Áverkar á fremra krossbandi
Fremra krossbandið liggur frá efri frambrún sköflungs upp og aftur og festist á neðri og aftari brún lærleggsins.
Hlutverk þess er að styrkja hnéð og hindra að leggurinn færist fram ávið m.t.t. lærleggsins. Algengast er að fremra krossbandið skemmist við íþróttaiðkun og samfara aukinni íþróttaiðkun hefur tíðni áverka á fremra krossband aukist. Þegar við réttum úr hnénu er það fremra krossbandið sem fyrst strekkist á. Mikilvægt er að hafa í huga að við áverka á hné skemmist oft fleiri en einn strúktur í hnénu.
Helstu orsakir fyrir skemmdum á fremra krossbandinu
Helsta ástæða fyrir skemmdum á fremra krossbandinu er þegar staðið er í fótinn (leggurinn fastur) og snúið er snögglega (lærleggurinn á hreyfingu) og skapast þannig mikið álag á hnéð og hætta á að fremra krossbandið rifni. Dæmi um íþróttagreinar þar sem þessi hreyfing er algeng er körfubolti, fótbolti og svigskíði svo eitthvað sé nefnt. Oft heyrir sjúklingur þegar liðbandið rifnar og finnur að hnéð gefur sig.
Hver eru einkenni skemmda á fremra krossbandinu?
Bólga: sem kemur strax eftir áverkann. Hnéið bólgnar fljótt eftir áverkann og er bólgan tilkomin vegna blæðingar inn í hnjáliðinn frá æðum sem liggja í liðbandinu og rifna um leið og liðbandið.
Óstöðugleiki í liðnum: rifni fremra krossbandið verður hnéð óstöðugt þar sem sköflungurinn getur leitað fram á við, svokölluð skúffuhreyfing verður í hnénu. Sjúklingur hefur það á tilfiningunni að hnéð sé „að gefa sig“. Einnig fylgir sú tilfinning að hnjáliðurinn detti aftur og ofrétta komi í liðinn.
Bólgan gengur yfir á 2–4 vikum en eftir stendur óstöðugur liður. Ef liður er óstöðugur er aukin hætta á sliti og þá er mikilvægt að lagfæra krossbandið.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Sjúkrasaga og skoðun gefur miklar upplýsingar. Ef bólga hefur komið fram strax og áverkinn varð, eru allar líkur á að um rof á liðbandi eða liðþófa sé að ræða. Hinsvegar ef bólga kemur ekki fram fyrr en mörgum klukkustundum síðar er líklegra að um vökvasöfnun vegna bólgusvörunar sé að ræða.
Til að greina á milli hvort bólga í liðnum sé vegna vökvasöfnunar eða blæðingar er stungið á liðinn og vökvinn dreginn út til greiningar, það léttir jafnframt á þrýstingi í liðnum og verkir minnka.
Myndgreining: röntgenmyndataka getur reynst nauðsynleg til að útiloka að um beinbrot sé að ræða. Liðbönd, sinar og liðþófar sjást illa á röntgenmynum en sjást aftur vel með segulómun. Segulómun er dýr rannsókn og því er yfirleitt ekki gerð nema í einstaka tilfellum þegar nauðsynlegt er að fá frekari upplýsingar um önnur liðbönd í hnénu eða liðþófana.
Liðspeglun: er notuð bæði til greiningar og meðferðar. Fyrir aðgerðina þarf að svæfa sjúkling og felur aðgerðin í sér að gerðir eru tveir litlir skurðir og fer bæklunarlæknir með annarsvegar örgranna myndavél og hinsvegar vinnuáhald inn í liðinn og gerir það honum kleift að skoða hnjáliðinn að innan og greina áverka. Læknirinn fær svo fram mynd á sjónvarpsskjá og getur þannig séð innra borð hnésins og greint áverka mjög nákvæmlega. Liðspeglun gefur einnig þann möguleika að framkvæma aðgerð þar sem skemmt liðband er byggt upp að nýju.
Meðferð
Við áverka er best að byrja á að leggja kaldan bakstur við áverkann til að minnka blæðingar og bólgu, hafa fótinn í hálegu og ef mögulegt er að setja þrýsting á hnéið. Ef grunur leikur á að um áverka á fremra krossbandið sé að ræða er oftast dregið blóðið úr hnénu og er það gert bæði til greiningar og til að létta þrýstingi af hnénu og minnka þannig óþægindi. Hvíld fyrir hnéð er mikilvæg og sjúklingur er látinn notar hækjur sér til stuðnings.
Þegar bólga í hnénu og verkirnir hafa minnkað er rétt að byrja sjúkraþjálfun, sem miðar að því að styrkja vöðvana umhverfis hnéið sem auka þannig á stöðugleika liðarins og að ná eins góðu hreyfiferli og mögulegt er. Við rof á fremra liðbandinu rifna einnig taugaendar sem hafa það hlutverk að nema stöðuskyn og eru okkur því nauðsynlegir til þrívíddarskynjun sé í lagi. Þessir taugaendar vaxa aftur og góð sjúkraþjálfun hjálpar til svo þeir nái að gegna hlutverki sínu aftur. Spelkur eru notaðar til að auka á stöðugleika í hnénu, þessar spelkur þarf að sérhanna fyrir hvern einstakling. Í þeim tilfellum þar sem sjúkraþjálfun og spelka duga ekki og valda því að einstaklingi með slitið krossband finnst vandamálið hamla því að hann geti tekið þátt í þeim daglegu athöfnum eða íþróttum sem hann hefur hug á, er rétt að huga að aðgerð.
Ekki er til nein ein meðferð sem hentar öllum og er það einstaklingsbundið hvaða meðferð best er að velja. Hvenig velja á framhaldsmeðferðina fer eftir nokkrum þáttum, s.s. því hversu stöðugur liðurinn er, hvort einnig hafi orðið skemmdir á liðþófum eða öðrum liðböndum, aldri sjúklings og hversu mikið sjúklingur hreyfir sig.
Fylgikvillar
Óstöðugleiki í hnénu sem flýtir fyrir slitmyndun og gerir hnéð veikara fyrir og eykur þannig hættu á frekari skemmdum.
Heimild: doktor.is