Líkamsræktin bætir svefninn
Hve mörg okkar sem slitið hafa barnsskónum geta sofið í þá 6 til 8 klukkutíma sem talið er að flestir þurfi til að hvílast nægilega? Sumir einfaldlega gefa sér ekki þann tíma, en fyrir aðra er það munaður sem sjaldan fæst vegna svefnvandamála.
Það virðist rökrétt að álíta að þreyta geti auðveldað fólki að sofna og sofa vel en svo er ekki alltaf. Allavega skiptir tegund þreytunnar máli, þreyta sem kemur frá líkamlegri áreynslu er betri sú sem er af völdum andlegs álags. Bandolier, sem er breskt vísindarit, gerði stutta úttekt á rannsóknum sem gæti varpað ljósi á tengsl þjálfunar og svefns og tók út þrjár rannsóknir. Ein beindist að eldra fólki, önnur að eldra fólki sem átti við þunglyndi að stríða og sú þriðja að konum eftir tíðahvörf.
Fyrsta rannsóknin tók til fólks á aldrinum 50 til 76 ára sem hafði átt við væg svefnvandamál að stríða, notaði ekki svefnlyf og var kyrrsetufólk. Þeim var skipt í tvo hópa þar sem annar hópurinn fór í líkamsrækt fjórum sinnum í viku í 16 vikur, en hinn hópurinn fékk enga líkamsþjálfun. Í upphafi tók það fólkið að meðatali tæpan hálftíma að sofna og meðalsvefntími var sex klukkustundir. Eftir 16 vikur tók það líkamsræktarhópinn um korter að sofna og svefntíminn lengdist í tæpa sjö klukktíma. Engin breyting var hjá hinum hópnum.
Önnur rannsóknin beindist að fólki sem var greint með þunglyndi, var eldra en sextugt og stundaði aerobik þjálfun tvisvar í viku eða oftar. Meðferðin fólst í orkufrekri styrktarþjálfun þrisvar í viku í 10 vikur. Viðmiðunarhópur fékk fræðslu, en ekki líkamsþjálfun. Niðurstaðan var sú að tæplega helmingur þeirra sem var í líkamsþjálfun sagðist sofa betur, en enginn í viðmiðunarhópnum.
Þriðja rannsóknin var gerð meðal kvenna eftir tíðahvörf og sem ekki voru á hormónameðferð. Hópnum var skipt í tvennt þar sem annar hópurinn var í líkamsþjálfun fimm sinnum á viku í eitt ár, en hinn var í teygjuæfingum í klukkustund á viku í eitt ár. Hvorki líkamsþjálfunin né teygjuæfingarnar virtust hafa bætandi áhrif á svefninn, þó notuðu færri af þeim sem voru í teygjuæfingum svefnlyf. Í þessari rannsókn var einnig skoðað hvort það skipti máli að stunda í líkamsrækt á morgnana eða kvöldin og niðurstöður bentu til þess að þeim sem stunduðu þjálfun á morgnana gengi betur að sofna.
Tekið skal fram að þetta er ekki tæmandi úttekt á rannsóknum á áhrif hreyfingar á svefn, en flestar virðast benda til þess að líkamsþjálfun bæti svefn. Auk þess sem hreyfing hefur margvísleg önnur heilsubætandi áhrif.
Þeir sem eiga við svefnerfiðleika að stríða ættu að stunda hreyfingu með meðaláreynslu í 4 til 6 klukkutíma á viku.