Hugleiðing dagsins frá Guðna Gunnarssyni lífsráðgjafa
Ábyrgð er orka.
Allt er orka. Orka er allt sem er. Ást er eina tilfinningin – sönn uppspretta orkunnar.
Allt annað er blekking. Orkan fæst með því að taka ábyrgð. Og ábyrgðin fæst með fyrirgefningunni. Að taka ábyrgð er forsenda þess að geta borið heilan ávöxt.
Að taka ábyrgð og fyrirgefa er að sleppa. Þú sleppur ekki fyrr en þú sleppir. Þú öðlast frjálsan vilja þegar þú sleppir þér og fyrir-gefur þér.
Þú verður ekki heill fyrr en þú nærð þér og þú getur ekki náð þér á meðan þú afneitar þér og hafnar þér, í augnablikinu. En hvað er augnablikið? Núna? Augnablikið er afrakstur alls þíns lífs; það er sá punktur sem þú stefnir alltaf á, viljandi eða óviljandi; augnablikið þitt, núna, hefur verið alla þína ævi í smíðum.
Ég hef verið í fimmtíu og sex ár að undirbúa þetta augnablik, núna. Skýtur ekki skökku við að vilja afneita því eftir alla þessa fyrirhöfn? Og þar með afneita sjálfum mér? Það er á þessum forsendum sem ég elska öll mín lífsins augnablik.