Flott viðtal við hana Eydísi Örnu danskennara
Eydís Arna er annar af stofnendum og eigendum Plié Dansskólans.
Fullt nafn:
Eydís Arna Kristjánsdóttir
Segðu okkur aðeins frá þér í stuttu máli og hvaðan ertu:
Ég er 28 ára og ólst upp í Breiðholtinu.
Hvað ert þú menntuð ?
Ég útskrifaðist með BS í Sálfræði hjá Háskóla Íslands árið 2014. Árið 2004 tók ég Student Examination og árið 2006 Intermediate í klassískum ballett frá National Association of Teachers of Dancing.
Átt þú feril sem dansari sjálf og ert jafnvel sjálf í skóla að læra dans ?
Frá fjögra ára aldri stundaði ég nám hjá Balletskóla Sigríðar Ármann í 20 ár.
Hvert er þitt helsta starf í dag og hvað ert þú búin að vera í því starfi lengi ?
Ég rek Plié Listdansskóla ásamt Elvu Rut Guðlaugsdóttur. Við unnum saman að því að stofna skólann í 2 ár en hann var svo formlega stofnaður fyrir rúmu ári síðan. Svo vinn ég líka á leikskóla sem sérkennari, þar hef ég verið í rúmt ár.
Hvernig heldur þú þér ferskri sem dansara og danskennara ?
Það sem okkur finnst mikilvægast til þess að halda okkur ferskum sem kennurum er að vera í sífeldri endurmenntun. Við erum duglegar að fara erlendis í virta skóla. Þar fáum við innblástur og nýjar og ferskar hugmyndir sem við sníðum svo að okkar stefnu og námsefni til þess að nýta í kennslu. Þannig teljum við okkur vera alltaf að bæta okkur sem kennara sem og vera að gera skólann betri.
Nú er dans eitt form af hreyfingu sem hægt er að stunda sér til heilsubótar, gleði og ánægju. Hverjir eru helstu kostir danssins sem góð leið til hreyfingar og heilsubótar ?
Fyrst og fremst hvað það er gaman að dansa. Það sem fullorðins dansinn hjá okkur hefur sýnt er að það geta líka allir dansað, og haft gaman að því um leið og fólk tekur vel á því. Dansinn er einstaklega góð leið til að styrkja djúpvöðva, ná upp auknu vöðvaþoli, auka liðleika, bæta jafnvægi og líkamsstöðu. Svo er þetta svo frábær félagsskapur og endar oft á löngu spjalli eftir æfingar.
Hvað með börn, er auðvelt að kenna börnum dans og tjáningu og getur dans hjálpað þeim sem eiga erfitt með að finna sig í öðrum íþróttum og eiga jafnvel við einbeitingarskort að stríða ?
Það sem við reynum að gera er að skapa umhverfi þar sem börnin eiga auðveldara með að læra það sem við viljum kenna þeim. Það gerum við með því að hafa líflegt og barnvænt umhverfi og öll kennslan á yngra stiginu fer fram í gegnum leik, söng og látbragð. Það er nefninlega ótrúlegt hvað er hægt að kenna þeim yngstu þegar maður fer rétt að.
Er dans góð leið til að fá útrás fyrir leiða og depurð og finna þannig leið til að takast á við vandamál ?
Já algjörlega, það hefur verið mikið rannsakað að hreyfing hefur mikið jákvætt gildi fyrir andlega jafnt sem líkamlega heilsu fólks. Því tengdu er dansinn klárlega listrænt tjáningarform og þannig getur fólk fengið útrás fyrir allskyns tilfinningar góðar og slæmar í gegnum dansinn.
Hver er besta bók sem þú hefur lesið og ertu að lesa eitthvað núna ?
Bókin sem situr hvað mest í mér er Eyðimerkurblómið sem ég las þegar ég var unglingur en svo var ég að byrja að lesa Yoga Girl bókina hennar Rachel Brathen í vikunni
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf til í ísskápnum ?
Avocado, spínat og kartöflur.
Hver er þinn uppáhaldsmatur ?
Það hefur alltaf verið pizza.
Hvað gerir þú þér til gamans annað en að lifa og hrærast í dansgeiranum ?
Mér finnst rosalega gott og gaman að komast í hot yoga hjá þeim í Balance heilsu og að fara í sund.
Hvað er það besta sem þú gerir eftir æfingu ?
Að teygja vel, það er rosalega notalegt og hreinlega ekki hægt að sleppa því.
Ef þú ætlar að „tríta“ þig sérlega vel hvað gerir þú ?
Fer í góðan yoga tíma og fæ mér svo gott sushi á eftir í rólegheitunum með vinkonum. Það er mjög gott trít
Hvað segir þú við sjálfa þig þegar þú þarft að takast á við stórt/erfitt verkefni ?
Það er bara mikilvægt að fara af stað með jákvætt hugarfar og svo er bara þetta klassíska: Get, ætla, skal.
Hvar sérð þú þig fyrir þér eftir 5 ár ?
Ég sé fyrir mér að við Elva Rut verðum með stærri og enn betri Plié Listdansskóla í höndunum.