Fara í efni

Matur eða mauk – skiptir útlitið máli?

Já – reyndar! Vinsældir drykkja og þeytinga ýmiss konar, sem gerðir eru með því að mauka og þeyta saman mat, svo sem ávexti, grænmeti og fleira, hafa vaxið verulega á síðustu árum. Nú er svo komið að margir fullnægja hluta af orkuþörf sinni með því að drekka slíka drykki í stað þess að tyggja og borða matinn sem fer í drykkinn.
Matur eða mauk – skiptir útlitið máli?

Já – reyndar! Vinsældir drykkja og þeytinga ýmiss konar, sem gerðir eru með því að mauka og þeyta saman mat, svo sem ávexti, grænmeti og fleira, hafa vaxið verulega á síðustu árum. Nú er svo komið að margir fullnægja hluta af orkuþörf sinni með því að drekka slíka drykki í stað þess að tyggja og borða matinn sem fer í drykkinn. Að mörgu leyti er þetta skemmtileg þróun sem eykur fjölbreytni og gefur nýtt bragð, enda hafa blogg og matreiðslubækur verið frábærlega uppáfinningasamar við að koma alls kyns uppskriftum á framfæri. Þetta getur jafnvel orðið til þess að einstaklingur sem áður borðaði lítið af ávöxtum og grænmeti er farinn á fá meira af þeim vegna þess að drykkirnir höfða frekar til hans. Sú þróun er virkilega jákvæð.

Sykurbombur
Á hinn bóginn er vel þekkt að máltíð sem samanstendur úr drykkjum og þeytingum sem innihalda kolvetni í einhverri mynd, svo sem úr ávöxtum eða öðrum kolvetnaríkum matvælum, hækkar blóðsykur hraðar heldur en ef sömu máltíðar er neytt á föstu formi. Sykurstuðull er mælikvarði sem notaður hefur verið til að meta hversu hratt kolvetni á formi glúkósa frásogast úr meltingarveginum og inn í blóðrásina eftir máltíð. Rannsóknir sýna að þegar búið er að mauka matinn, til dæmis epli eða peru, þá á glúkósinn (og ávaxtasykurinn) greiðari leið inn í líkamann.

Í þeytingum er ávöxturinn oft notaður heill en frásog er ennþá hraðar séu trefjarnar sem er að finna í öllum ávöxtum skildar frá eins og þegar um er að ræða hreina ávaxtasafa. Þessir drykkir mælast þannig með enn hærri sykurstuðul eða þann sama og sykraðir gosdrykkir. Matvælafyrirtæki hafa verið dugleg við að bjóða alls kyns mauk, þeytinga og tilbúna drykki til sölu. Tilbúnir þeytingar geta verið næringarrík vara en eru í sumum tilfellum sykurbombur. Það er því alltaf ástæða til að kynna sér vöruna og lesa innihaldslýsinguna.

Tíminn og magnið
Inn í þetta blandast einnig sú staðreynd að yfirleitt erum við fljótari að innbyrða sama magn af mat með sogröri en á föstu formi. Þetta er mikilvægur punktur. Svo dæmi sé tekið má áætla að það taki u.þ.b. 5 sekúndur að drekka úr glasi magnið af safa úr einu epli, 20 sekúndur að sjúga með röri maukað epli en 120 sekúndur að borða það niðurskorið í báta. Annað sem ætti að hafa í huga er að á drykkjarformi hættir okkur til að innbyrða mun meira magn í einu en náttúran kannski ætlaðist til. Í einu glasi af appelsínusafa sem við skellum í okkur á nokkrum sekúndum getur verið safi úr fimm appelsínum – en við næðum aldrei að borða fimm appelsínur á sama tíma.

Hvað segir líkaminn um þetta?
Skiptir þetta einhverju máli? Frá degi til dags getur þetta haft áhrif á líðan okkar. Hækki sykur í blóð hratt eftir máltíð er hann sleginn niður aftur með aðstoð insúlíns, því hraðar sem frá- sogið er hraðar. Slíkar sveiflur virðast til dæmis geta haft áhrif á vitræna getu eftir máltíð. Þá virðast flestir finna fyrr fyrir svengd á nýjan leik eftir að hafa innbyrt drykki en eftir máltíð. Þá leitum við aftur í mat, oft orkuríkan mat, fyrr en annars hefði verið og það hefur áhrif á orkuinntöku.

Þannig sígur þyngdin auðveldar uppávið. Fyrir þann sem þarf að þyngjast eða á erfitt með að viðhalda þyngd er vel þekkt að drykkir eru prýðileg leið til að fá heilmikla orku inn í líkamann á stuttum tíma. Það er því ekki að undra að fyrir þann sem hefur áhuga á að léttast getur ein leið verið að sleppa drykkjum öðrum en hreinu vatni.

Þeytingar geta verið af öllum stærðum og gerðum og geta jafnvel komið í staðinn fyrir máltíð, en eru stundum bara millimál, allt eftir orku og næringarefnasamsetningu. Það getur verið gott að þekkja orkuinnihald þeytinga til að vita hvort orkan sé næg til að spá fyrir um líkur á löngun í sætindi seinna sama dag. Einnig er gott að vita að mismunandi samsetning próteina og fitu hefur áhrif á frásog annarra næringarefna. Það er nefnilega jafn neikvætt að borða of lítið og of mikið – líkaminn bregst við öllu á viðeigandi hátt. Einstaklingsmunur er þó mikill og greinilegt að sumir eru mun viðkvæmari fyrir sveiflum í blóðsykri og þeim viðbrögðum sem fylgja í kjölfarið heldur en aðrir og á það ekki bara við um þá sem eru greindir með sykursýki eða skert sykurþol.

Trefjar – frábærir félagar
Trefjar tefja frásog næringarefna inn í líkamann og bæta meltinguna. Við erum lengur södd eftir svipaða máltíð sem þarf að tyggja. Trefjarnar eru að auki mikilvægt fóður fyrir bakteríuflóruna í þörmunum sem tekur þátt í að halda okkur heilsuhraustum. Það er hluti af þroskaferli lítilla barna að læra að tyggja – munum að kenna þeim það en rétta þeim ekki oftast eina skvísu, þó hún geti verið frábær á stundum. Ávaxta- þeytingur sem inniheldur trefjarnar úr ávextinum, og jafnvel grænmeti að auki, er því alltaf betri kostur en ávaxtadrykkur án trefjanna. En ávöxturinn sjálfur er þó yfirleitt betri kostur og þeytingar ættu ekki að koma alfarið í staðinn fyrir ávaxta og grænmetisneyslu.

Á Rannsóknastofu í næringarfræði við Matvælaog næringarfræðideild HÍ höfum við upp á síðkastið verið að skoða áhrif ýmissa matvæla á blóðsykursveiflur og líðan. Niðurstöðurnar hafa verið mjög áhugaverðar og ástæða er til að halda rannsóknunum áfram og skoða sérstaklega matvæli sem eru framleidd hérlendis eða mikið er borðað af á Íslandi. Eftir því sem fleiri eru til í að taka þátt í slíkum rannsóknum með okkur, því fyrr komumst við nær sannleikanum um líkamann og virkni hans. Á þessari stundu benda vísindagögn frekar til þess að best sé fyrir líkamann að fá næringuna oftar á formi matvæla sem við þurfum að tyggja en á formi mauka eða þeytinga, sem eru þó betri kostur en drykkir. Útlit matarins skiptir því máli, bæði fyrir bragð og upplifun en ekki síður fyrir efnaskipti og seddutilfinningu. Almennt ættum við þó alltaf að gefa okkur tíma til að borða, hæfilegt magn, og njóta – líka þeytinganna.

Heimild : sibs.is

Bryndís Eva Birgisdóttir
Næringarfræðingur