Bergljót Arnalds rithöfundur og leikkona gaf sér tíma í smá spjall
Þessa dagana er hún að leika í mynd Marteins Þórssonar, Á morgun verðum við eitt, og sækir söngnám hjá Complete Vocal Technic.
Hún hefur skrifað margar þekktar barnabækur og fyrir skemmstu hannaði LÍN design rúmföt byggð á metsölubók hennar, Talnapúkanum. Bergljót semur tónlist og hannar tölvuleiki og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, svo sem AUÐAR-verðlaunin fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.
Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?
Í morgunmat fæ ég mér hafragraut með rúsínum og mjólk eða morgunþeyting sem inniheldur skyr, jarðarber, banana og epli. Stundum fæ ég mér líka súkkulaði og alltaf einn kaffibolla. Morguninn byrja ég yfirleitt á því að knúsa dóttur mína.
Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?
Já, smjör, lýsi, drykkjarvörur og aðrar nauðsynjar. Svo passa ég alltaf að það sé til súkkulaði í skápnum.
Hvað er það lang skemmtilegasta sem þú gerir ?
Skapa og elska. Finna vindinn í hárinu og upplifa ævintýrin í lífinu.
Hvernig leggst skammdegið í þig ?
Ágætlega. Kveiki mikið á kertum og spila stundum á píanóið. Þetta er líka skemmtilegur tími að því leyti að það er oft margt að gerast í menningarlífinu. Það er líka nauðsynlegt að drífa sig út í göngutúr með hundinn, þótt veðrið sé ekki alltaf gott og ná að upplifa birtuna yfir daginn.
Borðar þú allan mat eða ertu grænmetisæta ?
Ég borða flest, nema ólívur. Finnst ólívupestó samt gott ;)
Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?
Ég er mikið fyrir að teygja og vera liðug. Ég fer til dæmis í hot yoga, göngutúra meðfram sjónum með hundinn, í sund og dansa. Ég þarf að huga vel að líkamanum því ég hryggbrotnaði á tveimur hryggjaliðum í hestaslysi fyrir rúmum tveimur árum síðan. Mér finnst líka gott að gera hugarleikfimi, hugleiða og reyna á mig á nýjum brautum. Ég reyni að hreyfa mig og læra eitthvað nýtt á hverjum degi þótt það sé smátt. Þegar mér tekst það líður mér vel, en stundum fær annað forgang. Það má líka ekki gleyma því að bara það að hlæja æfir magavöðvana svo góð stund með vinum getur líka verið ágætis líkamsþjálfun.
Áttu uppáhalds tíma dags ?
Þær stundir þegar ég er að skapa eða upplifa lífið með sjálfri mér eða þeim sem ég elska.
Færir þú hjólandi um borgina ef færð og aðstæður leyfðu ?
Ég hjólaði mikið þegar ég bjó í nokkrar vikur í Kaupmannahöfn og hjóla stundum hér heima. Ég myndi áreiðnalega hjóla meira ef aðstæður leyfðu.
Kaffi eða Te ?
Fer eftir stað og stund.
Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það?
Muna að ef ekkert væri myrkrið þá gætum við ekki skilgreint ljósið.
Ég er líka mjög hrifin af Buddha spekinni sem ég lærði á ensku og ætla ekki að þýða hér: In the end only three things matter:how much you loved, how gently you lived and how gracefully you let go of things not meant for you.