Athygli og ábyrgð - föstudagshugleiðing Guðna
Hvert erum við komin? Og hver lét okkur komast þangað?
Athygli og ábyrgð. Í því fólust fyrstu tvö skrefin. Athygli er ljós sem er ást sem er kærleikur. Það er ekkert annað til en ást og ljós – allt annað er blekkingarleikur skortdýrsins, tómstundagaman villidýrs sem vill ekki láta ljós okkar skína því þá missir það valdið yfir okkur.
Ábyrgð er að mæta fyllilega í það eina sem er satt, það eina sem við eigum, það eina sem er og hefur nokkurn tímann verið: Í núið. Ábyrgð er að bera fulla ábyrgð á því að vera svona, hér, núna – að bera fulla ábyrgð á eigin orku; eigin gjörðum og þátttöku í aðstæðum fortíðarinnar, sama hvort þær voru ánægjulegar eða tilfinningalega erfiðar.
Athygli er ljós sem er ást.
Ábyrgð er að mæta á staðinn og í stundina – að mæta í máttinn og þiggja aftur valdið yfir eigin lífi og líðan. Að mæta í valdið sem er valið, að mæta í máttinn til að velja en ekki bregðast við upp úr forsendum skortdýrsins.
Hvað tekur við eftir þessi fyrstu skref? Tilgangurinn.
Tilgangurinn tekur við.