"Gengur Vel" gengur fram af mér!
Trúir þú því virkilega að sjö grömm af þurrkaðri rauðrófu geti uppfyllt eftirfarandi loforð?
Hefur góð áhrif á:
- blóðþrýsting
- kólesteról
- súrefnisupptöku
- blóðsykur
- fitubrennslu
- úthald, þrek og orku
- öndunar- og lungnavandamál
- náttúrulega kynörvun karla og kvenna
- heila, minni og taugakerfi
- ónæmiskerfið
- hjarta- og æðakerfið
- ríkt af andoxunarefnum, járni, magnesíumi, sódíumi, potassíumi, fólinsýru og C-vítamíni
Fullt af fólki virðist gera það. Rauðrófupúlver selst alveg lygilega þessa dagana, í bókstaflegri merkingu.
Síðasta atriðið er eflaust rétt enda á þessi upptalning við um flest ef ekki allt gott grænmeti og ávexti. Því er hægt að fletta upp hér til dæmis.
Hvað rannsóknir varðar þá er eins og venjulega nóg af slíkum sem tengjast efninu og niðurstöðurnar ýmist réttar eða rangar, jákvæðar og neikvæðar. Það væri allt of langt mál að fara út í greiningu á því hér. Nægir að segja að það er ekki rétt að rannsólknir sýni að sjö grömm á dag af þurrkuðum rauðrófum geti gefið alla þessa heilsubót og önnur dásamleg og kynleg áhrif. Að halda slíku fram, það er... ja, hvað? Þú mátt velja nafn á svona sölumennsku sem hentar þínum skilningi en í sveitinni hefði þetta örugglega verið kallað lygi.
Það má til gamans skjóta því inn að sá sem samdi þennan texta hefur greinilega sofið í efnafræðitímum en það er nú annað mál.
Þetta eru loforðin á fylgiblaði með Rauðrófu"extrakt" sem selt er í skipsförmum þessa dagana af fyrirtækinu "Gengur Vel" Auglýsing fyrir þessa vöru hefur blasað við mér í hvert sinn sem ég keyri framhjá sundlauginni í sumar. Ég geri ráð fyrri að þeir setji "extrakt" innan gæsalappa því sennilega er ekki um neitt merkilegra að ræða en þurrkað og malað duft af rauðrófu, sem eflaust kostar ekki margar krónur kílóið í heildsölu. Hvert hylki inniheldur duft sem svarar til 3,5 gramma og dagskammturinn á að vera tvö hylki.
Í uppáhalds-apótekinu mínu þar sem ég tók bækling um Rauðrófu"extrakt" áðan höfðu dósirnar með þessum skömmtum verið rifnar út á 2398 kr fyrir 45 sjö gramma dagskammta! Í Krónunni kosta rauðbeðurnar 190 kr kílóið og bragðast afspyrnu vel steiktar í ofni. Þú getur keypt hálft kíló af rauðrófum á dag allan mánuðinn fyrir svipað verð. Þetta er viðskiptatækifæri í lagi!
Passaðu þig bara að verða ekki skelkaður þó þú pissir rauðu ef þú borðar mikið af rauðrófum. Það mun vera alveg hættulaust.
Ljúffengar rauðrófur, sellerírót, sætar kartöflur og venulegar kartöflur steikt í ofnskúffu með ólífuolíu, salti og pipar. Ljúffengt með næstum hvaða mat sem er. Þarna borðuðum við það með kjúklingabringum. Æðislegur matur en hvort áhrifin hafi verið kynörvandi... ég bara man það ekki enda hef ég ekki þurft á slíku að halda ;)
Auglýsingablaðið umrædda úr apótekinu:
Það er ekki úr vegi í þessu samhengi að benda á lög sem geta gilt um fullyrðingar í auglýsingum og fylgiritum vöru.
Lög nr. 57 frá 2005 um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum:
[9. gr. Viðskiptahættir eru villandi ef þeir eru líklegir til að blekkja neytendur eða eru með þeim hætti að neytendum eru veittar rangar upplýsingar í þeim tilgangi að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um viðskipti. Hér er átt við rangar upplýsingar um:
a. eðli vöru eða þjónustu og hvort varan sé til eða þjónustan fyrir hendi,
b. helstu einkenni vöru eða þjónustu, t.d. notkun, samsetningu eða árangur sem vænta má af notkun hennar,
...
Lög nr 48/2003:
16.gr. Söluhlutur telst vera gallaður ef:
...
c. hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun nema seljandi sýni fram á að réttar upplýsingar hafi verið gefnar neytanda við kaupin eða að upplýsingarnar hafi ekki haft áhrif á kaupin;
Björn Geir Leifsson skurðlæknir