Fara í efni

Marta María yngir fangelsismálastjóra um tíu ár

Smartlandsdrottningin Marta María Jónasdóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að hollustu, heilbrigðu líferni, stíliseringu og hönnun.
Marta María lumar á æskubrunni.
Marta María lumar á æskubrunni.

Smartlandsdrottningin Marta María Jónasdóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að hollustu, heilbrigðu líferni, stíliseringu og hönnun. Hún veitir kærkomna innsýn í snyrtihilluna sína á Facebook í dag og óhætt er að segja að þar kenni margra fróðlegra grasa. Og krema.

Hún kynnir úrval þeirra efna sem hjálpa henni að vera jafn sæt og hún er með þessum orðum: "Verkefnið minímalískur lífsstíll gengur svona líka vel. Ætli mér endist ævin til að nota allt þetta eðalstöff?"

Hún bætir því svo við að kærastinn hennar, Páll Winkel fangelsismálastjóri, njóti góðs af snyrtivörusafni hennar enda hafi hann yngst um "10 ár síðan ég fór að bera á hann serum og svona."

Þá er sú ráðgáta leyst en glöggir hafa tekið eftir að Páll hefur sjaldan litið jafn vel út og verið jafn ferskur og eftir að hann byrjaði með Mörtu smörtu.

Fangelsismálastjóri er húmoristi góður, ekki síður en kærastan, og leggur orð í belg í athugasemdum við myndina: "Það er nú ekki einu sinni pláss fyrir tannburstann minn. Hann þarf að vera á gólfinu sökum plássleysis!"

Allir karlmenn ættu því að hafa í huga að serum er ef til vill ekki síður mikilvægt en tannburstinn þegar kemur að því að halda sér ungum.