Hvað segir þú við sjálfa/n þig á morgnana - Mjög svo góð hugleiðing frá Guðna
Í dag er besti dagur lífs míns
Einu sinni kom ég fram á kaffistofu í vinnunni og hitti þar mann að morgni til. Hann var frekar framlágur. Í mér var galsi því ég hafði verið þakklátur á fótum í dágóðan tíma við það að skemmta mér og hvetja.
Þegar ég kom fram og sá ástand félaga míns spurði ég:
– Hva? Hvað er að sjá til þín?
Hann leit upp, frekar aumingjalegur, og sagðist vera þreyttur.
– Nú? Af hverju ertu svona þreyttur?
– Ég svaf svo illa.
– Hvað ertu að segja? Mér dettur ekki í hug að sofa illa. Ef ég sofna ekki
strax, þá hvíli ég mig samt. Af hverju svafstu svona illa?
– Ég veit það ekki.
– Og hvað var það fyrsta sem þú gerðir þegar þú vaknaðir í morgun?
– Ég hugsaði: Mikið rosalega er ég þreyttur.
– Hvað ertu að segja? Finnst þér skrýtið að þú sért þreyttur? Mér finnst það ekkert skrýtið, þú ert svo þreytandi!
Veistu hvað ég gerði í morgun? Ég vaknaði og sagði: Ég elska þig Guðni. Og í dag er besti dagur lífs míns.