Fara í efni

Lyfjafræðingar á LSH svara spurningum um lyf á Alþjóðlegi lyfjafræðinga 25. september

Þekktu lyfin þín.
Svona voru nú lyfin geymd í gamla daga
Svona voru nú lyfin geymd í gamla daga

Frá lyfjafræðingum á Landspítala:

Lyfjafræðingar á Landspítala hrinda af stað átakinu „þekktu lyfin þín“ á alþjóðlegum degi lyfjafræðinga 25. september 2014. 
Sjúklingum, gestum og starfsfólki Landspítala er í tilefni dagsins boðið að koma og spyrja spurninga varðandi lyf.
Lyfjafræðingar verða í Kringlunni á Landspítala Hringbraut frá kl. 10:00 til 15:00 þar sem fólk getur litið við.

„Að mörgu er að huga þegar þörf er á lyfjameðferð. Til þess að fá sem mest út úr lyfjameðferðinni er mikilvægt að sá sem tekur lyfin sé upplýstur um þau. Það er mikilvægt að við gerum okkar besta til að styðja við þá sem eru að taka lyf og þá sérstaklega þá sem þurfa að reiða sig á lyfjameðferð til lengri tíma.
 
Þeir sjúklingar sem eru vel upplýstir um lyfin sín eru líklegri til að geta þrifist með sínum sjúkdómi og líklegri til að taka lyfin sín. Þannig getur fræðsla um lyf stuðlað að margvissari meðferð á sjúkdómum, dregið úr sóun lyfja og þá um leið sóun skattpeninga. Rannsóknir hafa sýnt að óviðeigandi lyfjanotkun veldur miklum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og er í mörgum tilfellum ástæða innlagnar á spítala.
 
Til þess að geta verið upplýstur er mikilvægt að nýta þá aðstoð sem býðst, meðal annars aðstoð lyfjafræðinga. Aðgengi að lyfjafræðingum er víðast gott því apótek eru víða, þau eru opin stóran hluta sólarhrings og ekki er þörf á að panta tíma. Ætíð er hægt að óska eftir samtali við lyfjafræðinga í apótekum.
 
Ef lyfjafræðingur telur þörf á að viðkomandi leiti læknis þá mun hann ráðleggja það. Það er brýnt að stuðla að markvissari lyfjanotkun á Íslandi og til þess að ná því markmiði verðum við öll að leggjast á eitt - sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn.“