Einbeiting í keppni
Einbeiting er einn af þeim sálfræðilegu þáttum sem setja mark sitt á frammistöðu íþróttafólks í keppnum.
Segja má að til þess að íþróttamaður nái að kalla fram alla sína hæfni í keppni þurfi hann að vera með sterka einbeitingu.
Sé einbeiting ekki til staðar er íþróttamaður ekki að fullnýta sína hæfileika í keppninni.
En hvað er sterk einbeiting. Að hverju á íþróttafólk að einbeita sér í keppnum? Hvað eru þjálfarar raunverulega að fara fram á við íþróttafólkið sitt þegar þeir krefjast þess að það sýni fulla einbeitingu?
Það er mikilvægt fyrir íþróttafólk að fara inn í keppnir með skýrt, afmarkað og einfalt leikskipulag. Keppandi í 800 metra hlaupi fer ekki inn í hlaupið með það eitt í huga að hlaupa eins og hann getur þar til hann er kominn yfir marklínuna, heldur þarf hlauparinn að fylgja mjög skýru skipulagi í sínu hlaupi. Fyrir hlaupið er búið að teikna nákvæmlega upp hversu hratt hann ætlar að hlaupa á hverjum kafla hlaupsins og hvar í hlaupinu hann ætlar sér að framkvæma hraðabreytingar. Það er að þessu leikskipulagi sem hlauparinn þarf að einbeita sér að á meðan hlaupið stendur yfir. Að sama skapi fer fótboltakona ekki inn í fótboltaleik með það eitt í huga að spila góðan fótbolta og berjast. Heldur þarf að vera búið að skilgreina í hverju góður fótbolti felst fyrir þennan tiltekna leikmann. Hvað þarf fótboltakonan að framkvæma til þess að vera að spila góðan fótbolta. Sé allrar fagmennsku gætt ætti fótboltakonan að fá úthlutað skýru og afmörkuðu hlutverki í leikskipulagi síns liðs fyrir hvern einasta leik. Slíkt hlutverk gæti hljóðað eitthvað á þá leið að hún eigi að gæta þess að tiltekin leikmaður í liði andstæðingsins fái ekki stundarfrið með boltann á fótunum, hún eigi að djöflast í henni um leið og hún fær boltann. Annað hlutverk þessarar fótboltakonu gæti verið að leitast við að senda boltann á tiltekin samherja á ákveðið svæði á vellinum þegar hún fær sjálf boltann í sóknarstöðu, og staðsetja sig á fyrirfram ákveðnu svæði í föstum leikatriðum sóknarlega. Loks ættu golfarar að vera búnir að ákveða hvert einasta högg sem þeir ætla sér að taka á golfhringnum áður en haldið er út á völl og vera þannig með skýrt skipulag í höndunum.
Góð einbeiting í keppni snýst fyrst og fremst um meðvitund um núið og að framkvæma eigið leikskipulag hvað sem á gengur. Góð einbeiting snýst um að íþróttafólk sé stöðugt meðvitað um hvað sé að gerast í kringum sig og innra með sér, hvað það sér, heyrir, finnur, hugsar og framkvæmir. Góð einbeiting snýst um að íþróttafólk sé stöðugt meðvitað um eigin leikskipulag og að það sé að framkvæma það í einu og öllu. Þetta kann að hljóma einfalt en í keppnum eru fjöldinn allur af andlegum hindrunum sem gera þennan fókus erfiðan.
Hugsanir um mistök sem maður gerði fyrir tveimur mínútum síðan, hugsanir um slæma ákvörðun sem liðsfélagi tók fyrir hálfri mínútu síðan, hugsanir um mögulega niðurstöðu keppninnar eða aðrar hugsanir um fortíð eða framtíð troða sér gjarnan uppfyrir núið og . . . LESA MEIRA