Læknisskoðun á þriggja til fimm ára fresti
Svanur Sigurbjörnsson, lyflæknir á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi, segir æskilegt að halda sér sem næst kjörþyngd þegar líkamleg heilsa er annars vegar en það geti reynst erfitt, auðveldara sé um að tala en í að komast.
„Mikið er rætt um mataræði og kolvetnakúra en í sjálfu sér er margt af því sem gert hefur verið síðustu áratugi á réttri leið. Við erum farin að borða meira grænmeti og fólk er orðið meðvitað um mikilvægi þess að borða minna af unnu fæði, sérstaklega unninni kjötvöru. Sýnt hefur verið fram á að unninn matur er krabbameinsvaldandi,“ segir Svanur.
„Harðir kolvetnasnauðir megrunarkúrar valda vöðvatapi og eftir megrunina kemur það niður á fólki því að það brennur færri hitaeiningum og á auðveldara með að fitna en ella,“ bætir hann við.
Brennt er slæmt
Mikilvægt er að gæta jafnvægis í fæðunni og vanda valið á kjöti og grænmeti. Sumum hættir til að borða of mikið af kjöti en Svanur leggur áherslu á að vanda til valsins, borða meira af hvítu kjöti og fiski og draga heldur úr rauða kjötinu. Mettuð dýrafita í daglegri neyslu á kostnað fljótandi ómettaðrar fitu hækkar fitusýrur í blóði, lækkar „góða“ kólesterólið og er því á endanum slæmt fyrir kransæðarnar. Varðandi krabbamein þá er rautt kjöt ekki í sjálfu sér skaðlegt heldur þegar kjötið er of steikt, of brennt eða of grillað.
Svanur mælir með því að leita aðstoðar hjá næringarfræðingum og fagfólki vegna samsetningar og útfærslu á fæðu. Þá er mikilvægt fyrir fjölskyldurnar að vera samtaka í fæðuvali og heilsusamlegu líferni, þar kemur inn samfélagslegur og andlegur stuðningur.
Á þriggja til fimm ára fresti
Heilbrigðiskerfið býður upp á reglulegt eftirlit með heilsufari. Svanur mælir með að fylgst sé reglulega með blóðsykri og kólesteróli. Hann telur nóg fyrir fólk upp úr miðjum aldri að fylgjast með því á þriggja til fimm ára fresti hafi menn góð gildi, góðar blóðfitur og eðlilegan blóðsykur og þá sérstaklega ef fólk fitnar ekki of mikið, lendir ekki í alvarlegum veikindum eða verður kyrrsetufólk.
„Ef sterk ættarsaga er um vond gildi að ekki sé talað um reykingar þá þarf að skoða heilsufarið nánar og fara í þolpróf eða áreynslupróf, sérstaklega ef menn verða varir við breytingar á heilsufari sínu. Reykingamenn í tugi ára þurfa líka að láta athuga sig betur hjá Hjartavernd og fara í sérstakar rannsóknir til að skoða kransæðarnar fái þeir brjóstverk sem gæti verið frá hjartanu, svokallaða hjartaöng,“ segir hann.
Hreyfa sig rösklega
Hreyfing er af hinu góða en öfgafull hreyfing kemur yfirleitt niður á fólki að lokum með aukinni tíðni meiðsla. Það er því hinn gullni meðalvegur sem skiptir öllu máli.
Þegar hreyfing er stunduð er mikilvægt að gera ekki bara eitthvað pínulítið í 20 mínútur þó að það sé betra en ekkert heldur þarf að hreyfa sig rösklega. Gott er að gefa sér tíma og ákveðna grunnþjálfun til að ná upp ákafanum, ná púlsinum upp í góðan þjálfunarpúls eins og æskilegt er. „Það gerir talsvert meira fyrir heilsuna en bara rólegar æfingar,“ segir Svanur.
Viðkvæmari með aldrinum
Fyrir þá sem eru á áttræðisaldri eða þar yfir gildir það sama að með aldrinum verða menn viðkvæmari og eiga frekar meiðsl á hættu. Yfir sextugu getur fólk lent í því að hásin, axlarsin eða vöðvar slitna allt í einu. „Þess vegna þarf fólk sem ekki hefur hreyft sig lengi að fara sérstaklega varlega og byggja sig rólega upp,“ segir hann.
Á þessum aldri er líkaminn lengur að ná sér eftir æfingar og þarf því að taka hreyfinguna með meiri þolinmæði. „Fólk á öllum aldri getur bætt sig og orðið betra. Það getur þjálfað sig upp úr hvaða ástandi sem það er,“ segir Svanur og leggur áherslu á að þeir sem eru nýstignir upp úr veikindum eða þurfa aðstoð gegnum sjúkraþjálfara fari varlega og taki sér þann tíma sem þarf.
Heimild: lifdununa.is