Fara í efni

Heila- og taugakerfi - Grein af vef vefjagigt.is

Heilinn er mikilvægasta og flóknasta líffæri líkamans. Hann er einskonar stjórnstöð þar sem öll úrvinnsla fer fram. Truflun á starfsemi heilans, bæði í ákveðnum svæðum og í boðflutningi til og frá honum, veldur mörgum einkennum vefjagigtar.
Heila- og taugakerfi - Grein af vef vefjagigt.is

Einkenni frá heila og taugakerfi:

• Minnisleysi og einbeitingarskortur
• Orðarugl
• Heilaþoka
• Klaufska
• Depurð/Þunglyndi/Kvíði

Heilinn er mikilvægasta og flóknasta líffæri líkamans. Hann er einskonar stjórnstöð þar sem öll úrvinnsla fer fram. Truflun á starfsemi heilans, bæði í ákveðnum svæðum og í boðflutningi til og frá honum, veldur mörgum einkennum vefjagigtar. Einkenni sem flestir vefjagigtarsjúklingar kvarta yfir eru minnisleysi, athyglisbrestur og einbeitingarskortur (42). Depurð, þunglyndi, kvíði, heilaþoka (e. fibrofog) og mígren höfuðverkur eru einnig algeng einkenni (8,35,41).

Minnisleysi og einbeitingarskortur

Rannsóknir hafa sýnt að vefjagigtarsjúklingar hafa skert skammtíma minni og skerta einbeitingu, sem verður verra við utanaðkomandi áreiti eða truflun (40,42). Skert skammtímaminni er meira en að vera utan við sig einstaka sinnum eins og gerist hjá venjulegu fólki. Hjá vefjagigtarsjúklingum er um að ræða endurtekna gleymni dag hvern sem truflar daglegt líf. Aftur og aftur kemur það fyrir skjólstæðinga mína að þeir komi til meðferðar á röngum degi því að viðkomandi heldur að sé föstudagur en ekki þriðjudagur. Furðulegustu hlutir finnast í ísskápnum og smjörvaaskjan er vandlega pökkuð inn í plast meðan osturinn skorpnar því að ekkert var látið yfir hann. Vefjagigtarsjúklingum er ekki hlátur í huga þegar sama vitleysan endurtekur sig aftur og aftur.

Einbeitingarskortur veldur því að viðkomandi á oft á tíðum erfitt með að lesa blöðin, fylgjast með fréttum eða að horfa á heila bíómynd. Viðkomandi dettur út og nær ekki að halda þræðinum. Skert minni og einbeiting dregur úr hæfni fólks í vinnu, úr hæfni til að læra og samskiptahæfni. Þetta veldur kvíða og vanlíðan hjá mörgum vefjagigtarsjúklingum og sumir hafa flosnað úr námi eða vinnu vegna þessa. Það að viðkomandi missi allt í einu hæfileikann til að læra hefur ekkert með greind að gera, heilinn getur einfaldlega ekki starfað eðlilega. En einbeitingin og minnið getur komið til baka þegar hægir á vefjagigtinni.

Orðarugl

Orðarugl eða að finna ekki réttu orðin er eitthvað sem margir vefjagigtarsjúklingar kannast við (8,35). Dæmi um það eru; “hann var heilahimnubrotinn” í staðinn fyrir “hann fékk heilahimnubólgu”, “á ég að blása á kertin” í staðinn fyrir “á ég að kveikja á kertunum”. Þetta getur komist á það slæmt stig að viðkomandi getur vart tjáð sig almennilega. Og að skrifa texta getur vafist fyrir viðkomandi og oft á tíðum vantar orð inn í textann. Einstaka verða þvoglumæltir, drafandi sem stafar líklega af þreytu og máttleysi í talfærum (8,35).

Heilaþoka (e. fibrofog)

Heilaþoka (e.fibrofog) er ástand sem kemur í köstum og getur varað frá nokkrum klukkustundum upp í marga daga (40). Öll fyrrnefnd einkenni um einbeitingarskort, minnisleysi, orðarugl, depurð, kvíða og vonleysi verða öflugri. Sumir líkja þessu ástandi við að vera með slæma timburmenn dögum og vikum saman. Viðkomandi er ekki í sambandi við sjálfan sig, getur ekki brugðist við áreiti frá umhverfinu og getur ekki tekið þátt í lífinu. Sjúkdómsástand er afar slæmt, en ekkert sést, ekkert finnst í rannsóknum og fáir hafa skilning á ástandi sjúklings. Heilaþoka veldur mörgum vefjagigtarsjúklingum bæði geðshræringu og örvæntingu (8,35).

Klaufska

Margir finna fyrir aukinni klaufsku, missa hluti úr höndunum og eiga erfitt með fínhreyfingar eins og að þræða nál. Hjá mörgum er samhæfing skert og jafnvægi lélegt (35).

Þunglyndi/depurð/kvíði

Einkenni depurðar og kvíða, sem eru andstæðar tilfinningar við gleði, hamingju og vellíðan eru eðlilegar tilfinningasveiflur sem allir þekkja. Þegar þunglyndi er farið að hafa áhrif á daglegt líf dögum og vikum saman þá er ástandið orðið sjúklegt.

Þunglyndi er algeng geðröskun sem einkennist af depuð, skorti á orku, áhuga- og framtaksleysi. Talið er að á hverjum tíma þjáist tæp 6% karla og 9,5% kvenna af þunglyndi, en að 12% karla og 25% kvenna þjáist af þunglyndi á einhverjum tíma ævinnar (30). Þunglyndi er aðeins algengara meðal vefjagigtarsjúklinga þ.e. hjá 18-35% þeirra (31). 
Rannsókn sem gerð var af Sigurði Thorlacíus og félögum 2002, á einstaklingum með hæsta örorkustig ( að minnsta kosti 75%) bendir til að sterk tengsl séu á milli vefjagigtar og kvíða (52). 716 konur með vefjagigt voru í rannsóknarhópnum og 716 konur án þeirra greiningar voru í samanburðahópnum. Geðraskanir voru algengar í báðum hópum en marktækt fleiri höfðu greiningu geðraskana í vefjagigtarhópnum, eða 415 konur með vefjagigt en 329 konur sem höfðu ekki vefjagigt. Munur á milli hópanna var enn meiri við skoðun á kvíðaröskun, en 273 konur með vefjagigt höfðu einnig kvíðaröskun samanborið við 85 konur án vefjagigtar.

Þunglyndi meðal vefjagigtarsjúklinga getur bæði verið vegna líffræðilegra orsaka og vegna ytri orsaka. Erfðafræðileg tengsl hafa fundist milli vefjagigtar og þunglyndis, en líklegt er talið að ytri þættir eigi stærstan þátt í þunglyndi þeirra (31,32). Raskanir sem finnast hjá þunglyndum eru ekki eins og þær raskanir sem finnast hjá vefjagigtarsjúklingum (31). Svefntruflanir þunglyndra og vefjagigtarsjúklinga eru ekki af sama toga. Eins er truflun á starfsemi undirstúku-heiladinguls-nýrnahettu-öxuls (e. hypothalamic-pituitary-adrenal axis) ekki eins hjá þessum hópum.
Þegar þunglyndi leggst ofan á verki getur það leitt til félagslegrar einangrunar. Fólk er ekki lengur fært um að taka virkan þátt í lífinu, sem leiðir til minnkaðs sjálfsálits, depurðar og kvíða.

Einkenni sem benda til þunglyndis:

• Minni áhugi eða gleði við venjuleg störf og skemmtun
• Minni matarlyst og menn léttast, eða matarlyst eykst og menn þyngjast
• Minni eða aukinn svefn
• Óróleiki, tregða
• Minni kyngeta
• Orkuleysi, þreyta
• Lítilsvirðandi hugsanir, sjálfsásakanir og/eða ýkt sektarkennd
• Minni einbeiting, hægari hugsun, óákveðni
• Hugleiðingar um sjálfsvíg, sjálfsvígshugsanir

Af Vef Vefjagigt.is