Nýtt heimsmet - Íslendingar áttu góðan dag
Nýtt heimsmet var sett í Maraþoni karla í Berlínarmaraþoninu í morgun 2:03.23 klst., bæting á gamla metinu um 15 sekúndur. Það var þó ekki aðeins Wilson Kipsang sem átti góðan dag í Berlín. Fjöldinn allur af Íslendingum var mættur í stemminguna í Berlínarborg og á þennan hraða kúrs sem þar er hlaupinn árlega.
Helen Ólafsdóttir var meðal keppenda og hljóp hún frábært hlaup, 2:52.30 klst sem er annar besti árangur sem íslensk kona hefur hlaupið á en tíminn gefur 920 alþjóðleg árangusstig skv. viðmiðum IAAF sem sendur fyrir alþjóða frjálsíþróttasambandið.
Helen átti best 3:00.43 klst síðan í Boston árið 2011. Tíminn er einnig innan þeirra marka sem sett hafa verið fyrir Ólympíuhóp Frjálsíþróttasambands Íslands en nú eru tvær konur komnar með þetta viðmið sem má telja nokkuð sérstak, Helen og Rannveig Oddsdóttir sem þangað til í dag var með annan besta tíma íslenskrar konu í maraþoni, aðeins Martha Ernstsdóttir ÍR hefur hlaupið hraðar en það gerði hún í Berlín 26. september árið 1999 þegar hún hljóp á 2:35.15 klst undir handleiðslu Gunnars Páls Jóakimssonar.