Fara í efni

Heilahimnubólga

Heilahimnubólga er bólga vegna sýkingar í heilahimnunum umhverfis heilann. Hún getur þróast á mjög skömmum tima, jafnvel nokkrum klukkustundum.
Allt um heilahimnubólgu, lesið hér.
Allt um heilahimnubólgu, lesið hér.

Hvað er heilahimnubólga?

Heilahimnubólga er bólga vegna sýkingar í heilahimnunum umhverfis heilann. Hún getur þróast á mjög skömmum tima, jafnvel nokkrum klukkustundum. Fólk á öllum aldri getur fengið heilahimnubólgu.  Algengustu einkennin er hnakkastífleiki og hiti. Veirur og bakteríur geta valdið heilahimnubólgu. Heilahimnubólga af völdum bakteríu er mjög hættulegur sjúkdómur sem krefst sýklalyfjagjafar í æð sem allra fyrst. Heilahimnubólga vegna veirusýkingar er yfirleitt ekki talin eins hættuleg en þó eru undantekningar þar á.

Hver er orsökin?

Ekki er vitað hvers vegna stálslegið fólk fær skyndilega heilahimnubólgu af völdum bakteríu. Hjá sumum er mengingókokka bakterían hluti eðlilegrar bakteríuflóru í nefkokinu og er skaðlaus þar. Ef leið opnast milli nefkoks og heilahimnu, t.d. við höfuðkúpubrot, eykst hættan á heilahimnubólgu. Fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð er því oft gefin við slíka áverka. Heilahimnubólga af völdum veiru getur komið í kjölfar annarra veirusjúkdóma.

Hver eru hættumerkin?

Hnakkastífleiki er eitt mikilvægasta einkennið. Þá er mjög sárt að beygja höfuðið ofan í bringu. Hjá ungbörnum (0-2 ára) er afar erfitt að greina þetta og því er nauðsynlegt að fylgjast vel með öðrum einkennum.

Hiti yfirleitt fylgir hár hiti, 39-40 stig. Þó geta þungt haldnir sjúklingar verið hitalausir. Hafa skal í huga að verkjalyf eru hitalækkandi og geta því dulið einkennin.

Breytt meðvitund mikil þreyta og einbeitingarskortur, t.d. þegar viðkomandi veitir ekki öðrum eða umhverfi sínu athygli, eru alvarleg einkenni og krefjast nánari skoðunar. Erfitt getur verið að fylgjast með líðan barna og í vafatilvikum er rétt að leita læknis.

Húðblæðingar blæðingar geta komið fram í húðinni áþekkar nýjum marblettum og geta verið allt frá títuprjónshaus upp í stóra flekki að stærð. Blæðingarnar gefa til kynna að baktrerían hafi borist út í blóðið. Þetta er mjög alvarlegt merki og þarfnast tafarlausrar meðferðar og innlagnar á sjúkrahús. 

Höfuðverkurógleði og uppköst
Meðvitundarleysi.

Ef sjúklingur (fullorðinn eða barn) er hnakkkastífur, með háan hita og breytt meðvitundarstig skal hringja strax eftir lækni eða í neyðarlínuna, 112.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ef grunur leikur á að um heilahimnubólgu sé að ræða er gerð mænustunga. Sjúklingurinn situr og hallar sér fram eða liggur í kuðung á hliðinni. Neðri hluti baksins er sótthreinsaður, húðin deyfð á litlum bletti, þunnri nál stungið inn á milli neðstu hryggjarliðanna og sýni tekið úr vökvanum sem umlykur heilann og mænuna (mænuvökva). Einnig er tekið blóðsýni, þar sem leitað er að bakteríum og öðrum ummerkjum sýkingar.

Hver er meðferðin?

Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkingar er mjög hættulegur sjúkdómur ef meðferð er ekki veitt. Batahorfur sjúklinga með heilahimnubólgu af völdum veirusýkingar eru oftast góðar.

Við heilahimnubólgu af völdum bakteríu fær sjúklingurinn sýklalyf í æð. Tegund lyfsins fer eftir því um hvaða bakteríu er að ræða.

Heilahimnubólga af völdum veirusýkingar er oftast hættulaus og því sjaldan meðhöndluð nema sjúklingurinn sé mjög veikur.

Ekki er alltaf  vitað nákvæmlega hvaða bakteríutegund veldur heilahimnubólgunni og þess vegna eru gefin  breiðvirk sýklalyf sem verka á margar tegundir baktería. Þegar ræktun hefur leitt í ljós um hvaða tegund er að ræða er gefið sýklalyf sem verkar aðeins á þá bakteríu. Oft er um að ræða gamla góða penisillínið. Ef sjúklingurinn er með penisillínofnæmi er notað annað lyf. Nánustu ættingjum sjúklings er stundum gefin fyrirbyggjandi meðferð

Í dag er eingöngu til bóluefni við einn gerð af heilahimnubólgu (meningókokkar C) og eru börn á íslandi bólusett . Eftir að bólusetning gegn meningókokkum C hófst á Íslandi hefur dregið verulega úr tíðni sjúkdómsins. Enn er ekki til bóluefni gegn meningókokkum B og hefur sú baktería því verið algengasta orsök meningókokkasjúkdóms hér á landi síðan 2002.

Heilahimnubólgu eða blóðsýkingu skal alltaf hafa í huga hjá barni með óútskýrðan hita og áberandi veikindi. Hnakkastífleiki er ekki alltaf til staðar og er því mikilvægt að líta eftir húðblæðingum eða marblettum. Ef saman fer hiti og húðblæðingar þarf sjúklingur að komast á spítala án tafar.  Mestu skiptir að þekkja einkennin og bregðast fljótt við þeim.

Heimild: doktor.is