Ofurhlaup, hvað felst í þeirri áskorun - 3
Þriðji hluti
Stundum virðist auðveldara að skipuleggja æfingar en inntöku næringar og vökva, sem þó er bráðnauðsynleg fyrir árangur, endurheimt og góða líðan. Mikilvægi þessa á svo sannarlega við þegar ofurhlaup eru annars vegar.
Vökvatap og svitamyndun
Eins og áður hefur komið fram svitnar fólk mismikið auk þess sem aðstæður eru mismunandi. Það skiptir töluverðu máli fyrir ofurhlaupara að þekkja hversu mikið þeir svitna við mismunandi aðstæður til að þeir geti áætlað það magn sem þeir þurfa að drekka, því það er ekki æskilegt að drekka umfram þörf. Viðbótarvökvi hægir aðeins á ferðinni, það kostar orku að flytja þyngri líkama úr stað og umfram vökvi sem situr í maganum getur valdið óþægindum.
Hjá meðalmanni inniheldur hver lítri af svita natríummagn sem nemur um 1/3 úr teskeið, en blóð er aftur á móti um þriðjungi saltara. Þegar einhver svitnar tímunum saman verður blóðið saltríkara en einnig þykkara. Á hinn bóginn dregur úr starfsemi nýrnanna þannig að þvagmyndun verður minni. Til að hindra ofþornun og snúa ferlinu við þarf að taka inn vökva með söltum í. Það er þó ólíklegt að hægt sé að bæta upp allan þann vökva og þau sölt sem tapast, því líkaminn getur ekki tekið upp nægjanlegt magn undir álagi. Fullkomin endurupptaka (endurheimt) þarf að eiga sér stað að hlaupi loknu með nægu vatni og söltum. Hins vegar þarf að gæta þess að drekka ekki of mikið því við það setur líkaminn vökva út í vefi líkamans og þá á sér stað bjúgmyndun í höndum og fótum. Við þetta þyngist hlauparinn en natríummagnið verður sífellt lægra (hyponatremia).
Til að áætla svitamyndun í tengslum við ofurhlaup og það álag sem þeim fylgir er eftirfarandi áætlun einföld og hjálpleg. Áður en lagt er af stað í 1-2 klst. langt hlaup er farið á salernið, og síðan vigtar hlauparinn sig án fata. Meðan á hlaupinu stendur er drukkið eftir þörfum og haldið vel utan um hversu mikið það er, til dæmis með því að telja fjölda 250 ml drykkjarbrúsa sem festir eru við drykkjarbeltið. Eftir hlaup er farið á salernið, líkaminn er þurrkaður létt með handklæði og því næst stigið á vigtina. Ef hlauparinn hefur drukkið tvo 250 ml brúsa af vökva í einnar klst. löngu hlaupi og vegur það sama fyrir og eftir hlaup, er svitamyndunin 500 ml/klst., sem er um 500 ml minna en meðaltalið. Ef hlauparinn missir á hinn bóginn hátt í hálft kg er svitamyndunin um 1 lítri/klst. að meðaltali. Ef hann bætir á sig um hálfu kílói er svitamyndunin aðeins 250 ml á klst. við þessar aðstæður.
Það sem á sér stað með tíð og tíma og betra formi er að líkaminn aðlagast og því þarf að gera slíkt próf af og til við heitar og kaldar aðstæður.
Bætiefni fyrir ofurhlaup
Ekki hefur verið hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti að vítamín og steinefni á bætiefnaformi stuðli að langlífi eða bæti lífsgæði undir venjulegum kringumstæðum. A-, E- og C-vítamín, sink og járn, helst úr fæðu, eru nauðsynleg efni fyrir starfsemi ónæmiskerfisins. E- og C-vítamín eru sömuleiðis mjög virk andoxunarefni og mikilvæg fyrir okkur öll, í íþróttum og sér í lagi úthaldsgreinum. Meðalhófið er best eins og í svo mörgu en þeir ofurskammtar sem sumir taka af ýmiss konar bætiefnum geta í sumum tilfellum verið skaðlegir og komið ójafnvægi á upptöku og nýtingu sumra vítamína og steinefna.
Sýnt hefur verið fram á að það sé mögulega ein undantekning frá þessu, og tengist hún ofurhlaupum. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á að inntaka á 600 mg af C-vítamíni á dag, sem er yfir sexfaldur ráðlagður dagskammtur, síðustu þrjár vikurnar fyrir keppni í ofurhlaupi, dró úr einkennum kvefs eftir hlaupið. Einnig hafa fengist svipaðar niðurstöður í tengslum við keppni í maraþonhlaupi og tíðni sýkinga í efri öndunarvegi.
Grein: Fríða Rún Þórðardóttir ,Næringarráðgjafi B.S.c : Næringarfræðingur M.S.c : Íþróttanæringarfræðingur