Fiskur eða kjúklingur í raspi með tómatmauki
Fiskur eða kjúklingur í raspi með tómatmauki
Þessi uppskrift er mjög vinsæl á mínu heimili og þykir hún jafngóð hvort sem notaður er fiskur eða kjúklingur. Við höfum hana oft þegar við fáum fólk í mat sem og á virkum dögum. Upprunalega uppskriftin kom frá Nönnu Rögnvaldardóttur en henni hefur aðeins verið breytt til að falla betur að ofnæmis- og óþolsþörfum á mínu heimili.
600 g beinhreinsaður og roðflettur fiskur eða kjúklingur, einnig má nota lundir eða lærkjöt
salt og pipar
2 brauðsneiðar (gæta að ofnæmis- og óþolsvökum)
rifinn börkur af einni sítrónu og safinn
1 – 2 msk ferskt óreganó eða 1 msk oreganó krydd
eggjalíki sem samsvarar 2 eggjum
1 msk jurtaolía, t.d. repjuolía eða ISIO 4
8 tómatar skornir í báta
2 msk kapers
50 g hitaþolin olía eða smjörlíki (lesa vel innihaldslýsingu)
Aðferð:
Ef notaður er fiskur sker ég hvert flak í um það bil þrjá bita. Ef ég nota kjúklingabringur eru þær skornar á þvervegin með því að halda annarri höndinni yfir bringunni og skera hana svo í tvennt þannig að út komi tvær þunnar sneiðar.
Kryddið fiskinn eða bringurnar með salti og pipar báðum megin.
Útbúið rasp með töfrasprota úr brauðinu, sítrónuberkinum og óreganó.
Hitið um 1 msk af hitaþolinni olíu á pönnu við meðalhita.
Velti fiskinum/bringunum upp úr eggjum/eggjalíki (duft hrært út með vatni skv. leiðbeiningum á umbúðum) og þekið vel með raspi báðum megin.
Setjið fiskinn/kjúklinginn á pönnuna og steikið á hvorri hlið í um 3 – 4 mínútur. Yfirleitt þarf að fara tvær umferðir á pönnunni og set ég þá það sem er steikt í hitaþolið fat og inn í ofn á um 100°C.
Þegar búið er að steikja allt er hitinn undir pönnunni hækkaður og 0,5 dl af olíu eða 50 g af smjörlíki sett á pönnuna, þar á eftir tómatarnir, kapers og safinn af sítrónunni. Þessu leyft að maukast við háan hita í nokkrar mínútur. Hellið tómatblöndunni svo yfir fiskinn/kjúklinginn og berið fram með hýðishrísgrjónum eða byggi, salati og góðu grófu brauði.
Höfundur Stefanía Sigurðardóttir