Fara í efni

Ljósuganga 4 til 6 júlí, gengið til styrktar LÍF - allar nánari upplýsingar er að finna hér

Guðrún Teitsdóttir ljósmóðir
Guðrún Teitsdóttir ljósmóðir

Skipulag Ljósugöngu. Nú fer þetta að bresta á, eða næsta föstudag verður lagt í hann.

Áheit renna óskipt til LÍF. Styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans. Hægt er að leggja upphæð að eigin vali inn á reikn. 515-14-411000, kt. 501209-1040, merkt LJÓSUGANGA. Einnig er hægt að hringja í 907-1115.

 

Ljósuganga hefst í Borgarnesi við Hyrnuna, föstudaginn 4. júlí, mæting er kl. 8.00. Ljósuganga er hugsuð sem kvennaganga en karlmenn eru velkomnir sem sérlegir aðstoðarmenn sinna kvenna. Allar konur ganga á eigin forsendum hvað varðar gistingu, fæði og klæði. 

Konur eru beðnar um að tilkynna þátttöku og áætlaða göngulengd á ljosuganga@gmail.com

Gert er ráð fyrir að allar konur ungar sem aldnar geti tekið þátt á sínum forsendum. Hver og ein kona getur komið inn í gönguna hvar á leiðinni sem er og gengið með eins og henni hentar. Hvert spor skiptir máli.

Göngustjóri er Vala Friðriksdóttir en hún starfar m.a. sem fararstjóri hjá Útivist. Vala gerir ráð fyrir að hver dagleið taki að meðaltali 10 klst. þar sem ekki er ætlunin að fara hratt yfir. Við ætlum að stoppa, tala og skoða umhverfið. 

a

Einnig verða lesnar stuttar sögur frá starfi Guðrúnar ljósu.

Heiðursgöngufélagar eru:
• Guðrún Anna Guðmunda Árnadóttir sem er eina eftirlifandi barn Guðrúnar ljósu. Guðmunda verður 93 ára gömul í ár.
• Hildur Harðardóttir yfirlæknir fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Landspítala.

Fyrsta dagleið, föstudaginn 4. júlí.
Mæting er kl. 08.00 og ganga hefst kl. 08.30.

Gengið verður frá Borgarnesi að Bifröst, alls 35 km. 
Hótel Bifröst tekur á móti þeim sem þess óska og býður upp á gistingu í svefnpokaplássi, kraftmikla kjötsúpu um kvöldið og staðgóðan morgunverð að morgni á kr. 10.000 kr. fyrir fullorðinn, 5.000 kr. fyrir 13-18 ára og frítt fyrir 12 ára og yngri. Hver og ein kona sér um pöntun á gistingu. Hægt er að senda póst á Hótel Bifröst, hotel@bifrost.is, og merkja pöntun „Ljósuganga“.

Önnur dagleið, laugardaginn 5.júlí. 
Ganga hefst kl. 08.30

Gengið er frá Bifröst að Fornahvammi, alls 27 km.
Þar sem Fornihvamur stóð er nú tún þar sem hægt er tjalda, setja upp tjaldvagna eða hjólhýsi. Karlmennin sem tengjast hverri og einni verða örugglega boðnir og búnir til að setja upp aðstöðu fyrir sína konu. 

Þriðja og síðasta dagleið, sunnudaginn 6. júlí. 
Ganga hefst kl. 08.30

Gengið frá Fornahvammi að Grænumýrartungu, alls 25 km. Þessi ganga verður erfiðust vegna hækkunar. Við tökum okkur því góðan tíma og hugsum til Guðrúnar ljósu sem gekk í hríð og lélegu skyggni í pilsi og dönskum skóm fyrir 100 árum síðan.

Ljósugöngu líkur í Grænumýrartungu. 
Gaman væri að grilla og njóta gönguloka saman.

Kæru konur, það verður gaman að ganga saman og styrkja mikilvægt og verðugt verkefni. Í leiðinni hugsa 100 ár aftur í tímann til formæðra okkar sem áttu ekki gönguföt, farsíma eða alla þá fylgihluti sem við eigum okkur til aðstoðar til að ljúka markmiði okkar.

a