig í stað þess að éta parkódín og vorkenna þér uppi í sófa, ég er viss um að þú munt finna mun á þér. Eftir góða æfingu flæðir hormónið endórfín um líkamann og sjaldan liður manni betur. Ég tala nú ekki um ef þú ferð út í náttúruna og hreyfir þig þá mun ferska loftið enn frekar auka líkurnar á því að þér muni líða betur.
Ég ætla að byrja á morgun“ – Hahaha.....þessi er best og er lík þessari með það að hafa ekki tíma. Hugsaðu um það hversu oft þú hefur sagt þetta? Er ekki kominn tími til að farir að standa við þessa fullyrðingu. Raunverulega er dagurinn í dag á morgun og hefur verið oft og mörgum sinnum! Hættum að plata okkur sjálf og gerum sál okkar og líkama greiða og förum að hreyfa okkur reglulega.
Mér finnst hreyfing ekki skemmtileg – Hér er komin afsökun sem ég hef heyrt nokkrum sinnum. Mér finnst heldur ekkert sérlega gaman að bursta tennurnar eða drekka lýsi en ég geri það afþví að ég veit að það er gott fyrir mig. En er reyndar svo heppinn líka að ég hef fundið hreyfingu sem mér finnst skemmtileg og ég fæ mikið útúr. Möguleikar á hreyfingu er svo endalausar að ég trúi því bara ekki að sá sem segi þetta hafi prófað allt sem hægt er aðgera í sambandi við hreyfingu!? Hreyfinguna e rmeira að segja hægt að gera mjög skemmtilega s.s afturábak hlaup, ganga á höndum, stríða hund nágrannans og láta hann elta sig, labba hringinn í kringum landið á höndum, gera 20 armbeygjur í hvert skipti sem þú blótar, vikulegt skrifborðsstólarallí í vinnunni, o.fl, o.fl. Það er ástæða fyrir því að við fæddumst með hendur og fætur, þessa útlimi eigum við að nota til að hreyfa okkur.
Mig vantar hvatningu og einhvern til að æfa með – Ég skil. Það er komið svo mikið af hópum sem eru að æfa saman að þetta er ekki afsökun lengur, s.s Crossfit, Bootcamp, bardagaíþróttir, hóptímar í líkamsræktarstöðvum, einkaþjálfarar sem bjóða uppá hópþjálfun. Hóaðu saman vinum þínum með þér í hreyfinguna, og ef þú átt ekki vini sem nenna að hreyfa sig farðu þá t.d í næstu Crossfitstöð því þar er fólk sem finnst ekkert skemmtilegra að æfa. Í Crossfit hef ég eignast mína bestu vini og sé aldrei eftir því að hafa byrjað að æfa Crossfit.
Ég nenni ekki – Hérna er líklega eini heiðarlegi náunginn á þessari plánetu sem þorir að láta þetta útúr sér. En já þetta er eina afsökunin sem er sönn af öllum þessum afsökunum. Þetta snýst nefnilega einfaldlega um aga og því að drulla sér af stað. Allar hinar afsakanirnar að ofan eru bara leið okkar til forðast að horfast í augu við það þurfa að hreyfa okkur og því frestum við því enn einn daginn, sem verður svo vikur og loks mánuðir og ár!
Heimildir: heilsugeirinn.is