Lífshamingja okkar Íslendinga
Íslendingar hafa mælst með hamingjusömustu þjóðum heims síðustu þrjá áratugi. Meðalhamingjan hefur verið um eða yfir átta á skalanum 1-10 samkvæmt Embætti Landlæknis. Þessi tala lækkaði eitthvað í hruninu og árin þar á eftir en hefur farið vaxandi aftur síðan. Sé litið til fjölmiðla, og ekki síst samfélagsmiðla, virðist það vera sjálfsögð krafa í nútíma samfélagi að öllum eigi að líða vel. Allir eiga rétt á því að vera hamingjusamir og lifa áhyggjulausu lífi. Ef þú ert ekki hamingjusamur, er eitthvað alvarlegt að þér og ástæða til að leita aðstoðar. Við eigum að vera ástfangin, njóta velsældar í starfi, líta óaðfinnanlega út, þéna vel og jafnvel njóta frægðar og frama.
Ef fólk er spurt hvað það vill fá út úr lífinu er svarið gjarnan á þá lund að það vilji vera hamingjusamt og eiga frábæra fjölskyldu. Einnig að vera í vel launuðu starfi sem þeim líður vel í. Það eru samt ekki allir tilbúnir til þess að leggja á sig langa vinnuviku og sinna þeim hluta starfsins sem er óspennandi, eins og pappírsvinnu eða endurtekin verkefni. Sumir eiga erfitt með að fara á fætur í skammdeginu og skríða í ískaldan bílinn í kolsvörtu myrkrinu. Snúa síðan aftur heim mörgum tímum seinna þegar myrkrið hefur skollið á aftur. Það eru heldur ekki allir tilbúnir til þess að takast á við þær áskoranir sem reyna á vitsmunalega og tilfinningalega getu. Að hafa hugrekki til að gera eitthvað sem getur mistekist. Sumir vilja nefnilega njóta velgengni án þess að taka nokkra áhættu, án þess að fórna nokkru og vilja fá umbun erfiðis síns strax.
Svipað má segja um náin sambönd. Allir vilja vera í ástríku og innihaldsríku sambandi, lifa góðu kynlífi og vera almennt í frábæru sambandi. En það eru ekki allir tilbúnir til þess að leggja á sig þá áhættu sem er þessu samfara. Að vinna sig í gegnum erfið samskipti, takast á við erfiðleika sem koma upp með því að opna á tilfinningar sínar, að sigla í gegnum súrt og sætt. Margir velja að forðast þessa erfiðleika sem sambandið bíður upp á. Láta sig dreyma um gott samband eða hvernig þeir vildu að sambandið væri en leggja ekki á sig það sem þarf til að komast þangað. Festast í „hvað ef...“ hugsunum í stað þess að takast á við hlutina. Þessi hugsun súrnar síðan með aldrinum og breytist smám saman í „ef ég hefði bara...“ eða „hvað ég hefði viljað óska mér að....“.
Staðreyndin er nefnilega sú að hamingja og velgengni krefst þess að maður ströggli og hafi fyrir hlutunum. Hamingjan er þannig aukaverkun af öllu stritinu. Við getum reynt að forðast neikvæða hluti í lífi okkar en það varir aðeins í stuttan tíma. Erfiðleikar og þrautir lífsins eru alltaf handan við hornið. Stöðug forðunarhegðun leiðir til þess að við missum sjónar á því sem skiptir okkur máli.
Við eigum yfirleitt fremur auðvelt með að takast á við jákvæða upplifun en erfitt með að takast á við neikvæða upplifun. Það er samt umhugsunarefni að það sem við fáum út úr lífinu ákvarðast ekki af því jákvæða sem okkur langar til að upplifa heldur hversu viljuð og getumikil við erum til að takast á við erfiðleika og þjakandi tilfinningar.
Útlitsdýrkun hefur aldrei verið eins mikil og í dag. Allir vilja líta sem best út en sú niðurstaða fæst ekki nema með því að leggja mikið á sig í ræktinni, stunda heilsurækt af kappi, tileinka sér góðar matarvenjur og almennt leggja rækt við líkamann allan sólarhringinn.
Aðrir eru uppteknir af frama og vilja stofna nýtt fyrirtæki og þéna vel. Það gerist hinsvegar ekki án óvissu og því fylgir ákveðin áhætta. Það þarf að leggja mikið á sig og jafnvel gera ráð fyrir mistökum. Einnig þarf að verja gríðarlegum tíma og fyrirhöfn í verkefnið. Viðkomandi þarf að getað höndlað þetta allt án þess að vera með tryggja niðurstöðu um velgengni.
Flest viljum við eiga maka og vera í dásamlegu sambandi. En það gerist ekki án þess að taka tilfinningalega áhættu. Höndla líkur á höfnun og upplifa spennu og tilhlökkun sem kannski breytist í vonbrigði. Hluti af „leiknum“ er að bíða eftir símtali sem kannski kemur aldrei, fá skilaboð með einhverjum hætti sem hægt er að túlka á ýmsa vegu, gera áætlanir sem ganga ekki upp, o.s.frv. Vandinn er að þú getur ekki unnið í þessum „leik“ án þess að taka þátt.
Velgengni ákvarðast ekki af því sem þú vilt njóta heldur hvað þú ert tilbúin til að leggja á þig. Gæði lífsins ákvarðast ekki af jákvæðri reynslu heldur fremur af neikvæðri reynslu. Sá sem höndlar vel erfiðleika, ströggl og neikvæða reynslu er góður í því að höndla lífið sjálft.
Vandinn er sá að það dynja á okkur daglega skilaboð um annað. Það má heyra frasa eins og „þú átt skilið að vera hamingjusamur“ eða „verkur er ekki eðlilegt ástand“. Einnig má heyra klisjur eins og „þú færð það sem þú vilt“ eða „þú ert það sem þú hugsar“. Allir vilja fá eitthvað út úr lífinu en margir vita ekki hvað það er sem þeir vilja eða eru ekki tilbúnir til að leggja á sig erfiðið sem því fylgir.
Ef þú vilt njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða þarftu einnig að vera reiðubúinn til þess að takast á við kostnaðinn sem því fylgir. Ef þú hefur látið þig dreyma um eitthvað í langan tíma en ekkert færst nær draumi þínum er kannski ástæða til að staldra aðeins við. Er þetta eitthvað sem þú virkilega vilt eða er þetta eitthvað sem þú vilt bara láta þig dreyma um? Kannski er betra að spyrja sig: Hvað er ég tilbúin til að leggja á mig, ströggla við, þjást fyrir? Svarið við þessu segir kannski meira um það sem skiptir þig máli í lífinu heldur en draumar þínir og langanir. Það segir meira um þig sem manneskju hvað þú ert tilbúin að leggja á þig í lífinu heldur en hvað þig endilega langar til að njóta í lífinu. Þó þetta geti augljóslega stundum farið saman.
Sem unglingur lét ég mig dreyma um að slá í gegn sem rokkstjarna. Ég hlustaði á heilu plöturnar liggjandi uppi í rúmi og ímyndaði mér að ég væri söngvarinn eða aðal gítarleikarinn. Væri að spila fyrir framan öskrandi áheyrendur og nyti stöðugrar hylli. Ég greip meira að segja í gítar og reyndi að læra þrjú grip en var lélegur að æfa mig þar sem mig verkjaði í fingurna. Varði hinsvegar miklu meiri tíma í að liggja fyrir, hlusta og láta mig dreyma. Einnig spilaði tímaleysi inn í þetta hjá mér þar sem ég var upptekinn við að mennta mig, ljúka stúdentsprófi, fara í háskóla og freista þess að komast í sálfræði í Bandaríkjunum. Ég varði miklum tíma í þennan draum og neitaði mér um margt á móti. Las, glósaði og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að láta þetta rætast. Strögglaði og strögglaði, gafst ekki upp. Þarna liggur einmitt djúpstæður munur. Annarsvegar draumurinn um að verða rokkstjarna þar sem ég var meira upptekinn af útkomunni heldur en sjálfu ferlinu að komast þangað. Hinsvegar draumurinn að læra sálfræði og komast í góðan skóla í Bandaríkjunum. Þar var ég tilbúinn til þess að leggja á mig blóð, svita og tár.
Svona er með margt í lífi okkar. Við viljum fá umbunina (útkomuna) en ekki strögglið sem því fylgir að komast þangað. Þau gildi sem skipta okkur máli í lífinu eru þau gildi sem skilgreina hver við erum. Þeir sem eru tilbúnir að leggja á sig í ræktinni og breyta mataræði sínu eru þeir sem komast í gott í ræktinni og breyta mataræði sínu eru þeir sem komast í gott form. Þeir sem leggja á sig aukavinnu á kvöldin og um helgar eru þeir sem njóta velgengni í starfi. Þeir sem höndla óvissu og oft fjárhagslega erfiðleika þess að framleiða list eru þeir sem koma list sinni á framfæri, o.s.frv.
Málið er að það sem við strögglum við, ákvarðar hvað viðuppskerum.
Birt með góðfúslegu leyfi SÍBS