Áhyggjur eru bæn, hvað ætli Guðni sé að hugleiða í dag?
Áhyggjur eru bæn. Þess vegna eru flestir uppteknir af því sem þeir vilja ekki. Þjáningin gengur út á þetta hugarástand; við beinum öllu ljósinu á sársaukann; á ofþyngdina og það sem við viljum ekki vera. Upp úr þessari athygli á skortinn fæðist þjáningin.
Okkur hefur verið tamt svolengi að einblína á það sem við viljum ekki að við vitum varla sjálf hvað við viljum. Við vitum miklu frekar hvað við viljum ekki – og með því að beina stöðugt athygli að því viljum við það til okkar. Það sem við viljum ekki verður okkar vilji – með sterku ljósi athyglinnar. Við vökvum og nærum græna grasið hinum megin við lækinn.
Ein æfingin á námskeiðum mínum felst í því að þátttakendur strika eina línu á mitt blað, skrifa vinstra megin allt sem þeir vilja ekki og hægra megin allt sem þeir vilja. Að þessu loknu er blaðið brotið í tvennt og hliðinni með „vil ekki“ er snúið niður. Þetta er einföld leið til að beina athyglinni
að því sem við viljum, frekar en að skortinum í lífinu. Og merkilegt nokk þá reynist öllum miklu, miklu erfiðara að skrifa það sem þeir vilja ... en
vinstri hliðin fyllist eins og ekkert sé.
Við tökum ábyrgð og viðurkennum að það sem við höfum, höfum við viljað til þessa.