Fara í efni

Magdalena Dubik sölustjóri hjá Andrá heildverslun í laufléttu spjalli

Hún Magdalena lifir og hrærist í tveimur ólíkum heimum og er að eigin sögn hugfangin af þeim báðum.
Magdalena Dubik
Magdalena Dubik

Hún Magdalena lifir og hrærist í tveimur ólíkum heimum og er að eigin sögn hugfangin af þeim báðum.

"Ég er sölustjóri hjá Andrá heildverslun sem dreifir heilsu- og snyrtivörunum PENZIM, Coddoc og ZoPure, þetta eru snyrtivörur með íslenskum þorskaensímum sem vakið hafa mikla athygli víða um heim. Einnig er ég í líffræðinámi við Háskóla Íslands" sagði Magdalena.

Hvernig byrjar þú hefðbundin dag og hvað er í morgunmat ?

Ég byrja daginn frekar snemma og alltaf á því að taka tíkina mína, Brownie, út að labba. Ég er alltaf að sækja í mig veðrið með morgunmatinn og er ánægð með að hafa náð að venja mig á að borða hafragraut eða haframorgunkorn á hverjum morgni og helst einhvern ávöxt til viðbótar.

Er eitthvað sem þú átt alltaf til í ísskápnum?

Já, Biomjólkin er alltaf á sínum stað - bæði í ísskápnum og maganum!

Áttu gott ráð fyrir okkur sem vöknum stundum með mygluna á morgnana ?

Mér líður best á morgnana ef lífið er í þokkalegri rútínu. Ef ég sofna á réttum tíma eru morgnarnir alveg fyrirtak en það er auðvelt að mygla á mánudagsmorgnum ef helgin hefur verið of ærslafengin. Sem sagt - fara fyrr í háttinn!

Hvernig leggst skammdegið í þig ?

Mér líður svo sem ekkert illa í skammdeginu en er samt dugleg að kveikja á kertum og reyna að hafa það notalegra í birtunni inni en myrkrinu úti. Svo verð ég að viðurkenna að skammdegið pirrar mig svolítið vegna þess hve erfitt er að sinna aðaláhugamálinu, köfuninni, þegar myrkrið skellur á á miðjum degi. Stundum gríp ég í staðinn til fiðlunnar til að slá á „létta strengi" og breyta dimmunni í pínulítið dagsljós.

Borðar þú allan mat eða ertu grænmetisæta ? 

Ég borða allan mat en reyni að sneiða framhjá hvíta hveitinu og viðbætta sykrinum ef ég get. Ég er því vakandi fyrir því hvað ég set ofan í mig en læt samt ýmislegt eftir mér ef ég fæ virkilega vatn í munninn!

Hversu oft í viku æfir þú og hvernig æfingar ertu að gera?

Ég kalla hreyfinguna mína svo sem ekki æfingar. Ég fer í langa kröftuga göngutúra sem mér finnst alltaf hressa bæði líkama og sál. Þeir eru líka fínir til að núllstilla hugann og gera t.d. bil á milli vinnunnar og námsins. Í köfuninni er líka mikil brennsla. Græjurnar eru þungar þó þær séu í vatni og kuldinn hraðar efnaskiptum. Mér skilst að 45 mínútna köfun sé á við einn og hálfan tíma á hlaupabrettinu þannig að líkamsræktin mín er að minnsta kosti talsverð yfir sumarmánuðina

Áttu uppáhalds tíma dags ?

Tja... ég er yfirleitt vel upplögð á kvöldin en mér finnst líka fínt að vakna snemma um helgar, hita gott kaffi og hafa það notalegt - jafnvel áður en aðrir á heimilinu rífa sig á lappir.

Færir þú hjólandi um borgina ef færð og aðstæður leyfðu  ?

Nei, ég hef aldrei verið mjög dugleg að hjóla. Mér finnst hins vegar gaman á línuskautum og ekki síst þegar Brownie er til í að draga mig! Hún er stór og öflug og vill gjarnan taka á svolítið aukalega á með því að draga börn á sleðum eða mig á skautum.

Kaffi eða Te ?

Kaffi - helst bara svart og sykurlaust.

Ef þú værir beðin um að gefa eitt gott ráð til hóps af fólki, hvaða ráð væri það? 

Að minna fólk á að hófsemi er lykill að heilbrigðum lífsstíl. Ég hef tekið mínar öfgatarnir eins og svo margir aðrir en þær hafa bara fært mér skammtímaárangur sem þegar upp er staðið skiptir flesta litlu máli.