Hrund Jónsdóttir kennir ungbarnasund, við tókum létt viðtal við hana
“Ég heiti Hrund Jónsdóttir, er gift, tveggja barna móðir. Ég er með B.S. í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands og er að skrifa meistararitgerð mína í Lýðheilsuvísindum sem fjallar um upplifun mæðra á ungbarnasundi.“
„Ég vinn sem ungbarnasundskennari í Grensás endurhæfingarlauginni við Álmgerði, 105 Reykjavík ásamt því að kenna dans í grunnskóla.
Ég ákvað að bæta við mig ungbarnasundskennsluréttindum eftir að ég fór með eldri dóttur mína í ungbarnasund og byrjaði sjálf með Ungbarnasund Hrundar 2011.“
Hvað þurfa börn að vera orðin gömul til að koma?
Börn þurfa að vera orðin 3ja mánaða til að byrja en það er aldrei of seint að koma. Ungbarnasund er fyrir börn á aldrinum 3ja mánaða til 2 ára og ég er með námskeið fyrir þennan aldurshóp, Aðsóknin er mjög góð og eins og er kenni ég fimm hópum, eða um 60 börnum. Uppbygging námskeiða er misjöfn eftir kennurum en ég kenni hvert námskeið í 8 vikur, einu sinni í viku, 40 mínútur í senn.
Ég kenni byrjendum sem eru yfireitt á aldrinum 3-6 mánaða, síðan er ég með framhald 1 sem er fyrir börn á aldrinum 6-12 mánaða eða fyrir börn sem búin eru með byrjendanámskeið. Síðan er ég einnig með framhald 2 sem er fyrir börn á aldrinum 1-2 ára eða börn sem eru búin með byrjendanámskeið og framhald 1.
Hvað kostar námskeiðið?
Hvert námskeið kostar 13.500 kr, foreldrar borga ekki aukalega ofan í laugina.
Hvar ertu að kenna ungbarnasundið?
Öll námskeiðin mín eru á sunnudögum á milli klukkan 9-13 í Grensás endurhæfingarlauginni við Álmgerði, 105 Reykjavík.
Afhverju ungbarnasund?
Ungbarnasund veitir markvissa örvun og aðlögun í vatni fyrir börn á aldrinum 3ja mánaða til 2 ára. Mér finnst ungbarnasund fyrst og fremst yndisleg samverustund milli foreldra og barns. Sundið eykur sjálfstraust og virðingu barnsins fyrir vatni og markmið tímana er að barninu líði vel.
Börn geta hreyft sig á margvíslegri hátt í vatni en þau gera á landi og er ungbarnasund mjög styrkjandi á allan hátt fyrir litla líkama. Sum börn eru frekar lin þegar þau byrja og þau styrkjast oft mikið á því að vera í sundi þegar þau eru aðeins nokkra mánaða gömul. Mikil örvun eykur hreyfiþroska og það er einmitt það sem við viljum.
Mörg börn eru einnig með mikla hreyfiþörf og þá þau útrás fyrir hana í sundinu.
Sundið styrkir einnig félagsþroska, þau fá að uppgötva önnur börn, koma við þau og leika með þeim. Sundið eykur tengslamyndum milli barnanna. Og það er yndislegt að sjá hvað þeim finnst gaman að fá að vera saman. Einnig tel ég að ungbarnasund styrki félagsleg tengsl milli foreldra og barna.
Nánari upplýsingar um sundið mitt má finna HÉR og einnig á Facebook.