Heilsu(fals)fréttir
Lognið á undan þrettándastorminum
Ég var næstum því búinn að skrifa hér óvenjulega færslu og ausa lofi á Fréttablaðið fyrir að vera nú loksins hættir að birta fæðubótarfals og heilsuskrum. Ég fann barasta ekki eina einustu auglýsingu í Fréttablaði mánudagsins sem ég gat talið vafasama, ef frá voru taldar tvær hefðbundnar smáauglýsingar frá spákellingum og ein um eitthvað sem virðist nærgöngul nuddþjónusta. Ég freistaðist reyndar til að smella á heimasíðuna í nudd-auglýsingunni en flýtti mér að loka henni aftur áður en konan sæi innihaldið. Hún hefði getað fengið þá flugu í hausinn af flenni-erótískum myndunum að ég væri orðinn eitthvað afhuga henni og farinn í klámið. Því er nú öðru nær!
En það var ekki spákellingaspeki eða þokkalegar þuklþjónustur sem ætlunin var að ræða hér.
Hún reyndist nefnilega bara vera lognið á undan storminum þessi falsauglýsingafátækt í mánudags-Fréttablaðinu.
Þrettándastormurinn
Daginn eftir skall stormurinn á með fullum þunga, bæði í blaðhlutanum "Fólk" og í meðfylgjandi auglýsingapésa frá þekktri heilsuvörubúð. Ég gæti skrifað langa ritgerð um allt heilsufalsið sem er að finna þarna. Það er t.d. fullyrt ranglega um heilsubótaráhrif kollagens sem ég hef margsinnis fjallað um. Þarna eru hefðbundnar rangfærslur um rauðrófur og ýmislegt annað kunnuglegt. Þarna er líka áhugaverð auglýsing um "Triphala", grasablöndu sem ég hef ekki séð minnst á fyrr. Hún er sögð vera mörg þúsund ára gamalt meðalaundur og eigi að hafa hreinsandi, hægðabætandi og auðvitað megrandi áhrif en slíkar vísanir í árþúsund og fjöldaheilsubótar-fullyrðingar eru örugg aðvörun um fæðubótarfals. Auðvitað eru skrumararnir hættir að nota orðið "Detox" eftir nýlegar svíðandi uppljóstranir um það skrautyrði. Nú heitir það bara "hreinsun". Allar fullyrðingarnar em þarna koma fram um þessa vöru eru óstaðfestar og því óleyfilegar í EB samkvæmt gagnagrunni EFSA.
En af því konan hefur skammað mig fyrir að eyða allt of miklum tíma í að rannsaka og skrifa um sannleiksgildi fæðubótarfullyrðinga þá læt ég mér í bili nægja að endurnýta efni um einn mest auglýsta falsfóðurbætinn. Bæði í áðurnefndum auglýsingapésa og í blaðhlutanum Fólk er enn einu sinni reynt að selja okkur Hindberjaketón sem megrunarmeðal.
Hindberjaketónin enn og aftur
Ég er fyrir löngu búinn að sýna fram á að það eru hrein ósannindi að hindberjaketón hafi áhrif á sykurþörf og þyngdarstjórnun og litlu við það að bæta. Nema þá að minna enn og aftur á að jafnvel sjálfur æðstiprestur fæðubótarkaupmanna, kvennasjarmörinn Dr. Oz þurfti að viðurkenna lúpulega frammi fyrir þingnefnd nýverið, að megrunarvirkni hindberjaketóna og fleiri undrameðala sem hann hefur auglýst í sjónvarpsþáttum sínum, væri tómt fals. Enda var hann eiðsvarinn og hefði lent í tukthúsinu fyrir að ljúga að þeim því það er ekkert til sem styður það að hindberjaketón verki sem fitubrennslu- eða þyngdarstjórnunarefni.
Dr Oz segir loksins sannleikann um megrunarmeðalasvindlið.
Nokkru síðar í yfirheyrslunni lýsti hann því hvað raunverulega virkar, sem sagt heilbrigt mataræði og hreyfing. Hindberjaketón eða aðrar fæðubótarvörur bæta þar engu við.
Hér er ljómandi samantekt (á ensku) um loddaraskapinn í Dr. Oz. Í lok myndbandsins sem þarna er að finna lýsir hann enn betur sannleikanum um hvað virkar við megrun.
Reynslusögur
Með auglýsingunni í blaðhlutanum "Fólk" fylgja eins og oft áður reynslusögur, meira að segja þrjár í einu. Það á greinilega að taka þetta með trukki. Það eru kunnugleg andlit þarna svo kannski er ekki svo miklu úr að moða af ofuránægðum viðskiptavinum sem eru tilbúnir að ljá andlit sitt þessu skrumi?
Nútímaleg naglasúpa
Það er svo sem að æra óstöðugan að fara út í það af hverju ekki er neitt að marka einstakar reynslusögur, en góð vi[tley]sa er sjaldan of oft kveðin [niður].
Það er svo átakanlega auðvelt að láta blekkjast af því að eitthvað sem maður tekur inn hafi jákvæð áhrif á megrunina eða kvillan eða hvað það nú er sem maður vonast til að lagist. Ef maður kaupir dollu af dufthylkjum eins og t.d. hindberjaketóni og tekur sig um leið á í mataræði og hreyfingu þá er það rétt eins og naglinn í naglasúpunni ekki duftið sem virkar vel heldur allt hitt sem fylgir. Það ætti líka að vera auðvelt að skilja, ef maður nú tók eitthvað eftir í líffræðitímunum, að með því að minnka kolvetnaneyslu (sætindi, gos, brauð og kökur) þá minnkar sykurlöngun af sjálfu sér um leið og manni gengur miklu betur að léttast. Ekkert merkilegt við það og það er ekki hindberjaketónið að verki frekar en naglinn í súpunni góðu.
Við fáum auðvitað aldrei að vita það allra mikilvægasta þegar reynslusögur eru notaðar í auglýsingum: Hversu margir skyldu hafa keypt þetta "kraftaverk í dós" (eins og Dr. Oz kallar það) og ekki fundið nein megrandi áhrif þrátt fyrir að hafa tekið það samviskusamlega? Það væri kannski ekki úr vegi að heyra í nokkrum óánægðum hindberjaketónaneytendum hér í athugasemdum?
Það er ekki heldur úr vegi að heyra í einhverjum sem orðið hafa fyrir aukaverkunum af þessum vörum. Þær sem helst væri um að ræða eru hraður hjartsláttur, aukaslög, svefntruflanir, óróleiki, meltingartruflanir, gula og lifrarskemmdir. Flestar hindberjaketón-vörur eru blandaðar með extrakti úr grænu tei sem er mjög örvandi efni og talið vera áhættuþáttur fyrir lifrarskemmdum jafnvel hjá áður frískum einstaklingum.
Reyndar er það heilbrigðiseftirlitið sem á að tilkynna ef um alvarlegar aukaverkanir getur verið að ræða af fæðubótarefnum.
Höfundur: Björn Geir Leifsson
.