Hversu mikil áhersla er lögð á styrktarþjálfun í íþróttaliðum?
Fyrir mér er styrktarþjálfun það allra mikilvægasta sem íþróttamaður getur lagt áherslu á, ásamt næringu auðvitað.
Með styrktarþjálfun getur þú aukið frammistöðu, komið í veg fyrir meiðsli, flýtt fyrir endurbata og lagt grunn að löngum og farsælum íþróttaferli.
Ég hef þjálfað marga íþróttamenn og eru þeir auðvitað misjafnir eins og þeir eru margir. Ég fer með alla mína íþróttamenn (sem eru í einkaþjálfun, ekki fjarþjálfun) í gegnum veikleika- og hreyfigreiningu sem segir mér hvernig líkaminn þeirra virkar og hvar áherslur í styrktarþjálfun þurfi að liggja.
Íþróttalið (ekki öll, en mörg) á Íslandi leggja því miður allt of lítið upp úr þessum þætti. Þó svo að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðustu ár, þá vantar enn mikið upp á. Afhverju ekki að borga styrktarþjálfara/sjúkraþjálfara sæmileg laun til þess að sjá um liðið, í stað þess að hálft liðið sé í reglulegri meðferð hjá sjúkraþjálfara. Það kostar nú sitt.
Ég bý í Noregi. Ég var með greiningu á knattspyrnumanni í síðustu viku, sem er 100% atvinnumaður í liði hér úti. Hann spilar í efstu deild og er knattspyrnan hans lifibrauð. Drengurinn er 25 ára og líkaminn hans er algjört lestarslys, frá öxlum og niður. Auðvitað fór ég að spyrja hann hvernig styrktarþjálfuninni hefði verið háttað hjá honum og hans liðum í gegnum tíðina.
Kom í ljós að styrktaræfingarnar hans í gegnum tíðina hefðu verið uppsetur og bekkpressa. Einstaka sinnum hnébeygja með mjög lélegri tækni. Hann hafði aldrei látið greina á sér líkamann, hvorki hjá sjúkraþjálfara né styrktarþjálfara. Í stuttu máli þá er hann meiddur í öxlum, mjóbaki, nára, hnjám, með óvirka glutes (rassvöðva) og með stutta hip flexors (vöðvar sem sjá um að beygja um mjöðm). Hann fer 1-2 til sjúkraþjálfara í viku í meðhöndlun.
Öll þessi óþægindi og meiðsli gera það að verkum að líkamsstaðan er mjög léleg og við það verður misbeyting þegar hann hleypur. Liðið hans er auðvitað í langhlaupum á undirbúningstímabili, allt að 10km í senn. Liðið er ekki með styrktarþjálfara, heldur hafa leikmenn aðgang að líkamsræktarstöð og eiga að fara að æfa sjálfir þegar fótboltaþjálfarinn gefur þeim fyrirmæli þess efnis. Við erum að tala um atvinnumannalið í efstu deild í fótbolta.
Ég tel að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir öll þessi meiðsl og óþægindi með réttri þjálfun og álagsstjórnun og mögulega væri þessi leikmaður mun betri í fótbolta í dag, þó góður sé. Mér finnst mjög dapurt þegar íþróttamenn fá ekki leiðbeiningar frá fagaðilum þegar kemur að styrktarþjálfun.
Skrokkurinn er atvinnutæki hjá mörgum íþróttamönnum og þarf að meðhöndla hann sem slíkan. Knattspyrnuþjálfarinn á ekki einnig að vera styrktarþjálfarinn, alveg eins og styrktarþjálfarinn sér ekki um knattspyrnuþjálfun. Nema auðvitað bakgrunnur þeirra og reynsla geri þeim kleift að sinna báðu.
Ástæðan fyrir að ég tek þetta dæmi er að mér finnst mjög dapurt þegar íþróttamenn æfa vitlaust og ýta þar af leiðandi undir meiðsl og lélega frammistöðu. Sjálfur æfði ég vitlaust á yngri árum, allt of mikið oft á tíðum og vildi óska að ég hefði fengið rétta þjálfun frá ca. 16 ára aldri.
Ef þú ert íþróttamaður, þá er ég með skilaboð til þín: Það er mjög mikið af frábærum styrktarþjálfurum og sjúkraþjálfurum á klakanum sem geta á stuttum tíma séð hvað þú þarft að vinna í, til þess að koma í veg fyrir meiðsl og bæta hjá þér frammistöðu. Ef það er alvara á bakvið þínar æfingar, þá mæli ég með að þú leitir þér að einum slíkum.
Athugið að ekki er hægt að koma í veg fyrir öll meiðsl en með vel þjálfuðum skrokk, álagsstjórnun og stignun í æfingum, þá tel ég að hægt sé að minnka líkur á meiðslum töluvert. Það vita allir sem hafa æft íþróttir hvað það er mikilvægt að missa ekki úr og halda stöðugleika í æfingum og hvíldum.
Frammistaða hlýtur að vera markmið allra þeirra sem koma að þjálfun, iðkun og rekstri í íþróttafélagi.
Ekki gleyma að LIKE-A á facebook
Grein af vef FaglegFjarþjálfun.
Vilhjálmur Steinarsson, Þjálfari
Menntun:
Íþróttafræðingur B.Sc frá Háskólanum í Reykjavík
Námskeið:
- Uppbygging æfingakerfa-Lee Taft
- Ólympískar lyftingar-Lee Taft
- Stafræn þjálfun-Mike Boyle
- Afreksþjálfun íþróttamanna í Serbíu með núverandi styrktarþjálfara CSKA Moscow
- Strength & conditioning clinic í Pesaro á Ítalíu sumarið 2011. Á vegum styrktarþjálfara Toronto Raptors í NBA deildinni, Francesco Cuzzolin.
- Námskeið í mælingum (Súrefnisupptaka og mjólkursýruþröskuldur)
- Elixia TRX group training instructor.
- Running Biomechanics – Greg Lehman
- Running assessment and rehabilitation- Greg Lehman
Villi hefur stundað körfubolta síðan hann man eftir sér og spilað með þremur liðum í úrvalsdeild, Haukum, Keflavík og síðast hjá ÍR.
Villi starfaði sem styrktarþjálfari hjá úrvalsdeildarliði ÍR í körfubolta í tvö ár, áður en hann flutti út til Noregs.
Nú starfar Villi sem styrktarþjálfari fyrir íþróttamenn og hefur einnig yfirumsjón með styrktarþjálfun í framhaldsskóla sem ætlaður er íþróttafólki úr hinum ýmsu íþróttagreinum. Einnig vinnur hann náið með sjúkraþjálfurum á stöð sem heitir Stavanger Idrettsklinikk (www.stavangeridrettsklinikk.no)
Ásamt því að einkaþjálfa, þá fær Villi til sín íþróttafólk úr öllum áttum í nákvæmar greiningar og mælingar (Vo2 max, mjólkursýruþröskulds mælingar, o.fl) þar sem hann hjálpar þeim að bæta frammistöðu og skipuleggja þjálfun.