Fara í efni

Hvers vegna umhverfismerki?

Veröldin er að breytast. Fyrirtæki þurfa að leita leiða til að spara, afla sér nýrra viðskiptavina sem hafa nýjar hugmyndir og kröfur, auk þess að halda í þá sem fyrir eru og þróast í takt við tímann. Ólíkt því sem margir halda fylgir sparnaður því að uppfylla kröfur umhverfismerkja. Það er vegna þess að kröfurnar snúast oftast um að nýta betur, kaupa minna og fara vel með.
Svansmerkið
Svansmerkið

Veröldin er að breytast. Fyrirtæki þurfa að leita leiða til að spara, afla sér nýrra viðskiptavina sem hafa nýjar hugmyndir og kröfur, auk þess að halda í þá sem fyrir eru og þróast í takt við tímann. Ólíkt því sem margir halda fylgir sparnaður því að uppfylla kröfur umhverfismerkja. Það er vegna þess að kröfurnar snúast oftast um að nýta betur, kaupa minna og fara vel með.

Fyrirtæki sem uppfylla kröfur umhverfismerkja sýna fram á rekstrarsparnað, bætta frammistöðu í umhverfismálum, aukna samkeppnishæfni vegna vistvænni innkaupa stofnana og fyrirtækja, bætta ímynd, betri þjónustu og bættara verklag svo nokkuð sé nefnt. Það er því til nokkurs að vinna.

Umhverfismerki er vottun sem tryggir að varan eða þjónustan hafi minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrar sambærilegar vörur eða þjónusta. Umhverfismerki er því góð leið fyrir fyrirtæki til að segja viðskiptavininum á einu augnabliki að varan uppfylli hans kröfur og sé betri en vara keppinautanna. Vinna við umhverfismerki er einföld og áhugaverð leið til að bæta reksturinn.

Á bak við umhverfismerki eru kröfur um umhverfisáhrif á öllum lífsferli vörunnar, allt frá hönnun til förgunar og kröfurnar eru ólíkar milli vöru- og þjónustuflokka. Til að fá umhverfismerki á vörur og þjónustu þarf að fá vottun óháðs aðila um að kröfurnar séu uppfylltar.

Dæmi um vottuð umhverfismerki eru norræna umhverfismerkið Svanurinn og Blómið, umhverfismerki Evrópusambandsins. Slík umhverfismerki hjálpa bæði fyrirtækjum og neytendum að velja og selja sannanlega umhverfisvænt.

Greinarhöfundur: Hulda Steingrímsdóttir, ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta