Ágústa Johnsson í Hreyfingu tekin í létt spjall
Ágústa er nýkomin úr dásamlegu ferðalagi sem hún átti með fjölskyldunni í Bandaríkjunum yfir jól og áramót.
"Úthvíld og spræk er ég nú komin til vinnu og klár í stóru vertíðina. Það er allt komið á fullt í Hreyfingu, janúar og febrúar eru annasömustu mánuðir ársins í Hreyfingu og nú þegar allt er á suðupunkti, allir að skrá sig á námskeið og þeir sem fóru í pásu fyrir jólin eru að drífa sig í gang á ný"
"Við erum himinlifandi yfir hve nýja blaðið okkar fær flottar viðtökur, það stoppar ekki síminn og þannig viljum við hafa það."
"Þetta er alltaf svo skemmtilegur tími, mikil orka í loftinu, eldmóður og rífandi stemning. Námskeiðin okkar eru að hefjast í næstu viku og það er metskráning á þau svo það er ljóst að landinn er í stuði og ætlar sér að vera í flottu formi í vor " sagði Ágústa.
Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?
Alla virka daga vakna ég kl. 06.20, ég er A týpa, elska morgnana og tek mér góðan tíma til að útbúa hollan morgunverð og nesti fyrir börnin. Er oftast búin að skella í deig kvöldið áður og hendi í rúnnstykki á morgnana. Geri ferskan og hollan safa í safapressunni og fæ mér svo rúnnstykki með möndlusmjöri og góðan kaffibolla og les Moggann. Þetta er mín gæðastund.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Egg á ég alltaf til í ísskápnum.
Hver eru skemmtilegustu námskeiðin sem þú ert með hjá Hreyfingu ?
Þau eru öll skemmtileg, hvert á sinn hátt. Þau sem eru vinsælust núna eru Fimm stjörnu Fit, æfingakerfið sem mótar líkamann í sitt fegursta form, rólegar æfingar en nokkuð krefjandi og ótrúlega flottur árangur og einnig eru Club Fit námskeiðin okkar geysivinsæl jafnt hjá konum og körlum.
Þar er æft á hlaupabrettum og með lóðum til skiptis í stuttum lotum. Tími sem er skemmtilegur og líður hratt og þar ertu með allar þær æfingar sem þú þarft til að komast í flott aðhliða form, aukið þol og styrkur og leiðist ekki eina mínútu.
Svo erum við með fleiri námskeið s.s. Hot Fitness í heitum sal, einnig mjög vinsælt og nýtt námskeið FF-12 sem er 12 vikna átaksnámskeið fyrir konur sem vilja losna við 10kg.+ Svo má nefna Þrennuna, Dansfjör, Fanta gott form og Móðir og barn.
Allt flott og skemmtileg námskeið, fer bara eftir því hvað hentar hverjum og einum best.
Hvernig leggst skammdegið í þig ?
Sumarið er minn tími klárlega og ég er bjartsýnni og kátari á björtum dögum. En verandi Íslendingur þá auðvitað venst maður blessuðu skammdeginu og gerir þá bara meira af því að kveikja á kertum, skapa notalega stemningu og búa til birtu og yl á annan hátt.
Ef einhver er að byrja að hreyfa sig aftur eftir t.d veikindi, hverju myndir þú mæla með, þ.e hvernig væri best að byrja ?
Alltaf best að byrja rólega og "hlusta" á líkamann og auka álagið smám saman. Gott t.d. að byrja á því að fá leiðsögn hjá fagmanni. Í janúartílboði Hreyfingar fylgir t.d. frítt með 12 vikna áskorun þar sem eru m.a. innifaldir 3 tímar hjá þjálfara, mælingar og markmiðasetning, sérsniðin æfingaáætlun og tækjakennsla, ég myndi mæla með því fyrir alla sem eru að byrja, hvort sem er eftir hlé frá þjálfun eða koma sér í gang eftir veikindi.
Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?
Ég æfi ca 3x-4x í viku, um þessar mundir fer ég t.d. oft í Club Fit sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, snilldar tímar, og einnig fer ég líka stundum bara á brettið og í salinn að lyfta. Ég legg áherslu á að hafa æfingarnar fjölbreyttar og er því iðulega breyta til.
Áttu uppáhalds tíma dags ?
Fyrstu 1-2 klukkutímarnir eftir að ég vakna
Hvað ert þú búin að vera lengi í líkamsræktarbransanum?
Lengi lengi! Ég byrjaði að kenna Jane Fonda leikfimi þegar ég var 17 ára, var í Versló og stýrði þá leikfimishóp 3x í viku. Þetta voru vinkonur mínar og svo spurðist þetta fljótt út og hópurinn stækkaði, það var byrjunin á öllu ævintýrinu.
Kaffi eða Te ?
Kaffi fyrrihluta dags og Te á kvöldin.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Öfgar eru alltaf að færast í aukana, öfgar í mataræði og öfgar og offors í þjálfun, því er mitt besta almenna ráð einfaldlega þetta gamla góða sem alltaf stendur fyrir sínu:
ALLT er gott í hófi.