Breyting á fyrirkomulagi leitar að leghálskrabbameini
Um síðustu áramót varð sú breyting á þjónustu Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands að nú býðst öllum konum á aldrinum frá 23 ára til 65 ára að koma í leghálskrabbameinsleit á þriggja ára fresti, en áður var leitað á tveggja ára fresti hjá konum á aldursbilinu frá 20 ára til 69 ára.
Þessar breytingar byggja fyrst og fremst á læknisfræðilegum forsendum. Fyrirkomulag krabbameinsleitar í brjóstum er hins vegar óbreytt, konur á aldrinum frá 40 ára til 69 ára verða áfram velkomnar til brjóstakrabbameinsleitar.
Krabbamein og frumubreytingar í leghálsi eru af völdum HPV veirunnar en flestar HPV-sýkingar eru einkenna- og hættulausar og ganga til baka. Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá konum yngri en 24 ára og þótt margar ungar konur smitist af HPV stuttu eftir að þær hefja kynlif hverfur sýkingin hjá helmingi þeirra sem smitast á um sex mánuðum og í um 90% tilvika er hún horfin innan tveggja til þriggja ára.
Þess vegna er ekki talið nauðsynlegt að leita skipulega að krabbameini í leghálsi fyrr en við 23ja ára aldur. Ef byrjað er að leita fyrr eru meiri líkur á ónauðsynlegu eftirliti, leghálsspeglunum og keiluskurðum vegna frumubreytinga sem hefðu aldrei þróast i leghálskrabbamein. Rannsóknir sýna að leit að leghálskrabbameini sem fer fram á þriggja ára fresti gerir mest gagn og veldur minnstum skaða.
HPV- sýkingar eru sjaldgæfar hjá eldri konum og líkur á að greinast með leghálskrabbamein minnka með hækkandi aldri og eftir því sem skoðunum sem sýna eðlilegt ástand fjölgar. Áhættan er því lítil hjá eldri konum sem mætt hafa reglulega til leitar og því er ekki talin ástæða til að boða konur eldri en 65 ára til reglulegrar leghálskrabbameinsleitar.
Leghálskrabbmeinsleit lýkur ekki við 65 ára aldur hjá konum sem eru undir eftirliti vegna frumubreytinga eða leghálskrabbameins. Þeim er boðin áframhaldandi skoðun í samræmi við leitarleiðbeiningar. Konur sem hafa verið einkennalausar í fyrri skoðunum en finna til einkenna frá kvenlíffærum eftir 65 ára aldur hvetjum við hins vegar til að leita beint til læknis.
Krabbameinsfélag Íslands hefur annast legháls- og brjóstakrabbameinsleit hér á landi um árabil auk þess að taka þátt i fræðslu fyrir almenning um áhættuþætti, forvarnir og einkenni krabbameina. Leit að leghálskrabbameini fer fram í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Reykjavik, á heilsugæslustöðvum og á sjúkrastofnunum víðs vegar um land en öll sýni eru hins vegar rannsökuð á Frumurannsóknastofu Krabbameinsfélagsins.
Krabbameinsleitin fer fram samkvæmt reglum sem settar eru af heilbrigðisyfirvöldum í samráði við Embætti landlækis sem er eftirlitsaðili leitarstarfsins.
Spurningar og svör um leghálskrabbameinsleit.
Spurningar og svör um HPV.