Fara í efni

Eru bólusetningar hættulegar?

Tilgangur bólusetninga. Engar fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðismálum hafa skilað jafn miklum árangri og bólusetningar. Í dag er svo komið að bólusetningar hafa nánast útrýmt úr heiminum mörgum hættulegum sýkingum sem áður ollu dauða og örkumlum milljóna einstaklinga á hverju ári.
Grein frá Doktor.is
Grein frá Doktor.is

Tilgangur bólusetninga.

Engar fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðismálum hafa skilað jafn miklum árangri og bólusetningar. Í dag er svo komið að bólusetningar hafa nánast útrýmt úr heiminum mörgum hættulegum sýkingum sem áður ollu dauða og örkumlum milljóna einstaklinga á hverju ári.

Flestir þeir sjúkdómar sem nú er bólusett gegn á Íslandi sjást ekki lengur og hafa því sumir álitið að þeir séu horfnir og því óþarfi að halda bólusetningum áfram. Því miður er það ekki rétt eins og dæmi frá mörgum löndum sýna, og í dag deyja hundruðir þúsunda einstaklinga í heiminum af völdum mislinga á hverju ári. Dauðsföll sem hægt væri að koma í veg fyrir með bólusetningu.

Má hætta að bólusetja?

Í löndum þar sem slakað hefur verið á bólusetningum hefur tíðni sýkinga sem bólusett er gegn farið vaxandi með mjög alvarlegum afleiðingum. Mislingafaraldur kom upp í Evrópu á árinu 2011 og 2012 og greindust um 30 þúsund einstaklingar með mislinga hvort árið. Flestir þeirra sem veiktust voru í Frakklandi, Ítalíu, Rúmeníu, Spáni og á Bretlandseyjum og voru óbólusettir. Margir þeirra sem sýktust dóu og aðrir hlutu alvarlega fylgikvilla.

Jafnhliða því að tíðni bólusetningasjúkdóma fer minnkandi í heiminum hefur umræðan um öryggi bólusetninga farið vaxandi. Þessi umræða er af hinu góða og hvetur heilbrigðisyfirvöld á hverjum tíma til að veita einstaklingum bestu og öruggustu bóluefni sem völ er á.

Margar ástæður geta verið fyrir því að foreldrar vilja ekki láta bólusetja börn sín en það er skylda heilbrigðisstarfsmanna að veita réttar upplýsingar um virkni og öryggi bólusetninga.

Í umræðunni um öryggi bólusetninga hefur því miður borið á margvíslegum misskilningi og rangtúlkunum sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Hér á eftir verða dregnar fram nokkrar staðreyndir um bólusetningar og leitast við að svara helstu gagnrýnisröddum sem heyrst hafa.

Nokkrar staðreyndir um bólusetningar og atriði til umhugsunar

  • Áður en bóluefni eru tekin í notkun þurfa þau að gangast undir viðameiri öryggis- og virknisrannsóknir en nokkur önnur lyf.
  • Í mörgum löndum fylgjast yfirvöld mjög náið með aukaverkunum bólusetninga eftir að þau hafa verið tekin í notkun. Þetta hefur leitt til þess að sjaldgæfar aukaverkanir hafa uppgötvast og viðkomandi bóluefni verið tekin af markaði.
  • Engin bóluefni veita fullkomna vernd eða eru fullkomlega hættulaus. Flest bóluefni sem notuð eru í dag veita vernd hjá yfir 90% einstaklinga og sannaðar hættulegar aukaverkanir geta sést hjá einum af hverjum hundrað þúsund til milljón bólusettra. Á Íslandi gæti því einn einstaklingur fengið alvarlega aukaverkun af völdum bólusetningar á um 50 ára fresti. Flestar alvarlegar aukaverkanir sem taldar eru tengjast bólusetningum gera það hins vegar ekki þegar betur er að gáð.
  • Bóluefni sem veita vernd geta valdið vægum og hættulausum aukaverkunum eins og hita og vanlíðan sem ganga fljótt yfir. Þessi einkenni eru raunar fyrirsjáanleg þar sem bólusetningu er ætlað að örva ónæmiskerfið á svipaðan hátt og sýkingar gera.
  • Alvarlegar afleiðingar allra sjúkdóma sem bólusett er gegn eru margfalt algengari og alvarlegri en eftir bólusetningu
  • Oftast er ekki mögulegt að sjá fyrirfram hvaða einstaklingar muni verða fyrir aukaverkunum af völdum bólusetninga.
  • Varist að taka mark á upplýsingum um hættulegar aukaverkanir bólusetninga þar sem enginn ber ábyrgð á upplýsingunum eða þær byggjast ekki á faglegum rannsóknum.
  • Varist að taka mark á neikvæðum upplýsingum um bóluefni þar sem dregnar eru upp samsæriskenningar heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækja um markaðssetningu nema þær byggist á haldbærum rökum.

 

Fengið af Doktor.is

Þessi grein er uppfærð en upphaflega fengin af vef Landlæknisembættisins