Háls-höfuðverkur
Talið er að um 90% landsmanna muni fá höfuðverk einhvern tíma á lífsleiðinni.
En hvað er höfuðverkur? Undirritaður telur að allir séu sammála um að það sé verkur eða sársauki í höfði. Það eru hins vegar alls ekki allir sammála um hvað valdi höfuðverk, enda ekki von á öðru þar sem ekki er um eina orsök að ræða fyrir þeim fjölda afbrigða sem verkur í höfði getur verið.
Eitt afbrigðið er svokallaður háls-höfuðverkur. Háls-höfuðverkur er verkur sem á upptök sín í hálsi en ekki í höfði. Talið er að 15-20% af öllum langvinnum og endurteknum höfuðverkjum sé vegna stoðkerfisvandamála í hálsi. Einnig er þetta algengasta verkjavandamálið eftir hálsskaða eins og "whiplash" (tognun á hálsi við snöggt átak t.d. við aftanákeyrslu). Háls-höfuðverk er lýst sem höfuðverk öðrum megin í höfði en getur þó verið beggja vegna en þá með aðra hliðina ríkjandi. Hann kemur í lang flestum tilfellum fram sömu megin í höfði við hvert kast en skiptir ekki um hlið eins og vill vera við mígreni. Einnig er oftast verkur í hálsi eða rétt neðan við höfuðkúpu samhliða háls-höfuðverk en oft er verkurinn það sterkur í höfði að viðkomandi áttar sig ekki á því.
Verkurinn getur einnig byrjað í hnakkanum sem svo stigmagnast og leiðir fram í enni eða augu. Þetta getur komið oft fyrir í mánuði, staðið mislengi og oft situr stöðugur seiðingur eftir þangað til verkurinn í höfðinu fer aftur versnandi. Einnig getur svimi, ógleði og eyrnasuð fylgt í kjölfarið. Að sjálfsögðu fá ekki allir mjög sterka verki í höfuðið, því stundum er þetta seiðingur sem kemur fram við aukið álag, eða við að horfa á sjónvarpið, eða eingöngu fyrst á morgnana og við kennum lélegum kodda um. Þetta getur einnig verið þreytandi stöðugur seiðingur sem aldrei virðist fara nema yfir blánóttina. Staða höfuðs hefur mikið að segja en oftar en ekki gerir viðkomandi sér ekki grein fyrir því hvaða stöður valda eða ýta undir höfuðverk, enda er hann oft lengi í sömu stöðu áður en höfuðverkurinn fer að gera vart við sig. Að sama skapi getur verið erfitt að finna stöður sem minnka verkinn en þó hjálpar oft að leggjast út af og slaka á.
Sjúkraþjálfun getur hjálpað
Flestir hafa sínar skyndiskýringar á verkjavandamálinu og gera lítið í málinu annað en taka verkjatöflur í hvert skipti sem höfuðverkurinn verður of mikill. Oft gefst fólk þó upp á þessu og leitar til læknis því bæði er þetta óþægilegt og oft mjög kvalafullt. Einnig getur hræðsla gripið um sig hjá fólki við að hafa verki í höfði.
Það er mjög skiljanlegur ótti og ættu allir að leita til læknis og fá hans álit ef um endurtekna verki í höfði er að ræða. Sjúkraþjálfarar hafa fengið menntun og þjálfun til að finna út hvort um háls-höfuðverk sé að ræða eða ekki. Ef um háls-höfuðverk er að ræða þarf að finna út hvað það er í hálsi sem veldur höfuðverk. Helstu ástæður háls-höfuðverkjar eru vöðvaójafnvægi í hálsi, liðavandamál eins og skekkjur, stífleiki, ofhreyfanleiki einstakra liða, slitbreytingar, bólga eða lélegt taugaflæði frá efstu hálsliðum og fram í höfuð. Einnig skiptir miklu máli hvernig viðkomandi beitir sér við vinnu og við hvíld, því rangt álag á hálsinn getur með tímanum orsakað verkjavandamál í höfði. Til þess að geta hjálpað viðkomandi þarf því að finna út orsök höfuðverkjarins. Oft er það auðvelt, sérstaklega þegar um nýlegt vandamál er að ræða, og meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara ætti að taka stuttan tíma. Ef vandamálið fær hins vegar ekki rétta meðhöndlun strax getur ástandið versnað til muna og fleiri verkjavandamál fara að koma fram, því aðlægir liðir og vöðvar fara þá að vinna öðruvísi og gera jafnvel illt verra. Þá þarf mjög nákvæma greiningu og meðhöndlun út frá henni verður að vera jafn nákvæm ef takast á að uppræta orsökina.
Einnig hefur komið í ljós að vandamál í hálsi eykur á aðrar gerðir höfuðverkja, eins og mígreni höfuðverk, bæði af krafti og tíðni og því nauðsynlegt að meðhöndla það strax. Áríðandi er að einstaklingur reyni að gera sér grein fyrir af hverju verkurinn stafar, þótt það sé landlægur misskilningur að höfuðverkur sé bara höfuðverkur sem ekkert sé hægt að gera við nema taka verkjatöflur. Höfuðverkur, eins og hver annar verkur, þýðir: "Það er eitthvað að!"
Sveinn Sveinsson, Sjúkraþjálfari MTc : Gáski sjúkraþjálfun : www.gaski.is