Nýir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir vítamín og steinefni
Ísland hefur tekið upp norræna ráðlagða dagskammta (RDS) fyrir vítamín og steinefni með þeirri einu undantekningu að gildi fyrir D-vítamín eru hærri.
Faghópur á vegum Embættis landlæknis hefur yfirfarið norrænu ráðlögðu dagskammtana og efri mörk neyslu og er þetta niðurstaða þeirrar vinnu. Í nýju norrænu ráðleggingunum, sem kynntar voru í byrjun október, voru flest gildi þau sömu og í síðustu útgáfu frá árinu 2004. Undantekning frá þessu er D-vítamín sem var hækkað en einnig var selen hjá fullorðnum hækkað.
Sjá töflur um ráðlagða dagskammta fyrir vítamín og steinefni.
Ráðlagðir dagskammtar fyrir D-vítamín á Íslandi
Ráðlagður dagskammtur hérlendis fyrir D-vítamín er nú 15 µg (600 AE) fyrir aldurshópinn 10 til 70 ára, en 20 µg (800 AE) fyrir fólk yfir sjötugt. Ráðlagður dagskammtur fyrir börn yngri en 10 ára og ungbörn er 10 µg (400 AE) á dag.
Nýju ráðlögðu dagskammtarnir byggja á starfi norrænnar sérfræðinefndar um D-vítamín sem sett var á laggirnar vegna endurskoðunar á norrænum ráðleggingum um næringarefni.
Niðurstöður norrænu nefndarinnar voru í meginatriðum í samræmi við niðurstöður sérfræðinefnda Institute of Medicine og European Food Safety Agency sem hafa birt nýjar ráðleggingar um D-vítamín á undanförnum árum.
Við ákvörðun íslensku ráðlegginganna var, rétt eins og í fyrri útgáfum, einnig tekið mið af innlendum aðstæðum og þá fyrst og fremst færri sólardögum heldur en í nágrannalöndunum. Íslenskar ráðleggingar fyrir D-vítamín hafa fram til þessa verið heldur hærri en þær samnorrænu, og svo er einnig í þessari útgáfu.
Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er það magn vítamíns sem tengist æskilegum vítamínhag fyrir allan þorra heilbrigðs fólks, samkvæmt mælingu á styrk D-vítamíns í blóði (miðast við 25-hydroxy D-vítamín a.m.k. 50 nmol/l).
Við ákvörðun ráðlögðu dagskammtanna er gert ráð fyrir lítilli útiveru í sól, en útivera hefur mikil áhrif á D-vítamínbúskapinn. Þarfir fólks eru breytilegar og því er ráðlagður dagskammtur hærri en meðalþörfin, sem er 7,5 µg (300 AE) af D-vítamíni á dag.
Efri mörk ráðlagðrar neyslu eru 100 µg á dag (4000 AE) fyrir fullorðna, 50 µg
(2000 AE) fyrir börn eldri en eins árs að tíu ára aldri og 25 µg (1000 AE) fyrir ungbörn að eins árs aldri. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni.
Erfitt getur reynst að fá 10 µg, hvað þá 15 µg eða 20 µg af D-vítamíni úr fæðunni einni saman. Að jafnaði gefur íslenskt mataræði 4–5 µg á dag af D-vítamíni, en getur gefið allt að 6–10 µg á dag hjá þeim sem borða feitan fisk a.m.k. einu sinni í viku og nota D-vítamínbætta mjólk daglega.
Enn sem fyrr er fólk því hvatt til að taka D-vítamín sérstaklega í formi bætiefna, annað hvort lýsi eða D-vítamínpillur.
Lesa meira. Nánari upplýsingar um D-vítamín
Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir
verkefnisstjórar næringar hjá Embætti landlæknis