Hlaupahópurinn Bíddu aðeins
Þjálfarar: Bryndís Baldursdóttir og Ásgeir Elíasson
Hópurinn hleypur frá: Sundlaug Kópavogs, Borgarholtsbraut Kópavogi
Æfingatímar: Mánudaga og miðvikudaga klukkan 17:30, laugardagsmorgna klukkan 09:00 – svo eru æfingar án þjálfara annað hvort frá sundlauginni eða í Heiðmörk á fimmtudögum klukkan 17:30.
Byrjendur: Hópurinn er jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna, það hlaupa allir út m.v. eigin getu og eigin markmið. Byrjendur geta komið með okkur hvenær sem er, í hvaða formi sem þeir eru. Það er ávallt einn þjálfari aftast.
Hópurinn tekur þátt í hlaupatengdum viðburðum hérlendis og erlendis. Við förum ávallt saman í Powerade hlaupin, Gamlárshlaupið og Reykjavíkurmaraþonið og mörg hlaup út á landi. Auk þess höfum við fjölmennt í vor-og haustmaraþon FM og sú hefð hefur skapast að einn félagi okkar býður upp á marengstertu eftir hlaupið. Þeir sem ekki hlaupa fjölmenna til að hvetja hina. Hópurinn hefur farið saman í marþonferð til Parísar 2011 og það er hópur að fara núna í maraþonferð til Munchen í október.
Hópurinn heldur ekki sín/sitt eigin/eigið hlaup, en það er góð hugmynd ;-)
Félagslíf hjá hópnum utan við venjulegar hlaupaæfingar :
Við höfum haldið árlega árshátíð, annað hvort í formi súpuveislu eftir laugardagshlaup, eða hamborgaraveislu og sl. vor var stórveisla þríréttuð með veislustjórum og skemmtilegum skemmtiatriðum.
Vefsíða: Við erum á facebook undir Bíddu aðeins.
Bíddu aðeins hlaupahópurinn er einnig í samstarfi við Þríkó (Þríþrautafélag Kópavogs) sem syndir með Görpunum í Breiðablik og hleypur með Hjólamönnum.
Innan Bíddu aðeins eru sjö aðilar sem eru í 100 km hópnum, þ.m.t. báðir þjálfararnir.
Einnig eru innan hópsins átta járnmenn, þ.e. karlar (3) og konur (5) sem hafa tekið þátt í Ironman mótum erlendis. Innan hópsins eru þrír af fyrstu Landvættum Íslands sem kláruðu fjórþraut á árinu í gönguskíðum, fjallahlaupi, sundi og fjallahjólreiðum.
Það ættu því allir að finna sér eitthvað við sitt hæfi innan Bíddu aðeins.