Fara í efni

Nigella fordæmir megrunarkúra

Sjónvarpskokkurinn vinsæli Nigella Lawson er komin aftur á kreik, hressari sem aldrei fyrr. Hún er að fara af stað með nýja þáttaröð á BBC 2 og sendir samhliða því frá sér nýja matreiðslubók. Hún kynnti þessi nýju verkefni í viðtali við tímaritið Good Housekeeping og þar fordæmir hún megrunarkúra og þakkar jóga fyrir í hversu góðu formi hún er núna.
Nigella hefur aldrei farið í megrun.
Nigella hefur aldrei farið í megrun.

Sjónvarpskokkurinn vinsæli Nigella Lawson er komin aftur á kreik, hressari sem aldrei fyrr. Hún er að fara af stað með nýja þáttaröð á BBC 2 og sendir samhliða því frá sér nýja matreiðslubók. Hún kynnti þessi nýju verkefni í viðtali við tímaritið Good Housekeeping og þar fordæmir hún megrunarkúra og þakkar jóga fyrir í hversu góðu formi hún er núna.

Hún segir allt í lífinu snúast um jafnvægi og þess vegna sé hún alfarið á móti öfgakenndum megrunarkúrum og því að fólk festi sig í ákveðnum fæðutegundum til þess að grenna sig.

"Ég myndi hvorki vilja lifa eingöngu á búðingi úr chia-fræjum né steik og frönskum," segir Nigella við Good Housekeeping. Hún bætir svo við að fólk geti gengið að því sem gefnu að það sem talið er gott fyrir fólk á þessu ári verði sagt óhollt á næsta ári.

Nigella er þekkt fyrir safaríka og girnilega rétti og þeir verða enn til staðar í nýju þáttunum og bókinni Simply Nigella, en í bland verður hún með léttari uppskriftir. "Hluti af því að finna jafnvægið er að gera sér grein fyrir því að mismunandi dagar kalla á mismunandi mataræði."

Nigella er 55 ára gömul og hefur grennst nokkuð á síðustu árum en segist aldrei hafa farið í megrun til þess að létta sig. Hún þakkar jóga fyrir í hversu góðu formi hún er og hversu vel henni líður núna.

"Það er vissulega rétt að ég þyngdist – það gerist stundum í lífinu. Ég hef aldrei farið í megrun til þess að létta mig og mér finnst ég ekki vera léttari en það getur verið að ég sé í betra formi," segir hún og segir ástæðuna vera Iyengar-jóga sem hún er byrjuð að stunda.

Hún leggur áherslu á að engin manneskja ætti nokkru sinni að fara í megrun en heldur ekki að éta á sig gat. Og hún er síður en svo að einblína á útlitið. "Eftir því sem þú eldist ferðu ekki síður að meta líðanina en línurnar. Jóga lætur manni svo sannarlega líða frábærlega og maður vill halda því áfram. Bara gera smá, hægt og rólega. Stundum útafliggjandi!"

Þegar talið berst að bókinni segir hún hana sýnishorn af því hvernig hún eldi og borði núna. "Allar bækurnar mínar eru á vissan hátt sjálfsævisögulegar þar sem þær segja ákveðna sögu af því hvar ég er stödd í lífinu. Þessi bók snýst mikið til um taktinn í lífinu."