Fara í efni

Lífið er aldrei tilgangslaust - Hugleiðing á föstudeginum langa

Föstudagurinn langi og hugleiðing frá Guðna.
Ljósmynd: Eran Yerushalmi
Ljósmynd: Eran Yerushalmi

Líf þitt er aldrei tilgangslaust

– Hver er tilgangur lífs þíns?
– Ég veit það ekki.
– Það er frábært! Nú höfum við skilgreint núverandi tilgang þinn!
– Hvað áttu við?
– Núverandi tilgangur þinn er skortur og fjarvera. Þegar þú veist ekki hver þinn tilgangur er þá er óviljandi tilgangur þinn skortur. Löngun. Von. Væl. Sjálfsvorkunn.

– Nú?
– Já. Og nú hefurðu tvo möguleika – að halda áfram með þann tilgang eða velja að skapa þér nýjan tilgang. Með ásetningi, með vali, með valdinu sem þú hefur.

Það er stórkostleg stund í lífi hvers manns þegar hann uppgötvar frjálsan vilja. Það er stundin sem hann tekur ábyrgð á lífi sínu og fyrirgefur sér. Það er á þeirri stundu sem hann verður skapari og stjórnast ekki lengur af venjum og ósjálfráðum viðbrögðum. Það er sú stund þegar hann gefur sér heimild til að ákveða sinn eigin tilgang og láta ljós sitt skína, óhindrað.