Jákvætt skref í okkar samfélagi
Manneskjan er í alls konar litum og gerðum en stundum þurfum við aðstoð og þá getur verið gott að vita hvert hægt er að leita.
Á Akureyri var lögð niður dagdeild geðdeildar þegar hrunið kom vegna sparnaðar en við vitum að vandamál hverfa ekki og fólk þarf hjálp og þess vegna var Grófin geðverndarmiðstöð stofnuð hinn 10. október 2013.
Óhætt er að segja að þörfin var og er mikil þar sem daglega mæta 20 til 25 manns sem segir sitt eftir tveggja ára starf að eitthvað er að virka sem fær fólkið til að koma og takast á við sjálft sig með öðrum á jafningjagrunni. Við fengum hvatningarverðlaun frá forvarna- og fræðslusjóðnum „Þú getur“ fyrir framúrskarandi forvarnar- og fræðslustarf sem vakið hefur athygli og hjálpað mörgum að stíga skrefið í átt að bættum lífsgæðum. Um leið var fjórum einstaklingum úr Grófinni sem eru í háskólanámi veittir námsstyrkir sem er ómetanlegt og gefur öðrum um leið von um að margt sé hægt með góðum stuðningi.
Hugarafl og Grófin geðverndarmiðstöð
Ég fór suður haustið 2009 í Ráðgjafarskóla og var búinn að lesa mér til um Hugarafl og fannst þessi hugmyndafræði um valdeflingu og batamódelið spennandi en á leiðinni þangað hugsaði ég „nei, ég er ekki svona geðveikur“, var með ranghugmyndir og fordóma gagnvart öðrum og þekki það þegar aðrir hugsa það sama sem getur hindrað fólk í að leita sér aðstoðar.
Ég tók skrefið í Hugarafl og sneri ekki heim fyrr en þremur árum seinna, ég sé ekki eftir þeirri vinnu í sjálfum mér og sá marga einstaklinga ná góðum bata ef ekki fullum bata af sínum geðröskunum en fyrst og fremst öðlast bætt lífsgæði sem við öll þráum og ef þú ert að hugsa það sama og ég gerði gefðu þessu tíma og tækifæri. Ég var á miklum lyfjum en er á litlu í dag með því að nýta mér m.a. Hugarafl. Hugsanlega verð ég lyfjalaus einhvern tímann en það er ekki markmið í sjálfu sér.
Sama má segja að hjá okkur í Grófinni hafa menn getað minnkað við sig lyf eftir að hafa tekið skrefið og nýtt sér hjálpina með að hafa sinn lækni með í ráðum. Grófin geðverndarmiðstöð vinnur eftir hugmyndafræði Hugarafls sem er valdefling og batamódel sem felur m.a. í sér að ná tökum á eigin lífi með því að efla sjálfan sig með öðrum notendum og fagmönnum á jafningjagrunni.
Heitt á könnunni
Ef þú ert að einangra þig, ert með grímu til að fela þína vanlíðan og finnst allt vonlaust og sérð ekki tilgang með þessu lífi þá sakar ekki að koma við og kynna sér starfsemina. Geðraskanir fara nefnilega ekki í manngreinarálit frekar en önnur áföll sem fólk verður fyrir í lífinu en að fá sér kaffi og spjalla kostar ekkert og hver veit nema að það gæti hjálpað. Maður veit víst ekki nema maður gefi sér tækifæri og tíma og miðað við fjöldann sem kemur til okkar gæti verið að þetta hentaði þér. Grófin er staðsett í Hafnarstræti 95., 4. hæð, fyrir ofan Apótekarann í göngugötunni á Akureyri.
Höfundur greinar:
Eymundur Eymundsson