Borðað yfir tilfinningar
Ef við neitum okkur ítrekað um mat sem okkur langar í, eða við þörfnumst, getum við smám saman orðið uppfull af skortstilfinningu og sjálfshöfnun.
Boð og bönn, og sterk skortstilfinning, geta æst upp löngun í það sem á bannlistanum er. Löngunin getur orðið svo sterk að við gefumst upp. Þá er hætt við stjórnleysi, að hin bannaða matvara verði borðuð í yfirmagni, og við sjáum svo eftir öllu saman.
Ef við látum stífar matarreglur lönd og leið, og leyfum okkur að borða það sem okkur langar í, þá nægir oftast lítið eða hæfilegt magn til að deyfa matarlöngunina. Skortstilfinningin hverfur, sjálfshöfnunin, og stjórnleysistilfinningin líka. Þetta mætti kalla skortshemjandi mataræði.
En þýðir það að við eigum að láta allt eftir okkur? Er það skynsamlegt?
Til að svara þessu skulum við velta fyrir okkur ástæðu matarlöngunar. Ástæðurnar eru raunar fjölmargar. Ein ástæðan er sú að við erum svöng, að maginn er tómur og líkaminn kallar á næringu og orku. Önnur ástæða er sú að maturinn er til staðar, að freistingin er fyrir framan okkur. Þriðja ástæðan að við sjáum aðra borða, viljum komast inn í hópinn, vera með, tengjast þeim með sameiginlegri upplifun af matnum. Fjórða ástæðan hefur ekkert með líkamann eða mat að gera, heldur sálarástand okkar; að okkur leiðist, við séum jafnvel sorgmædd, reið eða hrædd, að við viljum hugga okkur eða róa með góðu bragði, eða fylla upp í andlegt tóm með mat.
Til að greina milli allra þessara ástæðna er gott að hlusta á líkamann, leggja jafnvel hönd á kviðinn. Er maginn örugglega tómur? Er líkaminn að kalla á næringu? Við getum líka litið á klukkuna og reiknað út hversu langt er liðið frá síðustu máltíð. Er kominn matmálstími?
Ef matarlöngun er vegna erfiðra tilfinninga getum við prófað að kafa aðeins dýpra eftir ástæðunni. Hver er ástæða þess einmanaleika, sorgar, ótta eða reiði sem við finnum? Getum við gert eitthvað annað en að borða, til að breyta því hvernig okkur líður? Við getum alla vega sett það á langtímaáætlun að finna raunverulega lausn á þessum erfiðu tilfinningum.
En hvað er til ráða á því augnabliki þegar okkur langar að borða, þó við séum ekki svöng?
Besta ráðið er að leiða hugann að öðru, grípa bók til að lesa, hringja í vin eða vinkonu, fara út að ganga, setjast við tölvu eða sjónvarp (án þess að maula á meðan). Ef það dugar ekki er gott að hafa í huga að á meðan líkamlegt hungur eykst jafnt og þétt þar til við fáum okkur að borða, kemur tilfinningaleg matarlöngun í bylgjum, hún kemur og fer. Við getum prófað að bíða hana af okkur í anda gjörhygli. Beinum athyglinni inn á við, fylgjumst með matarlönguninni vaxa og ná hámarki. Minnum okkur á að þessi löngun er ekki hættuleg, við þurfum ekki endilega að bregðast við henni. Hún mun dofna og hverfa. Svo kemur að næsta matmálstíma, og þá getum við notið þess að mæta hæfilegri líkamlegri svengd með góðum mat.
Ef ekkert dugar, og tilfinningaleg löngun í mat verður óviðráðanleg, getum við tekið meðvitaða ákvörðun um að fá okkur smávegis af því sem okkur langar í.
Skortshemjandi millibiti getur dugað til að sefa matarlöngunina, þó matur geti ekki fyllt upp í sálrænar holur.
Heimild: heilraedi.is