Fara í efni

Ofurhlaup, hvað felst í þeirri áskorun -4

Fjórði hluti
ofurhlaup
ofurhlaup

Fjórði hluti

Að afloknu ofurhlaupi er nauðsynlegt að hvíla líkamann í einhverjar vikur, nærast vel og hreyfa sig létt.

Endurheimt

Að afloknu ofurhlaupi er nauðsynlegt að hvíla líkamann í einhverjar vikur, nærast vel og hreyfa sig létt. Það skiptir líka höfuðmáli að halda góðum daglegum rytma þannig að líkaminn nái að endurheimta sitt fyrra form eftir það álag sem slíkum hlaupum fylgir. Ef sá þáttur er vanræktur eru líkur á aukinni meiðslahættu. Þú vilt að næringin endurbyggi ónæmiskerfið og styðji jafnframt við þá aðlögunarhæfni vöðvanna sem öll þjálfunin hefur gengið út á.

Margt er enn órannsakað og óútskýrt í sambandi við ofurhlaup sem áhugavert verður að fylgjast með í framtíðinni.

Líkamlegar hættur við svo mikið álag

Myoglóbín er prótein sem tekur þátt í geymslu og flutningi súrefnis í beinagrindarvöðvum. Við mjög mikið líkamlegt álag, sér í lagi í miklum hita, getur orðið mikið vöðvaniðurbrot (rhabdomyolysis) en við það losnar óeðlilega mikið af myoglóbíni yfir í blóðvökva (plasma). Eitt af hlutverkum nýrnanna er að hreinsa myoglóbín úr blóðvökvanum og skila því út í þvagið (myoglobinuria) en ef álagið verður of mikið hafa þau ekki við. Myoglóbín hefur skaðleg áhrif á þekjuvef nýrnaganganna og getur haft gríðarleg áhrif á starfsemi nýrnanna svo að dregur úr henni og hlýst jafnvel af bráð nýrnabilun. Skerðing á nýrnastarfsemi veldur skertri þvagframleiðslu svo úrgangsefni safnast fyrir í líkamanum, sem getur verið lífshættulegt. Bjúgsöfnun er einnig stórt vandamál í þessu samhengi, nokkuð sem ofurhlauparar (og maraþonhlauparar) geta lent í í keppni eða í kjölfar hennar. Mjög dökkt þvag er merki um að niðurbrot á vöðvavef hafi aukist og ástandið fari versnandi.

Til að draga úr líkum á myoglóbínúríu:

* Dagleg og reglubundin þjálfun með góðu kílómetramagni, mörgum 100-140 km vikum í minnst 4-6 mánuði, svo og góðan þjálfunargrunn og gott líkamsástand.

* Hindra ofhitnun líkamans og vökvaskort með réttum klæðnaði og vökvadrykkju. Reyndar má þjálfa sig upp í að þola mikinn hita með hitaaðlögun (acclimatization).

* Tryggja a.m.k. 3.500-4.000 kcal. á dag í keppnishlaupinu til að draga úr líkum á því að líkaminn sæki of mikla orku í eigin forða þó svo að sjaldnast sé hægt að fyrirbyggja slíkt algerlega.

*Drekka reglubundið, í samræmi við aðstæður og eftir þörfum hvers og eins, þar sem hlauparar svitna mismikið. Vatn nægir ekki eingöngu til að mæta þessari þörf heldur þurfa að koma til drykkir sem innihalda orku og sölt. Fjölbreytileiki í úrvali á drykkjum skiptir máli til að forðast ógleði og lystarleysi.

*Ef bjúgsöfnun (edema) á sér stað þarf að forðast bólgueyðandi lyf sem og önnur lyf þar sem þau geta valdið auknu álagi á nýrun. Þess í stað þarf að halda áfram að dreypa á vökva, þó svo að það auki vökvasöfnun tímabundið, og bíða þar til líkaminn snýr ástandinu við og pissa út umframvökvanum.

Grein: Fríða Rún Þórðardóttir ,Næringarráðgjafi B.S.c : Næringarfræðingur M.S.c : Íþróttanæringarfræðingur