Dómarahlutverkið - Guðni og hugleiðing dagsins
Sönn ást er tær vitund, hrein athygli og hrein hlustun.
Það felur í sér að láta af efasemdum og gagnrýni – að hætta að dæma og hafa endalausar skoðanir á hinu og þessu. Ef þú hefur áhuga á því að upplifa hreina birtingu fólksins í lífi þínu er kominn tími til að láta af dómarahlutverkinu. Án dómarans eru allar manneskjur fallegar – líka þú – á því augnabliki sem þú veitir þeim hreina athygli og tæra hlustun. Þeim er treyst til að vera eins og þær eru, þær eru dáðar fyrir allt sem þær eru – og þá opna þær sig til fulls.
Rétt eins og blóm sem opnast þegar það lifir í velsæld og jafnvægi. Eins og blóm sem hefur heilnæma næringu, mátulegt rými, skýran tilgang og ljómandi sól yfir allri sinni tilveru.
Hjartað vill að þú veitir því athygli. Að þú hlustir þegar það tjáir sig og syngur.
Að vakna til vitundar er að skilja að þú ert ekki hugsanir þínar; að vera í vitund er að vera athugult vitni sem elskar það sem ber fyrir augu, að vera ekki saksóknari, dómari og fangavörður.