Meðgönguannáll – Nínu Salvarar
Einhversstaðar í gagnabankanum á ég minningu um einhvern skynsaman halda því fram að 28 ár séu mjög heppilegur aldur til þess að eignast fyrsta barn.
Ég veit ekki hversu ofarlega þessi hugmynd var mér í huga þegar við kærastinn tókum þá ákvörðun að láta á þetta reyna, en merkilega fljótt hlotnaðist okkur þessi dýrmæta gjöf og ég var ein heima dimman mánudagsmorgun í febrúar þegar ég stóð með lítið hvítt prik í höndunum.
Það er ótrúlegt hvernig stærstu fréttirnar sem maður getur fengið á lífsleiðinni birtast á jafn hæverskan hátt. Á priki á stærð við rokeldspýtu sem maður hefur í ofanálag pissað á.
Þessi tími var mjög erfiður, og mánuðirnir á undan höfðu verið það líka. Kærastinn minn átti við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða og gekk illa að vinna bug á honum. Ég var skugginn af sjálfri mér, andlega og líkamlega, gersamlega uppgefin eftir neyslu hans og ítekuð föll. Hann var nýfarinn inn á meðferðarstofnun þegar ég komst að því að ég væri ófrísk, og hann var þar inni næstu sjö vikurnar. Eins og þeir sem þekkja til slíkra mála geta vottað, þá fara aðstandendur fíkilsins með til heljar ef ekki er gripið inn í með markvissum hætti og slitið á strengina sem flækir alla inn í óvissuna og ógeðið.
Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur.
Ég var nokkrum mánuðum áður byrjuð að vinna mig út úr meðvirkni með aðstoð fagaðila, en eins og gerist í flestum sambærilegum tilfellum stýrði fíknivandi hans lífi mínu á mörgum sviðum. Á tímabili var ég að deyja úr meðvirkni, í fyllstu merkingu hvers orðs. Ein birtingarmynd álagsins var átröskun, sem færðist í fullan kraft þegar allt virtist stjórnlaust. Ég var fíkin í svelti og viðurkenninguna sem fylgdi lækkandi kílóatölu, og hafði þessi draugur fylgt mér til margra ára. En þegar ég varð ólétt breyttist allt og ég áttaði mig á því að næring væri núna og eftirleiðis forgangsatriði. Hugmyndin um heilsu mína sem einkamál var óverjandi. Ég var núna að fara að takast á við mikilvægasta hlutverk lífs míns, til lífstíðar. Ég ákvað að leita mér aðstoðar við átröskuninni og taka málið föstum tökum, og ófæddu barninu og sjálfri mér hefur heilsast mjög vel alla meðgönguna.
Meðgangan fór hinsvegar að taka toll um þetta leyti, en ég fékk alvarlega meðgönguógleði sem varði í sex vikur. Ég komst ekki fram úr rúminu heilu dagana, hætti að geta sinnt skólanum, svaf og kastaði upp til skiptis, ein heima í rökkrinu. Ég einangraðist mjög mikið á þessum tíma, en lá og mókti og horfði á þætti á netinu á þeim stundum sem ég hafði rænu. Ég komst ekki út í búð en fékk fólk til að fara fyrir mig. Ég reyndi að þrauka þetta einn dag í einu og álagið á geðheilsuna var hryllingur.
Ég fór í vökvagjöf á sjúkrahús í tvö skipti, og fékk lyf til þess að draga úr ógleðinni. Þegar þessu tímabili var lokið hafði ég léttst um 5 kg frá upphafi meðgöngu (en ég var of létt fyrir), og þá tók við markviss áætlun um að þyngjast aftur og ná upp eðlilegri þyngd. Það var ekki auðvelt, en það tókst.
Það sem sló mig mest á þessum tíma var hvernig meðgangan virtist draga fram bæði það versta og besta í fólki í kringum mig. Skyndilega urðu óviðeigandi hlutir viðeigandi, undarleg og stjórnlaus afskiptasemi varð gjaldgengur samskiptamáti og sumir reyndu meira að segja að hafa áhrif á ákvörðun okkar um að eignast barnið, með ótrúlegustu leiðum, sem jöðruðu við sturlun. Ekki myndi ég sjálf vilja taka ábyrgð á ákvörðun annarar manneskju um að eiga barn, með öllu sem því fylgir en fólk hugsar skammt og megnið af þessu var eflaust meint vel. Fólk meinar sjaldnast illa, þótt það sé bókstaflega að skaða annað fólk.
Ég var sjúklega meðvirk og hafði þannig laðað að mér fólk sem var sjálft veikt af meðvirkni, stjórnun og þóknun, en sá leiði sjúkdómur er lúmskur að því leiti. Samhliða þessu þurfti ég að taka ákvarðanir sem vörðuðu framhaldið, spyrja sjálfa mig stórra spurninga, t.a.m. hverskonar og hvaða manneskjur vildi ég hafa í lífi barnsins, og hverskonar heimili vildi ég búa því? Svörin létu ekki á sér standa, ég vissi hvað ég vildi, en framkvæmdin var svo annað og meira verkefni.
Búsetumálin og fjárhagurinn voru viðamikið mál. Ég hafði verið námsmaður, liðið var ár síðan ég tók ákvörðun um að hætta að nota áfengi (eftir djammtímabil sem varað hafði nánast óslitin 13 ár) og fjárhagsstaðan eftir því. Ég þurfti að aðskilja fjárhag og búsetu okkar kærastans með öllu, þar sem ég gat ekki hangið í lausu lofti á meðan hann barðist við fíknina.
Ég þráði öryggi og öryggi var það síðasta sem hann gat boðið mér á þessum tíma. Hann gekk nokkrum sinnum á dyr og tjáði mér að hann vildi ekki sjá mig eða barnið, en kom síðan til baka fullur eftirsjár. Klassískt mynstur sem allir þekkja sem reynt hafa og að öllu leyti sambærilegt við helvíti á jörðu.
Svona gekk lífið fyrstu vikur og mánuði meðgöngunnar. Ég ætlaði samt ekki að gefast upp, og vissi alltaf að ég myndi í öllu falli búa mér og barninu gott heimili, með eða án föðursins. Ég treysti mér til að verða móðir en ég treysti honum ekki alltaf til að verða faðir. Og þetta var engin samfelld sigurganga.
Vegna stjórnleysis og neyslu kærastans varð ég heimilislaus, peningalaus og á stundum varð ég hrædd og vonlítil eins og innikróað dýr. Og hér var svo komið að sumar manneskjur nýttu tækifærið og slúðruðu með efasemdir um hæfni mína til að vera móðir, smjöttuðu á öllu dramanu og fullyrtu um persónu mína, í sjálfskipuðum fullum rétti, þar sem ég hafði þrátt fyrir allt ekki lokað endanlega á barnsföður minn. Mér barst þetta til eyrna í mörgum tilfellum.
Í fyrstu varð ég sár, en með tímanum varð mér sama. Mig langaði ekki að hafa þetta fólk í lífi barnsins, og því nýja lífi sem ég var að reyna að skapa sjálfri mér.
Ég trúði að kærastinn minn gæti náð bata. Trúin var misheit á milli daga, en vildi á sama tíma búa svo um hnútana að hann drægi mig ekki niður í svaðið hvert sinn sem honum skrikaði fótur. Ég þurfti að endurheimta sjálfa mig og mitt eigið líf úr viðjum meðvirkninnar. Baráttan fyrir sjálfri mér hafðist að lokum með aðstoð fagfólks og reynslumikilla aðila sem höfðu gengið í gegnum svipaða hluti, og ómetanlegum stuðningi aðstandenda. Og ekki síst vegna þess að ég stóð með sjálfri mér.
Mér fannst lengi erfitt að segja það upphátt, að eiga eitthvað í þessum sigri. Þegar ég lít um öxl þá er þetta ferli með því erfiðasta sem ég hef gert, og ég gerði mistök á leiðinni. En ég stóð mig. Og þó að ég hafi barið á meðvirkninni má þó árétta að lotan er sigruð en ekki stríðið. Ég þarf að rækta þennan bata á hverjum degi.
Um vorið fann ég frábæra íbúð, eftir dauðaleit og ómetanlega aðstoð frá vinum og kunningjum á samfélagsmiðlum og víðar og lagði drög að því að koma fjárhagnum á fætur. Ég stofnaði nýtt heimili og um svipað leyti urðu vatnaskil hjá barnsföður mínum. Við tókum aftur saman og fórum okkur hægt í fyrstu, ég setti mörk sem ég vissi að ég gæti staðið við (ekki bara mörk sem mig langaði að standa við en gat síðan ekki) en síðan kom að því að hann varð fyrir þeirri andlegu vakningu sem öllum fíklum er nauðsynleg til að ná bata. Hann hefur ekki drukkið síðan. Batinn hans er sagan hans, og ég læt honum eftir að segja þá sögu.
Ég hef aldrei á ævinni verið jafn hamingjusöm og ég er í dag. Ég er í bata frá meðvirkni og átröskun, og áfengi eða leiðir til að deyfa vitundina er það síðasta sem mig langar í, vegna þess að lífið fullnægir mér eins og það er, líka þegar það rignir og plokkfiskur er í matinn á þriðjudögum og Framsóknarflokkurinn er við völd.
Ég vinn að því alla daga að viðhalda batanum með leiðum sem hafa reynst mörgum vel. Ég er bjartsýn á framhaldið og samband mitt við fjölskyldu og góða vini er betra og heiðarlegra en það hefur nokkru sinni verið.
Ég kann að setja fólki mörk og ég veit hvert mig langar að fara með framhaldið. Ég veit ekki endilega “hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór”, en ég veit hvað ég þarf að gera til þess að halda í hamingjuna. Ég velti mér ekki upp úr því lengur, daga og nætur, hvað öðru fólki finnst um mig, hvort að það dæmi mig fyrir að hafa gefið kærastanum lokatækifærið eða hafa yfirhöfuð ákveðið að eiga dóttur mína. Fólk má halda hvað sem það vill. Og ég ræð því sjálf hvaða hráefni ég nota í lífið sem mig langar til að lifa, fyrir mig og barnið mitt.
Ég óska engum þess að lenda í því sama og ég gekk í gegnum, en ég er reynslunni ríkari og ég veit að einhvers staðar handan við hornið bíður mín sá dagur þegar ég get sagt fullum fetum að ég vildi ekki hafa sleppt neinu. Ég mun alltaf búa að þessari reynslu.
Hér á landi eru starfandi samtök sem aðstoða fíkla, og systrasamtök sem aðstoða aðstandendur. Án aðstoðar slíkra samtaka værum við fjölskyldan ekki á þeim góða stað sem við erum í dag, og ég er því góða starfi ævinlega þakklát.
Ég vona að allir sem lesa þennan pistil megi finna styrk og frið í sjálfum sér, en ekki öðru fólki, vímugjöfum eða öðru. Við þurfum að taka ábyrgð á eigin líðan og láta af þeirri hugmynd að aðrir hafi úrslitavald yfir henni.
Og í þessu öllu hefur ítrekað sannast að hamingjan er ákvörðun en ekki áfangastaður.
Nína Salvarar