Fara í efni

Flensur og aðrar pestir - 7. vika 2014

Fjöldi þeirra sem greinast með inflúensu fer nú hratt vaxandi, eins og kemur fram í fjölda tilkynninga um inflúensulík einkenni að mati lækna.
Það er afar hvimleitt að liggja í flensu
Það er afar hvimleitt að liggja í flensu

Öndunarfærasýkingar

Fjöldi þeirra sem greinast með inflúensu fer nú hratt vaxandi, eins og kemur fram í fjölda tilkynninga um inflúensulík einkenni að mati lækna, sjá mynd 1 og töflu 1. Í síðustu viku (7. viku) var inflúensa staðfest hjá 17 einstaklingum, þar af voru 16 með inflúensu A (H1)pdm09 og einn með influensu A(H3).

Alls hafa 52 einstaklingar greinst með inflúensu síðastliðnar vikur, langflestir þeirra með inflúensu A(H1)pdm09, sjá töflu 2. Inflúensan er seinna á ferðinni í vetur í samanburði við þrjá síðastliðna vetur. Hún fór þar að auki hægt af stað en virðist nú breiðast nokkuð hratt út.

Í Evrópu fór inflúensan víða vaxandi í byrjun febrúar en í nokkrum löndum var þegar farið að draga úr henni samkvæmt yfirliti frá Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC). Úti í samfélaginu greindust báðar inflúensu A veirurnar , þ.e. A(H1)pdm09 og A(H3) að jöfnu, en inflúensuveiran A(H1)pdm09 var algengari meðal þeirra sem þurfti að leggja inn á sjúkrahús vegna inflúensu.

Þessar veirur, sem nú valda árlegum inflúensufaraldri í mönnum, komu fyrst fram í heimsfaraldrinum 2009, með inflúensu A(H1)pdm09, og í heimsfaraldrinum 1968, með inflúensu A(H3).

Respiratory syncytial-veiran (RSV) var staðfest hjá 18 einstaklingum í síðustu viku (7. viku ), sjá töflu 2. Þennan vetur hefur RSV hefur verið staðfest hjá alls 150 manns. Töluvert hefur verið um RSV-sýkingar einkum meðal ungra barna sem hefur þurft að leggja inn á sjúkrahús til meðferðar. Þetta er er í samræmi við þekkta áhættuhópa, sem eru fyrst og fremst ung börn,  auk þess sem aldraðir einstaklingar geta fengið alvarlegar sýkingar.

Nánari upplýsingar um RSV-sýkingu er hægt að nálgast í listanumSmitsjúkdómar A-Ö á vef embættisins.

Síðastliðnar tvær vikur hefur human metapneumo-veira (hMPV)verið staðfest hjá tveimur fullorðnum einstaklingum. Þessi veira, sem greindist fyrst í Hollandi árið 2001, veldur svipuðum veikindum og RSV, en börn eru líklega nokkuð eldri þegar þau sýkjast.

Verndaðu sjálfan þig og annað fólk
Það er hægt að minnka líkur á því að fá inflúensu eða smita aðra með nokkrum einföldum forvarnaraðgerðum:

Með bólusetningu gegn inflúensu, það er besta vörnin.

Með því að þvo sér oft um hendurnar.

Ekki hósta eða hnerra á annað fólk.

Takmarka samskipti við annað fólk ef maður er veikur.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í myndbandi um inflúensu semECDC lét útbúa.

Magapestir
Tveir greindust með nóróveirur í síðustu viku. Það skal ítrekað að fá sýni berast á veirufræðideildina til greiningar á einkennum frá meltingarvegi, sjá töflu 3. Þessar tölur endurspegla því ekki umfang sýkinga í samfélaginu heldur gefa hugmynd um hvaða veirur eru í umferð.

Tölur frá heilsugæslunni um fjölda einstaklinga sem leituðu til læknis vegna niðurgangs gefa betri hugmynd um útbreiðslu sýkinga í mönnum, sjá mynd 2

Nánari upplýsingar upplýsingar um nóróveirusýkingar er hægt að nálgast í listanum Smitsjúkdómar A-Ö á vef Embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir

Heimildir: landlaeknir.is