Gerjaður hvítkálssafi
Ég sat eitt sinn námslotu í Heilsumeistaraskólanum í lifandi fæði og lærði ég að gera kornspírusafa (rejuvelac). Kornspírusafi er ein aðal uppistaðan í lifandi fæði, sem er ekki það sama og hráfæði, en hann inniheldur góðgerla sem eru afar mikilvægir fyrir meltinguna því þeir framleiða ensím sem hjálpa okkur að melta matinn. En hvort sem þú ert með einhver heilsuvandamál eins og t.d. meltingarvandræði eða stútfull af orku- og vítamínum þá er gott fyrir þig að drekka kornspírusafa af og til. Þegar við förum í hreinsun eða detox einblínum við á að losa okkur við slæmu bakteríurnar í meltingarveginum en eigum það til að gleyma að byggja flóru hans aftur upp og styrkja. Það er hægt að gera á margan hátt eins og m.a. að taka inn mjólkursýrugerla, borða gerjaðan mat eins og súrkál eða annað gerjað grænmeti, borða ósæta AB-mjólk og drekka kornspírusafa. Gæða kornspírusafi á að bragðast eins og skrítið sódavatn og alls ekki drekka hann ef hann er hrikalega vondur á bragðið og vond lykt því þá hefur eitthvað ekki heppnast í ferlinu. Það er hægt að búa til kornspírusafa úr t.d. hveitikorni og quinoa.
Að búa til hvítkálssafa finnst mér auðveldasta leiðin að búa til gerjaðan safa því ég mikla oft fyrir mér að spíra fræ þó það sé í raun og veru ekkert mál. Hann inniheldur þó fullt af góðgerlum og mér finnst hann bragðbetri. Þetta er samt ekkert það besta sem ég drekk en þá er um að gera að setja safann í fallegar flöskur. Ég tek tarnir í að drekka hann og þá helst eftir e.k. tiltekt í mataræðinu. Þú getur sett hann í boost en mér finnst best að drekka hann á morgnana og milli mála.
Hvítkálssafi: / 4 dl vatn / 7 dl ferskt grófskorið hvítkál.
- Setjið í blandarann og blandið þar til kekkjalaust.
- Setjið í glerkrukku og látið standa á borði í 3 sólarhringa við stofuhita. Ég loka krukkunni ekki alveg heldur leyfi smá lofti að komast inn og klæði krukkuna með viskastykki. Annars er hætta á að hann súrni.
- Eftir 3 daga ef safinn tilbúinn en þá síið þið hratið frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og geymið í kæli.
- Hægt er að gera annan skammt og þá hellið þið 1/2 dl af nýja safanum í blandarann ásamt 3,5 dl vatn og 7 dl af söxuðu hvítkáli. Blandið saman og látið standa á borði í sólarhring.
- Eftir þann tíma gerið þið eins, síið safann gegnum pokann og geymið í kæli í vel lokaðri flösku.
Kornspírusafi úr spíruðu hveitikorni: / 1-2 dl heil hveitikorn.
- Byrjið á því að leggja 1-2 dl af heilum hveitikornum í bleyti í 6-12 tíma.
- Skolið og látið kornin spíra. Mér finnst best að setja kornin í glerkrukku, setja viskastykki yfir opið og láta krukkuna standa á hvolfi en samt þannig að loft komist inn um opið. Skolið 2-3x á dag.
- Þegar spírurnar eru orðnar 2-3x lengri en kornin eru þau tilbúin. Skolið vel og krukkuna líka.
- Setjið spírurnar aftur í krukkuna, setjið 3x meira vatn yfir, hyljið með grisju eða viskastykki og látið standa á borði í 2 sólarhringa.
- Eftir þann tíma þá síið þið safann frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og inn í kæli.
- Hægt er að gera annan skammt en þá setjið þið 2x meira vatn yfir sömu spírur og látið standa í sólarhring. Síið aftur frá og hendið spírunum. Geymið í kæli í vel lokaðri flösku.
Ef þú vilt hafa samband við mig er netfangið mitt: valdis@ljomandi.is
Ég vona að ykkur líki ljómandi vel.
Bestu kveðjur, Valdís.