Enginn leikur sér að því að líða illa
Viðtal: Páll Kristinn Pálsson
Eymundur Lúter Eymundsson er 48 ára gamall Akureyringur sem þjáðst hefur af kvíða, þunglyndi og félagsfælni frá unga aldri. Leið hans út úr þeim hremmingum hefur verið löng og erfið og núna berst Eymundur fyrir auknum skilningi og úrræðum fyrir börn og ungmenni sem eiga við sama vanda að glíma.
„Ég fann það svo sterkt þegar ég byrjaði í barnaskóla að það var eitthvað að hjá mér og leið strax illa innan um krakkana,“ sagði Eymundur þegar við hittumst á dögunum yfir kaffibolla í stuttri heimsókn hans til höfuðborgarinnar. „Ég var fullur kvíða og skammaðist fyrir sjálfan mig. Þetta fór þó ekki að hafa veruleg áhrif á mig fyrr en ég varð ellefu tólf ára gamall og gelgjuskeiðið að hefjast. Þá var ég kominn með mikla félagsfælni. Vanlíðanin var stöðug og ég var farinn að fela ástandið með trúðslátum til að enginn sæi hvernig mér liði. Ég átti erfitt með að læra, erfitt með að einbeita mér og sá engan tilgang með náminu. Ég var jafnframt reiður yfir því hvernig mér leið, reiður í eigin garð. Ég þorði heldur ekki að tala um líðan mína við nokkurn mann, var svo hræddur um að gert yrði lítið úr mér. Eftir grunnskólann var því ekki mögulegt fyrir mig að halda áfram og hefja nám í framhaldsskóla."
Sjálfsmorðshugsanir á hverjum degi
Eymundur fór að vinna hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Sana. „En ég fór ekki í kaffi, ekki í mat og mætti ekki á starfsmannafundi. Samt var ég alltaf virkur í íþróttum. Margir eiga mjög erfitt með að skilja það. Ég var meira að segja í félagsíþrótt, spilaði fótbolta með Þór. Ég leit út fyrir að fúnkera félagslega, en eftir að ég varð fimmtán sextán ára fór ég aldrei með félögunum í bíó eða neitt svoleiðis. Ég þorði aldrei að fara og þorði aldrei að segja þeim af hverju það var. Ég vissi heldur í rauninni ekki hvað var að mér. Ég réði ekkert við taugakerfið, ég roðnaði og klökknaði í tíma og ótíma og það gerðist bara án þess ég réði nokkru um það. Ég notaði áfengi heilmikið til að slá á líðanina, þegar félagarnir voru að drekka þá gat ég komið, og var alltaf búinn að drekka í mig kjark til að komast til þeirra. Hins vegar kláraði ég íþróttirnar, fór upp alla leið upp í meistaraflokkinn hjá Þór en skipti þá yfir til Magna í Grenivík, hinumegin Eyjafjarðarins, vegna þess að ég treysti mér ekki lengur til að vera með gömlu félögunum. Ég var alltaf að flýja. Alltaf þegar ég lagðist til svefns á kvöldin kveið ég fyrir að vakna daginn eftir, kveið fyrir öllum deginum, kveið fyrir að þurfa að hitta annað fólk.“
Tók fjölskylda þín ekki eftir hvernig þér leið?
„Nei, mér tókst alltaf að leyna þessu. Ég var fjórði í röðinni af sex systkinum og reyndi eins og ég gat að taka ekki þátt í fjölskyldulífinu. Ég fór ekki einu sinni út í búð. Átján ára var ég farinn að borga þeirri yngstu af þremur systrum mínum fyrir að út í búð fyrir mig, hún var níu ára og ég lét hana einnig fara í bankann fyrir mig. Allir héldu að ég væri svona góður að skaffa henni tækifæri til að vinna sér inn pening. Ég keypti mér íbúð árið 1995 og bjó í henni í hálft ár. Ég fór aldrei í Bónus að versla inn, heldur í Hagkaup klukkan hálfátta á kvöldin, þá voru fæstir að versla og ég fór alltaf í kerfi fyrir framan kassastelpuna.
Þegar ég tók bílpróf og eignaðist bíl rúntaði ég aldrei niður í bæ á kvöldin, heldur fór í myrkrinu í stóran hring utan um bæinn. Mér fannst meira að segja óþægilegt að stoppa á rauðu ljósi og þegar ég ók á milli Akureyrar og Reykjavíkur stoppaði ég aldrei í vegasjoppunum, heldur einhvers staðar á milli þeirra ef mér var mál að pissa.“ Hvað með kærustur?
„Það var ekkert svoleiðis í gangi hjá mér. Ég kynntist konum þegar ég var undir áhrifum áfengis og sumar vildu nánara samband, en ég bara gat það ekki. Ég hætti í fótbolta 27 ára gamall, greindist með bein í bein í mjaðmarlið. Fjórum árum seinna var skipt um þann lið í mér, það var 1998. Ég fór illa með mig á þessum árum, vann eins og brjálæðingur. Ég vann lengstaf í bjórframleiðslunni hjá Víkingi á Akureyri. Ég var einn á lagernum, sá um allt þar, og þótt ég fengi mörg tilboð um önnur störf þorði ég aldrei að hreyfa mig út af lagernum. Ég var í eins konar syndrómi og þorði ekki að fara úr því. Enn þann dag í dag veit ég ekki af hverju ég er á lífi, vegna þess að frá tólf, þrettán ára aldri herjuðu sjálfsmorðshugsanir á mig á hverjum degi."
Viðsnúningurinn hefst
Eymundur telur það hafa bjargað lífi sínu þegar hann þurfti árið 2004 að fara aftur í mjaðmaliðarskipti, sömu megin. „Aðgerðin heppnaðist reyndar ekki nógu vel þannig að ég hef verið verkjasjúklingur æ síðan. En þess vegna þurfti ég að fara í verkjaskólann inni á Kristnesi, og þar fékk ég mína fyrstu fræðslu um kvíða, félagsfælni og þunglyndi. Þá má segja að ferð mín til bata hefjist, því þegar ég fór að lesa mér til um þessa hluti rann rann upp fyrir mér ljós: Ég var þarna að lesa um sjálfan mig frá a til ö og skildi af hverju mér hafði liðið svona illa allar götur frá því ég var krakki. Þetta var algjör opinberun og þá sá ég líka að ég átti von um að losna úr þessu víti.
Ég talaði strax við yfirlækninn á Kristnesi og hann útvegaði mér viðtal við sálfræðing á staðnum. Ég man vel eftir því að ég hágrenjaði bara í fyrsta tímanum hjá honum. Þarna er ég 38 ára gamall. Þetta var að vori og ég átti von á framhaldstímum um sumarið, en það varð aldrei. Um haustið fór ég svo í örorkumat. Þá kom læknir að sunnan að meta mig og hann spurði meðal annars um hvort ég ætti við einhverja andlega erfiðleika að stríða. Ég sagði honum undan og ofan af ástandi mínu og hann ráðlagði mér að hafa samband við heimilislækninn minn og byrja að gera eitthvað í mínum málum.
Eftir að hafa hlustað á sögu mína spurði heimilslæknirinn hvort ég vildi leggjast inn á geðdeild. Ég hélt nú ekki. Ég væri ekki svoleiðis. Ég var auðvitað undir áhrifum frá bíómyndum og hélt að geðdeildir snerust um raflost og spennitreyjur. Við ákváðum þá að ég færi í samtalsmeðferð hjá honum, tvo tíma á viku og ég fór á kvíðastillandi lyf sem heitir seroxat. Þetta stóð yfir í þrjá mánuði og létti heilmikið á mér. En þar sem ég hafði notað mikið áfengi til að drekka í mig kjark þá fór ég að drekka oní lyfið og það gekk auðvitað ekki.
Það var einn félagi minn, sem er AA maður, sem hafði boðið mér hjálp ef ég vildi og eftir samtalsmeðferðina hjá heimilislækninum hringdi ég hann og fór í framhaldi af því í áfengismeðferð á Vogi í janúar 2006. Og þegar ég kom þangað inn var eins og ég fengi einhvern kraft í mig og ég hugsaði að nú hefði ég tækifæri til að eignast eitthvert líf. En til að eignast það líf þyrfti ég að vinna fyrir því. Ég gerðist því mjög virkur í SÁÁ strax á meðan ég var á Vogi og Staðarfelli. Og þegar ég kom aftur heim til Akureyrar hélt ég áfram og var á tveimur til þremur fundum á dag og nýtti mér alltaf pontuna til að takast á við sjálfan mig. Ég féll reyndar eftir hálft ár en strax daginn eftir hugsaði ég með mér að ég hefði náð vissum árangri á sex mánuðum og vildi halda áfram. Það varð því bara þessi eini dagur sem ég féll og ég fékk mér trúnaðarmann í AA samtökunum og fór að vinna með 12 sporakerfið.“
Starfsendurhæfing og innlögn á geðdeild
Næst skrefið tók Eymundur í ársbyrjun 2007 hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. „Þar er unnið að sjálfseflingu og þar er líka skólanám og ég sem hafði hætt eftir grunnskólann nýtti það tækifæri. Ég hef þannig nýtt mér öll verkfæri sem ég hef fengið í hendurnar. En þrátt fyrir allt þetta og þrátt fyrir að ég tæki bæði kvíðastillandi lyf og þunglyndislyf var ég orðinn mjög þunglyndur 2008. Þá var mér bent á það í Starfsendurhæfingunni að ég yrði að gera eitthvað meira í málunum. Ég fór því aftur til heimilislæknisins og hann sótti um innlögn fyrir mig á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég komst þangað viku seinna og man að það kom mér á óvart að þarna var allt önnur stemning en ég hafði búist við, þarna var mest fólk sem var bara að vinna í sínum málum eins og hver annar, enginn í einhverju ofsamaníukasti eða þess háttar. Ég áttaði mig svo fljótlega á því þarna að það skiptir ekki máli hvað aðrir halda um mann heldur hvað maður er sjálfur að gera. Þarna kynntist ég meðal annars hugrænni atferlismeðferð og var allt í allt innlagður í fjórar vikur. Meðan á því stóð var sótt um endurhæfingu fyrir mig á Reykjalundi í Mosfellsbæ um haustið.
Um sumarið bauðst mér hins vegar að fara í félagskvíðah hóp með tíu öðrum og ég þáði það. Meðal annars voru þrjú atriði sem við áttum að gera og ég hafði ekki gert árum saman. Það var að fara í bíó, fara í bæinn og vera innan um fólk, og fara í strætó. Þetta var á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi og mér leið mjög vel svo ég ákvað að taka bara allan pakkann á einum degi. Skellti mér með strætó niður í bæ, en eftir hálftíma innan um fólk var mér farið að líða mjög illa, félagsfælnin blossaði upp. Ég valdi stystu leiðina úr bænum, þorði ekki að fara tilbaka með strætó, en þegar ég var á gangi heim hitti ég félaga minn sem var á leiðinni niður í bæ og spurði hvort ég vildi ekki koma með sér. Ég þorði ekki að segja honum hvernig mér leið og fylgdi honum aftur niður í bæ. Eftir hálftíma þurfti hann að fara eitthvað og ég var aftur orðinn einn í bænum. En í stað þess að hlaupa strax heim herti ég upp hugann og ákvað bara að klára dæmið eins og ég hafði ætlað mér. Fór í bíó, á Batmanmyndina Dark Knight, en hún fór reyndar fyrir ofan garð og neðan hjá mér því ég var allan tímann að reyna að átta mig hverjir væru að fylgjast með mér í myrkum bíósalnum sem sagt allur á valdi félagsfælninnar. Ég kláraði þó myndina og þá var einhvern veginn ekkert annað í stöðunni fyrir mig en að taka strætó heim, því ég var eins og ég hefði verið á fylleríi í marga daga, grúttimbraður með dúndrandi hausverk, blóðrauður í framan, fullur af ógleði en svo þegar ég ætlaði að taka strætóinn heim var hann nýfarinn og næsti væntanlegur eftir klukkutíma. Nema hvað, stuttu síðar ekur stúlka sem ég þekkti fram á mig, stoppaði bílinn og spurði hvað væri eiginlega að gerast með mig, ég liti alveg hræðilega út og hún keyrði mig heim. Þetta hljómar sjálfsagt einkennilega í eyrum flestra en svona lýsir félagsfælni á háu stigi sér. Svona leið mér hreinlega, þrátt fyrir allt sem ég var búinn að reyna að gera til að losna úr þessu ástandi. Þetta er líka ástand sem hafði verið að byggjast upp frá barnæsku og það tekur sinn tíma að vinna sig út úr því.“
Reykjalundur og Hugarafl
Haustið 2008 hélt Eymundur suður á Reykjalund í sex vikna prógramm. „Ég bjó þar í einu af litlu húsunum ásamt tveimur öðrum. Þá var ég kominn á þann stað í lífinu að mér fannst ég hafa allt að vinna, vildi skilja allt þetta neikvæða að baki og einblína fram á veginn, með jákvæðnina að leiðarljósi. Og það var alveg stórkostlegt fyrir mig að koma á Reykjalund. Allt fólkið sem starfar þarna, frá ræstingafólkinu og upp úr, kemur fram af svo mikilli virðingu fyrir hverjum og einum að bara það eitt hjálpaði mér til að opna mig meira og nýta mér það sem boðið var upp á. Prógrammið er mjög alhliða, mjög heildrænt, þannig að það var líka áhersla á sjúkraþjálfun, líkamsrækt og sund. Það hafði líka sitt að segja að vera þarna í stóru samfélagi, þurfa að fara í matsalinn og vera innan um margt fólk. Það var oft erfitt fyrir mig en ég lét mig hafa það og það var partur af prógramminu. Einnig var gott að búa í húsi með tveimur öðrum skjólstæðingum Reykjalundar, með sameiginlegri stofu og svo framvegis. Maður þurfti líka að reyna sig úti í umhverfinu, eins og að fara einn í bíó líkt og á Akureyri. Allt þetta og kannski ekki síst sú góða nærvera sem maður upplifði hvarvetna á Reykjalundi gerði mér gífurlega gott.“
Hvað gerðirðu svo eftir að prógramminu á Reykjalundi lauk? „Ég átti eftir að klára Starfsendurhæfingarskólann fyrir norðan og gerði það vorið 2009. Þá fór ég aftur á Reykjalund í fimm vikna eftirmeðferð, þau sáu að ég var virkilega að vinna í mínum málum og töldu mjög mikilvægt að ég fengi slíka eftirfylgni. Það gerði mér mjög gott og styrkti mig enn frekar.“
Og hvernig hefur þér svo gengið síðan? „Stöðugt upp á við. Þegar ég var í Starfsendurhæfingu Norðurlands var mér bent á Ráðgjafaskóla Íslands í Reykjavík. Þetta er sérskóli sem býður upp á þriggja mánaða nám og ég ákvað að taka það. Einn bræðra minn bjó í Reykjavík á þeim tíma svo ég gat verið hjá honum. Einnig hafði mér verið bent á Hugarafl, fór að lesa mér til um hugmyndafræðina sem sá félagsskapur byggði á og leist mjög vel á hana. Ég fór þangað í heimsókn og sá að þarna var samankomið fólk eins og ég, fólk sem tók mér af virðingu og ég ákvað að stunda þennan félagsskap meðan ég væri í náminu í Ráðgjafaskólanum. Það þróaðist síðan þannig að ég var í Hugarafli nánast á hverjum degi í þessa þrjá mánuði. Ég fór aftur norður í desember en uppgötvaði að það var ekkert í gangi þar fyrir mig lengur. Svo ég ákvað að fara aftur til bróður míns í Reykjavík og halda áfram í Hugarafli. Um svipað leyti veiktist bróðir minn af krabbameini og ég var mikið með honum í því ferli uns hann lést ári síðar úti í Svíþjóð.
Hjá Hugarafli fór ég í geðfræðsluna, sem gengur út á að heimsækja skóla og segja frá eigin reynslu. Fyrsta heimsókn mín var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, fyrir framan 100 krakka, var þar með Hrannari Jónssyni sem er formaður Geðhjálpar í dag. Það var mikil áskorun fyrir mig, ekki síst þar sem þetta var í sal sem minnti á hringleikasvið og ég þurfti að tala upp til krakkanna. Þetta voru því bókstaflega yfirþyrmandi aðstæður fyrir mig, en ég komst í gegnum það.“
Grófin geðverndarmiðstöð
Eymundur bjó í þrjú ár í Reykjavík, flutti aftur norður í desember 2012. „Þar var þá sprottinn upp grasrótarhópur sem byggði á svipaðri hugsjón og Hugarafl og ég hafði verið beðinn um að taka þátt í því. Ég var líka búinn að skrá mig í félagsliðanám, fyrir þá sem vilja vinna með fólki sem á í erfiðleikum með sjálft sig eins og ég hef glímt við. Fór í það á meðan við vorum að undirbúa opnun geðverndarmiðstöðvar á Akureyri sem gerðist 10. október 2013 á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn. Þetta heitir Grófin geðverndarmiðstöð og um það leyti fór saga mín að spyrjast út í samfélagið. Ég hef síðan mikið verið í fjölmiðlum, flutt fyrirlesta, skrifað greinar og svo framvegis. Þetta hefur verið og er mikil vinna, að opna upp samfélag þeirra sem glíma við geðræn vandamál. Við höfðum opið frá 13-16 alla virka daga og eftir eitt ár höfðum við sýnt fram á að þetta var að virka. Þá var ráðinn sálfræðingur og við fórum að hafa opið frá 10-16 alla virka daga og núna í haust byrjuðum við á því að fara með geðfræðslu í skólana, fyrst fyrir kennara og annað starfsfólk og svo nemendurna. Það hefur gengið mjög vel og fólk almennt mjög þakklátt fyrir að fá að heyra um þessi mál frá fólki sem þekkja þau af eigin reynslu. Það hefur líka sýnt sig að þörfin fyrir þessa fræðslu er mjög brýn, enda vandamál af þessu tagi mjög algeng meðal barna og unglinga.
Ég er sjálfur mjög reiður og sorgmæddur fyrir hönd þessara krakka því ég veit hvernig er að líða svona og ég veit af hverju sumir stunda illa námið sitt, af hverju sumir loka sig af. Þessi börn þurfa fyrst og fremst skilning og stuðning, að á þau sé hlustað og mikilvægt að foreldrarnir sinni þeim vel, vegna þess að vandamálin verða bara verri og verri með tímanum sé ekkert að gert. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld landins sem og stjórnendur skólanna geri sér grein fyrir þessu, það er ekki síður þörf fyrir sérfræðinga á þessu sviði í skólunum eins og velmenntaða kennara í hinum ýmsum námsgreinum og íþróttum. Þekking á þessum málum er orðin mjög mikil og við eigum ekki lengur að horfa fram hjá þeim. Með því að koma þessum krökkum strax til hjálpar er til að mynda verið að fækka öryrkjum framtíðarinnar til verulegra muna. Sparnaðurinn við það yrði margfaldur á við kostnaðinn sem slíkt útheimtir.“
Hvernig meturðu sjálfan þig núna? „Ég er sáttur við sjálfan mig í dag. Það finnst mér skipta mestu máli. Ég hef verið einfari allt mitt líf og liðið illa. Núna líður mér ekki lengur illa þegar ég er einn með sjálfum mér. Ég er orðinn virkur þátttakandi í lífinu, til dæmis innan fjölskyldunnar. Ég kvíði ekki lengur að vakna á morgnana og eiga allan daginn framundan heldur er þvert á móti byrjaður að njóta þess að vera til. Ég á líf …“