Fara í efni

Fyrir hverja er HPV-bólusetning?

HPV (Human Papilloma Virus) er algeng veira sem smitast með beinni snertingu fólks við kynlíf.
HPV-bólusetning
HPV-bólusetning

HPV (Human Papilloma Virus) er algeng veira sem smitast með beinni snertingu fólks við kynlíf. Flest okkar sem hafa stundað kynlíf smitast einhvern tímann á lífsleiðinni af HPV. Nóg er að hafa stundað kynlíf með einum einstaklingi einu sinni þó fjöldi rekkjunauta auki líkur á smiti. Tæplega 200 HPV-tegundir eru þekktar og geta um 40 þeirra sýkt húð og slímhúðir á kynfærasvæðinu, í munni og koki. Af þessum 40 HPV -veirum eru um 15 krabbameinsvaldandi. Flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar og ganga til baka en sumar geta valdið frumubreytingum og leghálskrabbameini og öðrum sjaldgæfari krabbameinum eins og krabbameini í endaþarmi, getnaðarlim, leggöngum, skaparbörmum, munni og koki.  

Hér á landi eru skráð tvö HPV - bóluefni, Gardasil og Cervarix, sem verja gegn algengustu HPV-tegundum sem valda um 70% tilfella af leghálskrabbameini. Cervarix er tvígilt bóluefni sem ver gegn HPV 16 og 18. Gardasil er fjórgilt bóluefni sem ver gegn HPV 16 og 18 en einnig gegn HPV 6 og 11 sem valda yfir 90% af kynfæravörtum. Bóluefnin verja einnig gegn sumum krabbameinum í endaþarmi, leggöngum, munni og koki.  

Frá haustinu 2011 hefur öllum stúlkum í 7. bekk grunnskóla verið boðin HPV-bólusetning með Cervarix þeim að kostnaðlausu og hafa um 90% þeirra þegið hana, sem er mjög góður árangur. Bæði bóluefnin veita fullkomna vörn gegn þeim HPV-tegundum sem bólusett er fyrir ef þau eru gefin áður en kynlíf hefst.  

Hins vegar gætu fleiri haft gagn af bólusetningu þó þeir hafi byrjað að stunda kynlíf, bæði konur og karlar. Í sumum löndum er konum upp að 26 ára aldri ráðlögð bólusetning. Fræðilega gætu allir, konur og karlar, haft gagn af bólusetningu ef þeir hafa ekki smitast af HPV- tegundunum í bóluefninu. Þó HPV-sýking sé algeng er ólíklegt að konur hafi smitast af öllum HPV-tegundunum sem eru í bóluefnunum þannig að bólusetning gæti veitt þeim einhverja vörn, a.m.k. til 26 ára aldurs. Bólusettar konur þurfa samt áfram að mæta í leghálskrabbameinsleit því bóluefnin veita aðeins um 70% vörn gegn leghálskrabbameini.    

Í Bandaríkjunum er bólusetning drengja 13-21 árs ráðlögð. Árið 2013 byrjuðu heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu að bjóða 12 ára drengum bólusetningu í skólanum. Konur yngri en 26 ára, einstaklingar í áhættuhópum eins og t.d. samkynhneigðir menn, menn sem stunda kynlíf með mönnum og ónæmisbældir einstaklingar vegna lyfja eða sjúkdóma ættu að ræða við lækni um hvort HPV-bólusetning gæti gagnast þeim.

HPV-bóluefnin eru örugg og aukaverkanir fáar og mildar, en fram geti komið verkur á stungustað ásamt svima og ógleði. Hver skammtur af Cervarix kostar um 16.500 kr. og Gardasil um 23.000 kr. en bólusetja þarf með þremur skömmtum þannig að heildarkostnaður er á bilinu 50.000 kr. til 70.000 kr. fyrir þá sem velja bólusetningu.

Leghálskrabbameinsleit er ein mikilvægasta heilsuvernd sem konum stendur til boða og allar konur ættu að nýta sér. HPV-bólusetning kann að nýtast miklu feiri en bara 12 ára stúlkum. Nánari upplýsingar um HPVeru á www.hpv.is.

Annar áhættuþáttur fyrir krabbamein er hreyfingarleysi.

Heimild: krabb.is