Að breyta eigin lífi - Guðni og mánudagshugleiðing
Þú býrð yfir mættinum til að breyta þínu lífi – enginn annar og ekkert annað hefur þann mátt
Í dag ætlum við að skilja rými og gildi þess að taka til og ganga í verkin. Við veljum eitt verkefni fyrir daginn, verkefni sem við náum að klára með því að byrja að morgni og halda svo áfram seinnipartinn þegar komið er heim úr vinnu. Þetta getur verið að tæma bílskúrinn, taka til í ruslaskúffunni, taka til í nokkrum skápum, setja upp hillur eða loftljós, flokka myndir til framköllunar eða hvaðeina sem hefur staðið til lengi.
Við förum í gegnum skápa og fataskápa og losum okkur við hluti sem hafa engan annan tilgang en að fylla rými á heimilinu og þar með í okkar tilvist; rými sem er nauðsynlegt til að skapa sprengikraft til umbreytingar. Við þekkjum svo vel tilfinninguna sem fylgir því að ljúka verkum, einkum þeim sem við höfum frestað. Það skapast ósjálfrátt aukið rými í lífinu og vellíðunartilfinningin streymir í gegnum mann.
Í þessum skrifum erum við að fást við rými hjartans. Hjartað vill fá að slá streitulaust, sleitulaust, í fullu rými. Iðrun, eftirsjá, reiði, sorg: Allt þrengir þetta að hjartanu og gerir því erfiðara fyrir. Þegar við göngum í verkin í dag segjum við hjartanu að það sé líka með í spilinu – að þessi tiltekt sé táknræn fyrir aukið hjartarými, ást í lífi okkar.