Framkvæmdaáætlunin - hugleiðing dagsins frá Guðna
SJÁÐU FYRIR ÞÉR!
Framkvæmdaáætlun er nánari útfærsla á markmiðunum – hvernig ætlarðu að haga framgöngunni, t.d. í ljósi aðstæðna þinna?
Sýnin er „hvað“? Hvaða verkefni ýta undir tilganginn og færa þig í átt að markmiðunum?
Í sýninni opinberast heimildin sem þú hefur til velsældar, því þú ferð aldrei lengra en þú getur séð fyrir þér að þú farir. Þegar þú sérð fyrir þér að ferðast til tunglsins muntu ekki óvart lenda á sólinni.
Sýnin er innblásturinn – það sem hvetur þig áfram.
Tilgangurinn er kjölfesta markmiðanna.
Í beinum aðgerðum væri hægt að hugsa sér svona ferli:
Ég sest niður til að skoða gildin mín og ákveð að hjálpsemi sé eitt af þeim. Með hjálpsemi að leiðarljósi ákveð ég tilgang minn:
„Ég elska heiminn og þjóna honum með því að láta gott af mér leiða.“
Ég nota þennan tilgang sem undirstöðu fyrir markmiðin mín – tímasett, framkvæmanleg, nákvæm og mælanleg. Ég set mér nokkur markmið:
1) Að ganga í Rauða krossinn fyrir 1. júní 2018.
2) Að fara til Afríku fyrir 1. júní 2020 og verja þar einu ári við hjálparstarf.
Sýnin er í samhengi við markmiðin. Sýnin er ljósstyrkurinn, ástríðan, heimildin – en ómælanleg og ótímasett. Sýnin breytist frá degi til dags. Þegar ég hef skýra og metnaðarfulla sýn sem er ekki dempuð af skorti mun ég setja mér háleit markmið. Ég fer ekki lengra en ég sé – þegar ástríða mín gagnvart tilganginum og markmiðunum er ekki sterk þá er sýnin takmörkuð. Sýnin er ljós markmiðanna – þegar þú getur ekki séð fyrir þér það sem þú telur að þú viljir skapa þá þarftu að endurskoða markmiðin og tilganginn.
Sýnin opinberar heimildina – hversu hátt þú vilt leyfa þér að fljúga. Sýnin er aldrei skýrari en orka hjartans heimilar.
Ef ástríðan er ekki nægilega mikil til að varpa sýninni fram er til gangurinn ekki ljós.
Ef tilgangurinn er ekki ljós er ástríðan ekki næg til að halda myndinni lifandi.