Kalt veðurfar getur aukið líkur á hjartavandamálum
Samkvæmt rannsókninni, sem var bresk og birtist í tímaritinu British Medical Journal á sínum tíma, var komist að því að veðráttan hafi áhrif á líkurnar á því að fá hjartaáfall.
Rannsóknin náði til 84 þúsund Breta sem lagðir voru inn á spítala vegna hjartaáfalla á árunum 2003 til 2006. Rannsóknin leiddi í ljós að þegar hitastig lækkar um eina gráðu á celsíus aukast líkurnar á að fá hjartaáfall í sömu vikunni og hitalækkunin átti sér stað, um tvö prósent.
Tvö prósent er ekki há tala en samkvæmt rannsókninni var eldra fólk og þeir sem eru veilir fyrir hjarta sérstaklega viðkvæmir fyrir kólnandi veðri. Vísindamennirnir sögðu jafnframt að fyrri rannsóknir hefðu sýnt að blóðþrýstingur hækkar þegar kólnar í veðri, blóðið þykknar og hjartað þarf að hafa meira fyrir því að dæla blóði um kroppinn og var talið að það gæti verið skýringin á niðurstöðum rannsóknarinnar.
Í rannsókninni var tekið tillit til þátta eins og áhrifa frá loftmengun, sjúkrasögu sjúklinga og langtíma veðrabreytinga.
Það eru engin ný sannindi að við getum ekki stjórnað veðrinu og allra síst hér á Íslandi, en við getum reynt að verja okkur gegn kuldanum eftir fremsta megni með því að klæða okkur eftir aðstæðum, þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir.
Farið varlega í hálkunni.
Þýtt og endursgt úr ýmsum áttum.
Björn Ófeigs.
Heimild: hjartalif.is