Hugmyndin um orkusuguna - hugleiðing dagsins
Annars er hugmyndin um orkusuguna forvitnileg.
Í henni birtist afar skýrt það viðhorf að við séum fórnarlömb aðstæðna, fórnarlömb á altari hins erfiða heims – viðhorf sem best er að kalla bara sjálfsvorkunn:
„Jóna er svo erfið; hún sogar alla orkuna frá mér.“
Hvernig fer þetta fram? Í gegnum ósýnilegan rafmagnskapal sem er stungið í samband við þig og orkan leidd á milli? Hugsanlega. En ef Jóna getur „stungið sér í samband“ við þig hlýtur þú að hafa þessar líka fínu innstungur sem vilja láta stinga einhverju í sig. Ástæðan fyrir því að Jóna er orkusuga er að orkan þín er galopin, tvístruð og leitandi. Þú tekur ekki ábyrgð á eigin tilfinningum og orku; hún flöktir og leitar að tengingum við aðra – til dæmis Jónu.
Manneskja sem er ekki í vitund fer í viðnám og sjálfsvorkunn. Hún vill ekki að Jóna „taki frá sér“ orkuna, hún „dæmir“ Jónu sem orkusugu og gulltryggir þar með orkusambandið á milli þeirra. Með viðnáminu, með því að streitast á móti, með því að fara inn í sjálfsvorkunnina, inn í þetta viðhorf sem okkur er svo tamt:
„Heimurinn er svo erfiður. Lífið er svo erfitt. Jóna er svo mikil orkusuga! Hringdu strax á vælubílinn fyrir mig – ég get ekki meir.“
Þetta er fórnarlambshlutverkið, dómur og sjálfsvorkunn. Viðnám. En hvað er viðnám?
Viðnám er andspyrna, mótþrói; viðnám er and-flæði og and-ást. En í leiðinni er viðnám lærdómur og tækifæri til að læra því að orðið þýðir að vera við nám; að læra af reynslunni, skilja eigið skortdýr og fækka þeim tilfellum þar sem orkutap verður. Þú verður aðeins fyrir orkutapi þegar þú vilt að manneskja sé öðruvísi en hún er. Þá fellur orkan – í vonbrigðunum. Von er væl og væntingarnar byggjast á því hvernig aðrir eiga að vera. Þess vegna verðum við aðeins fyrir orkuskorti þegar frekjan í okkur yfirgnæfir augnablikið; þegar við viljum ekki að fólk sé eins og það er.
Þetta er frekja.
Og í þessu viðnámi gagnvart lífinu er svo gaman að lifa að við leggjum hvað sem er á okkur til að lifa lengur, til að viðhalda þjáningunni sem allra, allra, allra lengst.
Streita er stjórnsemi og frekja. Viðnám gagn vart augnablikinu.
„Hver vill lifa að eilífu?“ var spurt um í frægu rokklagi. Tja, ekki ég. Ekki í van- sældinni sem einkennir lífið í þegar-veikinni, í vanmætti, í viðnámi og á forsendum skortdýrsins.
Ég vil það ekki.
Ég vil velsæld og þess vegna vel ég velsæld.
Ég vel alltaf velsæld þegar skortdýrið liggur í dvala og hjartað ræður för. Ég vel valsæld.