Hver er það sem lítur út - mánudagur og hugleiðing Guðna
Þú lítur öðruvísi út
Fyrir nokkrum árum hélt ég námskeið tvær helgar í röð, fyrst almennt námskeið sem kallaðist Lífsráðgjafinn og helgina á eftir kennaranámskeið fyrir þá sem vildu byrja að kenna efnið mitt.
Seinni helgina stóð ég í röðinni í hádegishléinu og spjallaði við vinkonu mína. Fyrir framan okkur í röðinni var maður af kennaranámskeiðinu og vinkona mín kynnti sig fyrir honum.
„Já sæl,“ sagði maðurinn, „en takk fyrir síðast, við hittumst síðustu helgi.“ Vinkona mín rifjaði námskeiðið upp og mundi vissulega eftir manninum:
„En þú lítur allt öðruvísi út?“ sagði hún.
„Já, þakka þér fyrir,“ sagði maðurinn, „mér líður bara svo miklu betur. Ég kom á námskeiðið um síðustu helgi af því að konan mín og systir hvöttu mig til þess, en það gerðist eitthvað; það létti svo mikið yfir mér að ég ákvað að taka næsta skref og koma á þetta kennaranámskeið.“
Ég sagði ekki neitt, en þegar námskeiðið hófst lýsti ég atvikinu og spurði viðstadda hvað hefði breyst – af hverju maðurinn liti öðruvísi út. Það komu ýmsar ábendingar og vangaveltur gagnvart þessu, eins og gefur að skilja.
„En hver er það sem lítur út?“ spurði ég. Margir vildu meina að það væri sálin og ljósið í manneskjunni sem fengi að birtast á fullum styrk, með ástríðu og sýn – í stað þess að frá manneskjunni stafaði skilaboðum skortdýrsins um skort, sársauka og sjálfs- vorkunn.
Við skiljum hvað átt er við þegar manneskja er sögð geislandi. En hvar er geislinn? Sumir segja að hann komi frá manneskjunni allri, en sé skærastur í augunum. Er það þá ekki sálin sem lítur út – sálin sem birtir sig til fulls þegar hjartað hefur fengið fullt rými til að slá og tjá sig? Þegar hjartað hefur fengið að lifa, hömlulaust, í frjálsum takti flóðs og fjöru?